Er þörf á nýrri kirkjuskipan?

Er þörf á nýrri kirkjuskipan?

Á aðgreiningu og aðskilnaði er sá grundvallarmunur að aðgreining miðar að því að ríki og Þjóðkirkja séu tvær aðgreindar stofnanir sem þó tengist á nánari hátt en ríkið og önnur trúfélög í landinu. Aðskilnaður merkir á hinn bóginn að engin slík sértæk tengsl séu til staðar.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
16. júlí 2012

Nú stendur yfir mikil umræða um kirkjuskipan landsins. Í því efni hlýtur Þjóðkirkjan að taka frumkvæði. Kirkjuskipan setur ramma um stöðu hennar, stjórn og starfshætti. Hún á því hvað mestra hagsmuna að gæta í málinu. Að fleiru er þó að hyggja og Þjóðkirkjan getur ekki krafist þess að kirkjuskipanin ráðist einvörðungu af hagsmunum hennar enda setur kirkjan ekki kirkjuskipan nema að hluta til sjálf. Eitt af áhugaverðustu umræðuefnunum hlýtur því að snúast um hvar sá hluti kirkjuskipanarinnar endi sem á með réttu að ráðast af hagsmunum Þjóðkirkjunnar og hún á að setja sjálf og hvar önnur viðhorf eigi að koma til, þ.e. sjónarmið löggjafans og þjóðarinnar. Á 20. öld réðst þróun kirkjuskipanarinnar einkum af hagsmunum þjóðkirkjunnar og miðaðist við að auka sjálfstæði hennar og sjálfsstjórn. Þá stóð yfir aðgreiningarferli er Þjóðkirkjan greindist stofnunarlega frá ríkisvaldinu. Þessi þróun hófst með stjórnarskránni 1874 og náði lengst með setningu laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 (svokölluðum þjóðkirkjulögum). Vera má að nú standi kirkjan frammi fyrir því að ný markmið verði lögð til grundvallar við þróun kirkjuskipanarinnar. Ýmsir líta greinilega svo á að nú þegar sé endimörkum aðgreiningarinnar náð og brátt þurfi að hefjast nýtt ferli — aðskilnaðarferli ríkis og kirkju.

Á aðgreiningu og aðskilnaði er sá grundvallarmunur að aðgreining miðar að því að ríki og Þjóðkirkja séu tvær aðgreindar stofnanir sem þó tengist á nánari hátt en ríkið og önnur trúfélög í landinu. Aðskilnaður merkir á hinn bóginn að engin slík sértæk tengsl séu til staðar og að þjóðkirkja í þeirri merkingu sem lögð er í hugtakið að lögfræðilegum skilningi sé ekki til staðar. Af þessum sökum má ekki rugla saman aðgreiningu og aðskilnaði. — Íslenska Þjóðkirkjan er nú þegar að lagmestu leyti aðgreind frá ríkinu. Hér hefur aftur á móti ekki verði gerður aðskilnaður sem kunnugt er.

Trúmálaréttur, ytri og innri kirkjuskipan

Kirkjuskipan landsins er hluti af því sem kalla má trúmálarétt en í honum er kveðið á um rétt fólks — einstaklinga og félaga — á svið trúarlífsins almennt. Í lýðræðislegu velferðarsamfélagi þarf að huga vel að þessum málaflokki á tímum fjölmenningar þegar trúarlegur fjölbreytileiki fer í vöxt og trúarlegum minnihlutahópum fjölgar. Grunntónar vandaðs trúmálaréttar nú á dögum hljóta að vera trúfrelsi og jöfnuður. Við mótun hans er þó mögulegt að taka tillit til staðbundinna aðstæðna og hefða. Hér á landi hefur trúmálarétturinn t.a.m. mjög mótast af því að hér komst á þjóðkirkjuskipan 1874. Helstu þættir trúmálaréttarins hér miða sem sé að því að veita öðrum trúfélögum nokkra hlutdeild í þeim gæðum sem í þjóðkirkjuskipaninni felast. Þetta er m.a. gert með lögum um skráð trúfélög og lögum um sóknargjöld.

Með hugtakinu kirkjuskipan er átt við þau stjórnarskrárákvæði, lög, reglugerðir, starfsreglur og samþykktir sem hafa opinbert og formlegt gildi fyrir stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar og sett hafa verið af Alþingi eða Kirkjuþingi sem er æðsta stjórn Þjóðkirkjunnar jafnvel með aðkomu þjóðarinnar sjálfrar, þ.e. þegar um stjórnarskrárákvæði er að ræða.

Kirkjuskipanin skiptist í ytri og innri kirkjuskipan. Ytri kirkjuskipanin tekur til ytri mála Þjóðkirkjunnar og þá einkum tengsla hennar við ríkisvaldið. Nú myndar 62. gr. stjórnarskrárinnar slíka yri kirkjuskipan. Innri kirkjuskipanin kveður hins vegar á um skipan kirkjumálanna í smáatriðum þar á meðal stjórnkerfi hennar og starfshætti.

Hver setur kirkjuskipanina?

Nú gerir stjórnarskráin ráð fyrir að Alþingi og þjóðin ráði ytri kirkjuskipaninni. Með því er átt við að Alþingi samþykki breytingar á 62. gr. stjskr. og þjóðin staðfesti breytinguna í almennri atkvæðagreiðslu (sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr.) — nú eða hafni henni. Þá er það líka svo að Alþingi hefur víðtæk áhrif á innri kirkjuskipanina eins og t.d. kemur fram í núgildandi þjóðkirkjulögum sem kveða á um ýmis atriði sem óhjákvæmilegt er að skoða sem innri málefni Þjóðkirkjunnar sjálfrar. Þannig má líta svo á að þjóðkirkjulögin setji æskilegri aðgreiningu ríkis og Þjóðkirkju skorður og skerði jafnvel eðlilegt frelsi Þjóðkirkjunnar. Því er mikilvægt að úr því sé skorið á óyggjandi hátt hvar hinni ytri kirkjuskipan ljúki og hvar hin innri taki við, sem og hvar umboð Alþingis þrjóti og hvar umboð Kirkjuþings taki við eins og vikið var að í upphafi þessa máls.

Öðlist 19. gr. í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá gildi er knýjandi nauðsyn á að þessi skil liggi fyrir en þar segir: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. (http://stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/ sótt 13. 6. 2012). Í þessu sambandi er nauðsynlegt að skýra hvað „kirkjuskipan ríkisins“ merki og hvað það sé nákvæmlega sem bera þurfi undir þjóðina komi til breytinga. Hér skal eindregið hvatt til að litið sé svo á að hér merki „kirkjuskipan ríkisins“ hið sama og ytri kirkjuskipan er kveði einvörðungu á um tengsl ríkis og kirkju í þrengsta skilningi og ekkert umfram það. Best væri raunar að forðast orðalagið „kirkjuskipan ríkisins“ en það er óheppileg arfleifð frá stjórnarskrárbreytingu sem gerð var fyrir tæpum 100 árum. Eðlilegt er að Alþingi og þjóðin hafi áfram úrslitavald um þennan hluta kirkjuskipanarinnar og Þjóðkirkjan hlýti vilja þeirra.

Um innri kirkjuskipanina — stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar — ætti kirkjan hins vegar að vera sjálfráð og Kirkjuþing ætti að setja þann hluta kirkjuskipanarinnar í umboði Þjóðkirkjunnar. Þó þarf ríkisvaldið auðvitað að tryggja að Kirkjuþing ræki umboð sitt á lýðræðislegan máta og innan þeirra marka sem löggjöf landsins setur. Er þar átt við aðra hluta trúmálaréttarins, jafnréttislög, hegningarlög og helst líka stjórnsýslulög sem ekki gilda sjálfkrafa um „sjálfstæða“ þjóðkirkju ólíkt hinum lögunum sem nefnd eru. Af þessum sökum þarf að byggja brú milli ytri og innri kirkjuskipanarinnar. Það ætti að gera með nýjum þjóðkirkjulögum.

Ný þjóðkirkjulög

Milliþinganefnd sem starfar á vegum Kirkjuþings hefur að undanförnu kynnt tillögu að frumvarpi til breytinga á núgildandi þjóðkirkjulögum fyrir prestastefnu, leikmannastefnu og héraðsfundum víða um land. Á prestastefnu kynnti hún raunar tvær tillögur. Önnur felur vissulega í sér styttingar og einfaldanir frá núgildandi lögum. Hin gengur mun lengra í styttingum og fékk hún góðan hljómgrunn á stefnunni. Hér skal eindregið mælt með að sú leið sem þar er farin verði fyrir valinu og að þjóðkirkjulög framtíðarinnar verði stutt og einföld rammalög sem kveði einkum á um tengsl ríkis og kirkju á grundvelli núgildandi 62. gr. stjskr., 19. gr. í frumv. Stjórnlagaráðs eða einhverri hliðstæðu hennar. Þá þurfa þessi rammalög að kveða á um helstu skyldur Þjóðkirkjunnar við þjóðina og ríkisvaldið eftir því sem við á.

Þar sem þessum rammalögum sleppir skal mælt með að „stjórnskipunarlög Þjóðkirkjunnar“ taki við. Með því er átt við „lög“ eða samþykktir sem Kirkjuþing setur án aðkomu Alþingis. Þau gætu til að byrja með byggst á núgildandi þjóðkirkjulögum eða lengri tillögu milliþinganefndarinnar til breytinga á þeim. Þó ættu þau að vera nokkuð nákvæmari, einkum er tekur til starfa Kirkjuþingsins sjálfs. Samþykktir þessar ættu að vera þess eðlis að þeim verði aðeins breytt með samþykki tveggja Kirkjuþinga enda fari kosningar til Kirkjuþings fram á milli samþykktanna. Því væri um sams konar ferli að ræða og tíðkast við stjórnarskrárbreytingar enda væri hér um að ræða „stjórnarskrá Þjóðkirkjunnar“ sem m.a. væri ætlað að tempra völd Kirkjuþings og tryggja þjóðkirkjufólki nokkra þátttöku í mótun þessara meginreglna. Síðan tækju við einstakar starfsreglur og samþykktir um innri mál Þjóðkirkjunnar sem hægara væri að breyta að höfðu samráði við kenningarnefnd Þjóðkirkjunnar, prestastefnu, leikmannastefnu, héraðsfundi eða aðra kirkjulega aðila og stofnanir eftir því sem við getur átt.

Lokaorð

Fyrirkomulag það sem hér er mælt fyrir væri eðlilegt skref í þá aðgreiningarátt sem fetað hefur verið í nú um langa hríð. Þjóðkirkjunni væri með þessum hætti markaður bás í samfélaginu að frumkvæði Alþingis og með aðkomu þjóðarinnar. Hún nyti á hinn bóginn meira sjálfstæðis og sjálfsstjórnar en nú tíðkast. Ef þannig verkast gæti þetta einnig verið skref í aðskilnaðarátt standi þjóðarvilji til þess. Aðskilnaður verður enda aldrei gerður nema í skrefum og á nokkuð löngum tíma.

Loks má benda á að þessi skipan kæmi og í veg fyrir óeðlilega valdauppsöfnun hjá Kirkjuþingi og gerræði af hálfu þess gagnvart kirkjunni sjálfri þar sem allar stórar breytingar á stjórnkerfi hennar og starfsháttum yrðu að kosningamálum í kirkjuþingskosningum. Það væri stórt skref í átt að auknu kirkjulegu lýðræði.