Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta, heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar, uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar, ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig, anda nú þinni elsku inn í mig.
Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega Hvítasunnuhátíð.
Að gera allt í einu Ég er áhugamaður um knattspyrnu og handbolta, sérstaklega þegar landsliðin eiga í hlut. Þá sit ég límdur við skjáinn og tek ekki eftir hvað er að gerast í umhverfi mínu þar til í hálfleik og þegar leiknum lýkur. Í gær var unglingalandsliðið í fótbolta að spila gegn Hvít Rússum í Danmörku og lágu flatir fyrir þeim. Í dag eru tveir landsleikir í kvenna og karla handbolta þar sem íslensku landsliðin okkar koma við sögu í mikilvægum leikjum. En ég er áhugsamur áhorfandi þegar landsleikir eru annars vegar. Svo eru margar skemmtilegar fermingarveislur hjá klerki en löng og góð hefð er fyrir því að klerkur líti við og þiggi vatn og brauð,- meti. Ég vildi að það væri búið að finna upp skjá fyrir gleraugu. Þá gæti ég gert allt í einu, horft á landsleikina báða, keyrt á milli veislna og gætt mér á veitingum og spjallað við fólk. Úff, alveg brjálaður dagur hjá klerki. Flýtum okkur hægt Þetta er ekki alveg svona einfalt þegar öllu er á botninn hvolft. Það er best að gera eitt í einu og fara að öllu með gát. Það er best að ég dragi djúpt að mér andann, heilagan anda og biðji hann að hjálpa mér. Ég treysti því að Heilagur Andi hjálpi mér í dag.
Í handbolta og fótbolta gilda ákveðnar reglur sem leikmenn verða að tileinka sér. Leikurinn fer fram innan markalína og það lið sem skorar flest mörk fær sigursveiginn. Dómarinn og aðstoðardómararnir gæta þess að leikurinn fari fram eftir settum reglum. Ella fá leikmenn aðvörun eða er gert að fara í sturtu, útilokaðir frá frekari þátttöku í leiknum.
Þetta gildir líka um leikreglur lífsins. ,,Ertu á fleygiferð inn í eilífðina?”, er vegaskilti sem eitt sinn varð á vegi mínum. Ég hugsaði ekkert út í það. Þegar ég kom heim sá ég sektarboð í netbankanum mínum. Ég hafði ekið of hratt. Síðasta sunnudag þurfti ég að ná ferju út í Hrísey. Þá voru tveir mektarmenn með mér í bílnum sem báðu fyrir mér upphátt og í hljóði á meðan ég bað til Guðs að ég myndi ekki mæta löggunni. Ég sá í baksýnisspeglinum að þeir voru fölir sem hvítasunnusólin og ríghéldu sér í það sem hönd á festi. Við mættum ekki löggunni og við náðum ferjunni á síðustu mínútunni. Ég ók löturhægt heim síðar um daginn. Það var ekkert sektarboð í netbankanum þegar ég kom heim en ég fann fyrir sektarkennd, ég vissi upp á mig sökina.
Reiðhjól með mótor Nú leggið þið við hlustir vegna þess að ég er að tala um það sem þið sjálf kannist við úr ykkar reynsluheimi. Hver og einn lítur í eigin barm að þessu leyti ásamt mér. Ég signdi mig í bak og fyrir og bað Guð að fyrirgefa mér að hafa brotið umferðarreglurnar. Því miður er það svo að sumt getum við ekki látið okkur að kenningu verða. Eitt af því er hraðakstur. Það á a.m.k. við um mig. Ég ætti kannski að fá mér reiðhjól með mótor til að nota innanbæjar. Þó að ég slái hér á létta strengi í máli mínu þá er alvörutónn undirliggjandi því að lífið er dauðans alvara. Þó að lífið sé stórkostlegt og skemmtilegt ekki síst þegar við erum börn og unglingar þá verðum við að fara varlega. Í fótbolta verðum við gæta þess að tækla ekki andstæðinginn því að þá getur hann orðið fyrir alvarlegum meiðslum. Það er líka hægt að verða fyrir alvarlegum meiðslum í handbolta. Varkárni er þörf innan vallar sem utan.
Þjálfarinn Ég hef stundum sagt að Jesús Kristur sé besti þjálfari í mannlegum samskiptum sem hugsast getur. Ef hann hefði verið ökukennari minn þá hefði ég fallið á prófinu en ég veit að hann hefði leyft mér að taka prófið aftur. Það er nefnilega svo merkilegt með þennan ágæta kennara sem lærisveinarnir kölluðu meistara að þolinmæði hans virtust lítil takmörk sett gagnvart sakbitnu fólkinu sem hann umgekkst. Hann fékk samferðafólk sitt til að horfast í augu við sig sjálf og fyrirgaf þeim syndirnar og sagði sem svo: ,,Reyndu aftur.”
Gullna reglan Í veganesti fékk fólkið t.d. gullnu regluna sem hann kenndi því, sem við könnumst við, ekki síst fermingarbörnin: ,,Allt sem þér vijið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”. Við eigum sem sagt að koma fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur. Þetta er kjarnaatriði kærleikans. Okkur finnst þetta alveg sjálfsögð regla í dag. Lærisveinar Jesú voru svolítið lengi að læra að fara eftir henni vegna þess að þeirra reynsluheimur var annar. Þar gilti frekar reglan, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Sem sagt ef þú slærð úr mér eina tönn þá hef ég fullan rétt á því að slá eina tönn úr þér, jafnvel þrjár. Við sjáum þetta svo sem gerast í heiminum í dag að flestar þjóðir, t.a.m vilja verja sitt yfirráðasvæði hvað sem það kostar og telja sig hafa fullan rétt á því að gjalda líku líkt og hefna sín. Og margir haga sér líka þannig í mannlegum samskiptum að mér finnst þeir hafi gleymt gullnu reglunni sem þeir lærðu í æsku heima fyrir eða í fermingarfræðslunni. Það þarf enga útrásarvíkinga til. Sérhver líti í eigin barm að þessu leyti.
Víkingaeðli Það er víkingaeðli í okkur íslendingum. Við höfum til þessa ekki viljað fara að lögum og reglum sem skyldi. Hvað kennum við sem eldri erum ungu kynslóðinni? Fermingarbörnunum okkar? Höfum við verið til fyrirmyndar gagnvart þeim til orðs og æðis? Það lærir barnið sem fyrir því er haft. Sumir vilja ekki kenna börnum sínum bænir og ætla þeim að taka sjálf ákvörðun um það síðar hvort það vilji fara í fermingarfræðslu og fermast síðan. En ef við foreldrar ölum ekki börn okkar upp í kristnum sið þá skortir þau viðmið þegar þau þurfa svo sjálf að taka ákvörðun um það síðar hvort þau vilji taka þessa ákvörðun um að leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Vaxandi þrýstingur frá minnihlutahópi í samfélaginu hefur gert það að verkum að kristinni fræðslu er í auknum mæli úthýst úr leikskólum og grunnskólum landsins. Er þetta það sem meirihluti landsmanna vill? Ég trúi því ekki en meirihlutinn virðist fljóta sofandi áfram að þessu leyti, illa áttaður.
Snúum til baka Við þurfum að snúa við, snúa við til gömlu góðu biblíusaganna sem ég lærði í grunnskóla forðum og fjölmargir muna eftir ásamt mér. Þar liggur fjöregg þessarar þjóðar, í þessum gömlu sögum sem lifa fyrir hugskotssjónum okkar. Munið þið ekki eftir sögunni um Miskunnsama Samverjann? Sögunni um glataða soninn? Nú þegar skólinn vill ekki lengur kenna þessar sögur sem skyldi þá verða foreldrar að taka við þessu hlutverki skólans og rækja skyldur sínar sem kristið fólk sem borið hefur börn sín til skírnar, til þess lífs sem aldrei visnar og aldrei deyr, lífs með frelsaranum Jesú Kristi. Ella fyrnast þessar sögur líkt og leiðissteinarnir mörgu uppi í gamla kirkjugarði sem liggja undir sverðinum og enginn sér. Guð forði okkur frá því að biblusögurnar gleymist.
Hlustum á þjálfarann Jesús er að tala við lærisveina sína í þann mund sem hann hverfur þeim endanlega sjónum eftir upprisu sína frá dauðum. Hann segir við þá, líkt og guðspjallið greinir frá: ,,Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín.” Hvernig er hægt að elska Jesú sem við höfum aldrei séð? Þetta er snúin spurning. En Jesús svarar henni sjálfur þegar hann segir: ,,Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig.” Sem sagt. Ef ég sýni fólki kærleika þá elska ég Jesú.
Boðskapur Hvítasunnunnar minnir okkur á það að Guð er hjá okkur í anda sínum, yfir og allt um kring. Hér er himneskt að vera, segjum við stundum þegar okkur líður vel í góðra vina hópi. Andi Guðs laðar og leiðir fram slíkt andrúmsloft og hjálpar okkur að skilja margt sem okkur finnst vera torskilið í kristinni trú. En umfram allt minnir Andi Guðs okkur á það hversu mikilvægt er að auðsýna trú, von og kærleika í mannlegum samskiptum. En það er gott, fagurt og fullkomið.
Boltanum kastað til fermingarbarnanna Kæru fermingarbörn. Afi ykkar og amma, foreldrar og eldri systkini þekkja Gullnu regluna. Ég veit að þið þekkið hana líka. Ef þið leitist við að fara eftir henni þá elskið þið Jesú þó að þið sjáið hann ekki berum augum. Þið hafið kannski tekið eftir því að sumir erlendir knattspyrnumenn signa sig áður en þeir fara út á völl að spila. Það finnst mér vera góður siður því að signingin er játning þess að við erum helguð Kristi, krossfesta og upprisna, minning þess að við erum skírð í nafni heilagrar þrenningar og eign Guðs í lífi og dauða. Ég er líka viss um það að þessir knattspyrnumenn signa sig til þess að biðja Guð að hjálpa sér í knattspyrnuleiknum. Ég hvet ykkur til að gefa Jesú tækifæri í lífi ykkar, talið við hann um það sem þið eruð að fást við á degi hverjum, það sem þið eruð að gera í íþróttum og í skólanum og biðjið hann að fyrirgefa ykkur ef þið vitið að þið hafið gert eitthvað sem er ekki rétt. Hann segir engum frá því. Hann er nefnilega bundinn trúnaði við ykkur. Hann hefur gefið okkur margar fallegar reglur til að fara eftir. Ef þið leitist við að halda þessar reglur, t.d. að elska náungann eins og ykkur sjálf þá mun ykkur vegna vel í lífinu. Og fyrir alla muni. Lifið ekki of hratt. Dragið djúpt að ykkur andann, Heilagan Anda og biðjið Guð að hjálpa ykkur á vegferð ykkar í gegnum lífið. Ekki reyna að gera alla hluti í einu. Farið varlega og gangi ykkur allt í haginn. Amen.