Textar dagsins knýja okkur til þess að tala saman um djöfulinn. Þegar að er gáð skiptir djöfullinn miklu máli í menningu okkar og gegnir líka ríku hlutverki í tungumálinu. Það hefur lengi þótt hressandi í okkar landi að tvinna blótsyrði. Ég man þegar ég hafði 15 ára að aldri verið tæpa haustönn á einhverjum kristilegum lýðháskóla í Noregi og slapp þaðan í jólafrí staðráðinn að snúa ekki aftur inn í þau meintu kristilegheit sem þarna ríktu með tilheyrandi boðum og bönnum. Mér er ógleymanlegt það augnablik er ég hafði komið mér fyrir í flugvélinni á Fornebu-flugvellinum, hafði ekki hitt Íslending í heila eilífð að mér fannst og hlakkaði óstjórnlega til að komast heim. Ég hafði að sjálfsögðu beðið um sæti aftast því það þótti alltaf best að sitja aftast í þá daga og sem ég er kominn í sæti mitt fyrstur manna þá birtast tveir drukknir íslenskir karlmenn og eru með háreysti bölvandi og ragnandi svo að bændur í Flóanum og Tungunum sem ég hafði heyrt bölva af sannri innlifun hefðu mátt vera stoltir af slíkum afköstum. Ég man að á þeirri stundu leið mér eins og ég stæði í heitri sturtu. Einhver fölskvalaus gleði og feginleiki fyllti mína ungu sál að heyra loks hressilega bölvað á mínu ástkæra ilhýra máli eftir að hafa lifað norskan kristindóm margar langar vikur þar sem ekki mátt spila á spil og helst ekki hlýða á rokktónlist vegna þess að djöfullinn var líklegur til að veiða sálina í manni við þá iðju.
Það er svo margt í mannsins sál sem maður ekki skilur en þess heldur skyldi maður leggja við hlustir og heyra það sem fólk segir, og hvernig það segir hlutina. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn” sagði Jesús Kristur (Matt. 12.34) og um það þarf vart að deila. Þess vegna held ég að blótsyrðin sem eru svo samtvinnuð tungumáli okkar lýsi þeirri vitund að til sé óvinur, andskoti. Í djúpvitund mannsins býr vitneskjan um illskuna. Tungumálið tjáir það sem hjartað veit.
„Hví skiljið þið ekki mál mitt?” spyr Jesús andstæðinga sína í guðspjalli dagsins sem skráð er í áttunda kafla Jóhannesargupspjalls. Samtalið er fullt af sársauka og þar mætast vægast sagt stálin stinn: „Hví skiljið þið ekki mál mitt? Af því að þið getið ekki hlustað á orð mitt. Þið eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir ykkar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.”
Það afl er til sem óskar öllu dauða. Svo undarlegt er þetta afl, svo óvænt og einhvern veginn út úr kú að því verður jafn vel best lýst með því að segja sögu af höggormi sem kemur og byrjar að spjalla. Þú þekkir þetta afl og óttast það rétt eins og ég. Það einkennist af tilgangsleysi. Tómið er kennimark þess. En það birtist í svo ótal mörgu eins og t.d. hrottaskap. Þegar við segjum um einhvern að hann sé ekki með sjálfum sér þá erum við að vísa til þessa afls sem virðist geta tekið fólk traustataki og yfirbugað hinn eiginlega vilja þess. Stundum birtist þetta afl í andlistslausum samsteypum stórfyrirtækja sem framkvæma sálarlausar ákvarðanir. Einnig sjáum við það í valdi og háttarlagi einræðisherra. Og það er ekki merkingarlaust að tala um þetta óvinveitta afl sem persónu, því verst af öllu er þegar eyðingarmátturinn kemur fram í einbeittum vilja. Við þurfum að eiga orð eins og andskotinn. Við þurfum að geta sagt djöfull, til þess að lýsa illskuaflinu. Þess vegna lifir líka sögnin um Satan. Hún lifir vegna þess að við þurfum sögur sem segja frá reynslunni eins og hún er. „Hann var manndrápari frá upphafi” segir Jesús „og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.” Þessa sögu þarf að segja. Hún kennir okkur að glíma við illskuna í sjálfum okkur og öðrum mönnum og vita að til eru þær aðstæður þar sem sannleikurinn fær hvorki hljómgrunn né viðspyrnu.
Sagan um viðskipti höggormsins við mannfólkið sem varðveitt er í þriðja kafla fyrstu Mósebókar alveg fremst í Biblíunni er sagan af mér og þér. Hún er sagan um það hvernig við leitumst við að gera eigin persónu alvitra, viljum eta af skilningstrénu fyrst og síðan blóðlangar okkur að borða af lífsins tré og vera í senn alvitur og eilíf eins og Guð. En við erum ekki Guð. Þegar Adam og Eva hafa bitið í ávöxt skilningstrésins opnast augu þeirra svo að þau sjá nekt sína. Þau fyllast blygðun og skömm sem leiðir til sektarkenndar og ásökunar og allt fer á verri veg.
Lexía dagsins er skráð í þessu samhengi í 2. Mósebók 20. kafla þar sem Guð ávarpar manninn og gefur honum boðorðin tíu: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.” Hér er á ferðinni leiðbeining um það hvernig við getum valið okkur frá illskuvaldinu. Þar vísar Guð til reynslu hebresku þrælanna sem hann gerði að sinni þjóð. „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.” Þannig má þekkja lifandi Guð að hann leysir úr ánauð. Svoleiðis er Guð. Hann losar fólk út úr vítahringjum þjáningar og kúgunar og við getum valið hann. „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.”
Alltaf þegar við tökum eitthvað og gerum það að æðstu uppsprettu samhengis og merkingar þá erum við að búa til okkar eigin guð. Hvort sem við tökum peninga eða frægð eða völd eða kynþátt okkar eða hvað annað og gerum það að æðstu uppsprettu samhengis og merkingar, þá erum við að teygja okkur eftir ávexti skilningstrésins og sú þekking sem þar vaknar er lygi, eins og reynslan sýnir. Þekking skilningstrésins verður alltaf lygi hversu sæt sem hún er. Hún veldur alltaf blygðun og leiðir óhjákvæmilega til ásökunar og sektarkenndar. Auðhyggja, persónudýrkun, valdaþrá, kynþáttahyggja – allt er þetta sama tóbakið. - Ekki gera þannig, segir fyrsta boðorðið. Leyfðu Guði að vera guð og sjálfum þér að vera manneskja. Og Guð máttu þekkja af því að hann bindur engan í ásökun og sektarkennd, heldur leysir úr viðjum.
Þá kemur annað boðorðið: „Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma.” Hér er gott að staðnæmast og íhuga þá mannþekkingu sem í því er fólgin að áður en okkur er sagt að misvirða ekki foreldra okkar, drepa ekki fólk, drýgja hór og stela, þá erum við vinsamlega beðin um að reyna ekki að nota Guð sem tæki í eigin höndum; „Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma.” Þú getur ekki virkjað Guð, er verið að segja, hann lætur ekki nota sig, því hann er lifandi persónulegur máttur. Eina leiðin til þess að nálgast Guð er að leyfa honum að nálgast sig, gefast honum á vald. Svekkjandi?! Já, ferlega svekkjandi... og frelsandi í senn. Þess vegna kenndi Jesús okkur að biðja til Guðs og segja „helgist þitt nafn, komi þitt ríki, verði þinn vilji,” þegar okkur væri nær skapi að segja helgist mitt nafn, komi mitt ríki, verði minn vilji! Nei, Guð er ekki meðvirkur mannlegum hégóma.
Þá hljómar þriðja boðorðið: „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.” Gleymdu ekki að leika þér er Guð að segja. Já, karlar og konur, börn og fullorðnir, ekki gleyma leiknum og gleðinni. Ég gef þér lífið af því að það er gott og þú skalt þiggja það með fögnuði. Hvíldin og endurnæringin er forsenda allra starfa. „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.”
• Leyfðu Guði að vera guð og sjálfum þér að vera manneskja, segir fyrsta boðorðið. • Ekki reyna að nota Guð því hann vill nota þig, segir annað boðorðið. • Mundu að leika þér, segir það þriðja. • Fjórða boðorðið minnir síðan á gildi virðingar í mannlegum samskiptum:
„Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.” Án virðingar hefur lífið ekki vaxtarskilyrði. Virðing verður að vera bandið sem tengir kynslóðir. Ekki ásöknin og sektarkenndin, sem höggormurinn vill vekja og næra, heldur virðingin.
Þá koma hin boðorðin öll sem segja okkur að: • Varðveita lífið með því að fremja ekki morð. • Varðveita sannleikann með því að drýgja ekki hór. • Varðveita eignir manna með því að stela ekki. • Varðveita sæmd manna með því að bera ekki ljúgvitni • og varðveita loks eigið hjarta með því að girnast ekki það sem annarra er.
Sérðu ástina í þessum tíu boðorðum? Sérðu þekkinguna á lífinu eins og það er og þá umhyggju sem boðorðin tjá? Hér er engu logið. Hér er allt satt og mannlegt eðli uppi á borðinu eins og það kemur af skepnunni.
Þannig megum við þekkja Guð að þegar hann segir okkur sannleikann þá fer hann að eðli sínu og sannleikurinn gerir okkur frjáls.
Amen.
Textar: 2Mós 20.1-3, 7-8, 12-17 Opb 2.8-11 Jóh 8.42-51