En Jesús sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar af því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: “Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni”? En hann svaraði honum: “Herra lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp”. Lúk.13.6-9
Á hverri árs-og ævitíð er allt að breytast fyrr og síð. Þótt breytist allt, þó einn er jafn, um eilífð ber hann Jesú nafn.Það fór ekki allt í lífinu eins og ég hafði fyrirhugað í upphafi ársins. Hér stend ég þó og á enn von um nýtt ár. Hversu margir hafa mennirnir til mín komið og leitað ávaxta hjá mér? Frammi fyrir Guði kem ég með tómar hendur. Þar á ég enga innistæðu, nema óverðskuldaða náðina Hans sem lífið elskar. Og Guði á ég stóra þökk að gjalda. Af því að friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveitir hjörtu okkar og hugsanir okkar í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Mig vantar styrk í kærleik, kraft í trú, og kristilega auðmýkt barnsins góða. En veikleik minn og breyskleik þekkir þú og þrá míns hjarta, bænarmálið hljóða.Ég bið um farsæld og frið á nýju ári. Horfi til baka á dagana sem liðnir eru. Reynslan er dýrmætt veganesti á ferð til móts við óráðna framtíð. En ég var ekki einn á ferð. Samferðafólkið allt sem heldur í hönd mína, styður mig og styrkir. Mikil er sú gjöf sem í einlægri vináttu felst, örlát þjónustan sem umvefur mig svo ég komist af og gildismatið kærkomið af því að það hvílir á kristnu siðgæði. Ég nýt veraldar friðar og hef nóg að bíta og brenna mér og mínum til farsældar. Ég á allt í hendi.
Þannig er þjóð minni einnig fyrir komið. Eins og í Paradís á jörð. Sjálfsöryggið og sjálfumgleðin náð slíkum hæðum, að nú má krefjast þess að slíta sjálfan kærleikann úr sambandi við rótina sína. Sumir telja sig ekki þurfa lengur að þekkja Guð og kenna sig við nafnið hans. Íslenskur maður svo hátt upphafinn, að hann er orðinn Guði fremri af viti og þroska. Bera stórvirkin ekki öll vitni um það? Jólin geta þá verið af sjálfu sér og börnin mega syngja Heims um ból ef þau taka ekkert mark á boðskapnum. Má sá maður ekki rísa upp og slá sér á brjóst og hrópa: Hér er ég sem allt get. Mikið leikur þá allt í lyndi. Getur eitthvað breytt því?
En það ber ekki allt upp á sama tíma í lífinu og einn dagur getur orðið öðrum svo ólíkur. Dagurinn sem öllu breytti. Mörg eigum við minningu um slíka stund í okkar reynslusjóði, þegar vitið brast og fann engin skynsamleg svör, og veraldlegar umbúðir, eins magnaðar og þær voru, hrundu á einu augabragði eða skiptu engu máli lengur. Heldur líflínan á milli mín og Guðs? Ekkert annað þá í boði, nema Guð mér til hjálpar í stríðandi bæn, og máttur í vináttu samferðafólks, sem rétti fram hjálparhönd án þess að biðja um endurgjald. Öll heimsins gæði gátu þá engu breytt.
Í myrkrum ljómar lífsins sól, stendur í sálminum sem okkur er svo kær. Hvort sem var í myrkrinu umhverfis fjárhúsið í Betlehem eða við krossinn á Golgata, þá opinberaðist þar einmitt vonin björtust og fegurst. Hverjum kom það til hugar? Ekki ofurviti mannsins. Víst er friður Guðs æðri öllum skilningi. Umgjörðin eða umbúðirnar segja sjaldnast fyrir um innihaldið. Það fer ekki allt fram eins og maður reiknar út. En í trú sem þorir að treysta Guði sem er að skapa gott úr illu, líkn úr þraut, ljós úr myrkri, líf af dauða, þar er lifandi von.
Lífið er dag í senn, þar sem mátturinn blómgast í auðmýkt æðruleysis. Styrkur sem hefur þrek og þor til að opna hjarta sitt fyrir Guði og samferðafólki. Vonin sem ber einlægum kærleika vitni. Maður sem þekkir sjálfan sig og játast veruleika sínum, en býður framtíðina hjartanlega velkomna af því að vonin er staðföst, mátturinn til verka reiðubúinn og trúin bjargföst um að allt verði til góðs þar sem kærleikur ræður för. Hér er Guð að verki og friður Hans er æðri öllum skilningi.
Dag í senn, eitt andartak í einu, eilíf náð þín, faðir, gefur mér. Mun ég þurfa þá að kvíða neinu þegar Guð minn fyrir öllu sér? Hann sem miðlar mér af gæsku sinni minna daga skammt af sæld og þraut, sér til þess að færa leið ég finni fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.Víst er allt að breytast og ekki allt á mannsins valdi. En mikil er sú ábyrgð sem manni er falin í krafti frelsis, að velja með ákvörðunum sínum lífi til velferðar. Sú saga getur tæpast talist ein samfeld sigurför þegar horft er til baka og maðurinn metur reynslu sína af sjálfum sér. Honum hefur ekki einu sinni tekist að koma á þeirri skikkan, að börnin sem fæðast, séu öll boðin velkomin. Langtum fleiri fæðast í raun til hungurs og örbirgðar. Heldur hefur honum ekki tekist að ráða fram úr ágreiningsefnum á milli þjóða öðruvísi en að hóta og beita miskunnarlaust valdi dauðans til þess að heimta fram vilja sinn. Á sama tíma er jörðin að springa af alsnægtum og auði, en safnast á færri og færri hendur. Er þetta dómur yfir Guði eða manni? Hver er vilji mannsins í raun og sannleika með lífið? Hvað verður þá í forgangi í íslenskum umræðum? Að gera ábyrgðina og siðgæðið, sem kennd hefur verið við kristni, sambandslausa við rótina sína? Banna börnum í skólanum að nefna Guð á nafn? Mun ástin um frið á jörð eða vonin um að öll börn verði boðin velkomin í heiminn, eflast við það? Hvað má verða kærleika og friði til framdráttar, einmitt það sem heimurinn þráir mest?
Víst truflar kristin trú sjálfumglaðan mann. Í ljósi trúarinnar kemst maðurinn ekki hjá að skynja sjálfan sig, sjá verkin sín og upplifa stöðu sína andspænis Guði og samferðafólki. Margir eru á flótta í afneitun undan sjálfum sér. Búa um sig í veröld gervi og hyllinga og horfast í augu við strútinn í gegnum sandinn. Það getur verið sárt að játast sjálfum sér og umbera aðstæður sínar í þjóðfélagi þar sem allt á að vera svo glæsilegt og þægilegt, skemmtilegt og auðvelt. Lífið er meira en samfelldur dans á rósum. Það skiptast á skin og skúrir. Alvaran rís hæst þegar erfiðleikar sýnast óyfirstíganlegir. Þá er hjálpin í von svo eftirsótt og kærkomin í hvatningu um að halda áfram og gefast ekki upp. Það finnur þú sem reynt hefur, og það veit þjóð sem hefur Guðs orð í stafni og byggir gildismat á kristnu siðgæði.
Þess vegna hrópar kristin trú á frið í stað ofbeldis, réttlæti þar sem náunganum er misþyrmt og kærleika þar sem græðgin engu eirir. Þetta er vonin sem kristin trú ber fram. Við viljum umfram allt að fagurt mannlíf blómgist. Mestu stórvirkin á sviði menningar og lista áttu sér stað í þjónustu við Guð. Framfarir svo víða mannlífi til heilla voru drifnar áfram af stórhug sem tók samfélagsheill framyfir eigin hag. Og kærleikurinn sem Jesús Kristur boðar, þráir að mega umvefja lífið allt. Guð gefst ekki upp við að kalla manninn, hvernig sem aðstæðum hans er háttað, til trúar og góðra verka. Því friður Guðs er uppspretta framfara til velferðar.
Fátækur flækingurinn gekk inn í helgidóminn, kraup og horfði niður fyrir sig um leið og hann bað stamandi röddu: Guð vertu mér syndugum líknsamaur. En herra valdsins stóð álengdar, horfði hróðugur til himins, barði sér á brjóst um leið og hann hrópaði: Guð ég þakka þér fyrir það hve ég stend mig vel, á allt og geri allt rétt samkvæmt vilja þínum.
Já, það hreykja sér margir sigurglaðir á stalli sínum á áramótum. En þau eru fleiri sem líða og hrópa á hjálp. Þar stendur Jesús Kristur mitt á meðal þeirra og segir líka við þá sem hreykja sér hæst: “Þú skalt elska náungann þinn eins og sjálfan þig”. Þegar fréttamaðurinn spurði Maríu Teresu: Hvað á ég að gefa þurfandi manni mikið, þá svaraði hún að bragði: Gefðu þangað til það særir.
Í hvaða sporum er staðið nú á tímamótum? Í heilögu orði guðspjallsins sagði:
Lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan.Það er vor lifandi von. Guð gefi okkur farsæld á nýju ári í auðmýkt og kærleika og glæði vit sem skapar frið á jörð. Í Jesú nafni Amen.