Gjöf Guðs til þín Míka 5.1-4a, Tít 2.11-14, Lúk 2.1-14
Við skulum biðja… Eilífi Guð við þökkum þér fyrir þá miklu gjöf er þú
gafst okkur son þinn Jesú Krist svo hann gæti frelsað okkur frá syndum okkar. Þakka þér að náð þín er ný á hverjum degi og hver dagur er sem nýtt upphaf í
trúargöngu okkar með þér. Við lofum þig og þökkum þér. Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.
Það eru komin jól, loksins, segja litlu börnin enda eru jólin sögð hátíð barnanna. Þetta er tími ljóss og friðar, tími tilhlökkunar, tími minninga, t.d. um æskujólin en einnig tími söknuðar vegna þeirra sem hafa kvatt og farið á undan okkur. En nú er allt tilbúið svo að við getum notið hátíðarinnar. Í öllu jólastússinu höfum við meðal annars keypt gjafir og við bíðum spennt eftir að gefa… og þiggja…
Gjafir spila stórt hlutverk á þessum degi. En það er líka á þessum degi sem við minnumst þess að Guð gaf okkur sína stærstu gjöf, hann gaf okkur son sinn Jesú Krist og með honum, fáum við réttinn til að vera börn Guðs og erfingjar að ríki hans, því við eignuðumst bróður. Gjöf Guðs… er eilíft líf í ríki hans.
Fæðing hvers barns er
kraftaverk og nýfætt barn kallar á alla umhyggju foreldranna og á allt undir
þeim komið. Konungur alheimsins fæddist, rétt
eins og við, sem lítið og ósjálfbjarga barn.
Hvernig getur þetta litla barn
frelsað allan heiminn? og ekki aðeins
heiminn eins og hann var þá, fyrir nær 2000 árum – heldur er hann ENN í dag að
frelsa menn! Já, undursamleg áætlun Guðs um frelsun manna er virk enn í dag.
Ástæðan er að Guð gaf okkur val,
og það er því undir hverjum og einum komið hvort hann frelsast frá synd þessa
heims. Til að útskýra þetta sem best fyrir litlum börnum -af því að ég hef verið mest í æskulýðsstarfi- þá hef ég notað
afmæli sem dæmi.
Og ég segi við börnin: Ykkur er boðið í afmæli, þið kaupið gjöf og pakkið henni fallega inn, skrifið kort og eruð spennt yfir viðbrögðum afmælisbarnsins og ég spyr þau, … en krakkar, á leiðinni í afmælið þegar þið haldið á gjöfinni… HVER Á HANA? Stundum eru þau ekki viss, því þau eru búin að gefa gjöfina í huganum. En svarið er, þið eigið hana enn – þið eruð ekki búin að gefa gjöfina…og afmælisbarnið er ekki búið að taka við henni.
Á sama hátt má sjá gjöf Guðs. Guð á gjöfina þar til við höfum tekið við henni. Við verðum að taka við Jesú og trúa því að hann sé sonur Guðs. Við verðum að taka við þessari gjöf til þess að hún geti frelsað okkur. Það er þetta val sem við stöndum frammi fyrir, að velja að taka við Jesú Kristi.
Ritningin segir að við verðum að vera eins og börn, full trausti þess, að þessi gjöf sé það besta sem Guð getur gefið okkur, en um leið og við höfum opnað hjartað fyrir honum, verður hjarta okkar kærleiksríkara en áður. Þá höfum við gefið honum stærstu gjöfina okkar. Við lærum að treysta honum fyrir öllum okkar málum. Við leggjum okkar daglegu byrðar og áhyggjur við fætur hans og hann greiðir úr hverri flækju fyrir sig. Við finnum að það er gott að eiga Guð að.
En því miður eiga ekki allir áhyggjulaus jól. Þess vegna hafa sprottið upp kærleiksrík verkefni út um allan heim, þar sem fjöldi fólks vinnur að því að gleðja og hjálpa þeim sem minna meiga sín, ekki aðeins á jólum heldur allan ársins hring. Margar hjálparstofnanir, klúbbar og félög starfa innan okkar samfélags með það eina markmið að gefa frá sér, þannig getum við öll tekið þátt í að gleðja náungann, innanlands sem utan. Við getum gefið peninga til hinna ýmsu stofnana eða tekið þátt í verkefnum eins og t.d. “jól í skókassa”. Og ég hef frétt að hér í bæ hafi fólk fengið kærleiksorð frá óþekktum aðila inn um bréfalúguna hjá sér.
Það er ósvikinn kærleikur að gefa gjöf
án þess að fá nokkurn tíma að vita viðbrögð viðtakandans…
en við gefum vegna
þess að gjöfin framkallar þakklæti í okkar eigin hjarta. Hér er sælla að gefa en
þiggja og gjöfin getur verið bænasvar annars.
Ritningin segir að eigum að
elska Guð af öllu hjarta og elska náungann. við eigum að vera auðmjúk og bera út
fagnaðarerindið. Boðskapur Biblíunnar er ekki
fyrir lítinn útvalinn hóp heldur fyrir alla.
Guð gaf son sinn til þess að
hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Það er enginn
kvóti hjá Guði, hann vill ekki að neinn glatist. Guð vill eiga þig. Hann gaf þér gjöf. Hann gefur öllum sömu gjöfina. það er okkar,
að taka við henni og nú þegar jólahátiðin rennur upp og við tökum upp gjafirnar sem liggja undir trénu, þá skulum við staldra við…
Gefum okkur tíma til að hugsa um gjöf Guðs, gjöfina sem er ekki hægt að pakka inn og aðeins hægt að taka við í hjartanu… finnum og upplifum hátíðleikann og verum þess fullviss, að þegar við þiggjum þessa dýrmætu gjöf, munum við eiga stað í ríki hans. Við erum orðin börn Guðs og jólin eru hátíð barna Guðs, hátíðin okkar.
Þökkum Guði fyrir kærleika hans til okkar…. Drottinn Guð, skapari okkar og lausnari. Þakka þér fyrir að þú gafst okkur son þinn Jesú Krist og að fyrir trúna á hann verðum við börn þín. Við biðjum þig að leiða okkur á lífsgöngu okkar, víkja ekki frá okkur og að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.
Kæru systkini í Kristi, ég óska ykkur gleðilegra jóla!
24.des 2019 kl 18 í Patreksfjarðarkirkju