Fjórar mínútur er verðlaunamynd eftir þýska leikstjórann Chris Kraus. Hún er ein þriggja mynda eftir Kraus sem er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís, hinar eru Glerbrot sem er fyrsta mynd leikstjórans og Dagbækurnar frá Poll sem er sú nýjasta. Allt afar áhugaverðar myndir. Með fyrstu mynd sinni steig Kraus fram sem fullburða leikstjóri og við sjáum það vel í þessari mynd hvað hann hefur gott vald á miðlinum. Sem áhorfendur finnum okkur í góðum höndum.
Hundrað og tólf mínútur
Fjórar mínútur er eitt hundrað og tólf mínútur að lengd. Titillinn vísar til um það bil fjögurra mínútna langs loksatriðis myndarinnar. Til magnaðrar lokasenu „þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls“ og við verðum vitni að kraftaverki endurlausnar og sigurs, svo vitnað sé í umsögn dómnefndarinnar sem veitti myndinni kvikmyndaverðlaun kirkjunnar árið 2005.
Myndin fjallar um sekt og sorg, ofbeldi og atlæti, tónlist, náðargáfu, mennsku og ómennsku, fordóma og fyrirhugun – svo eitthvað sé nefnt. Fyrst og fremst má þó kannski segja að Fjórar mínútur fjalli um fjötra og um frelsi.
Fjötrar og frelsi
Söguhetjurnar tvær, tónlistarkennarinn Traude og fanginn Jenny eru báðar fjötraðar. Jenny situr bak við lás og slá, innilokuð vegna ofbeldisbrots. Traude hefur verið að sönnu verið frjáls til að gera það sem hún vill, en verið föst á sama stað í áratugi.
Fangelsið táknar ytri fjötra þeirra beggja, en kannski eru fjötrarnir hið innra þeir sem eru bæði mikilvægari og sterkari í myndinni. Fortíðin er fjötur þeirra beggja, fordómar samfélagsins líka, sektarkennd og ofbeldi sem þær máttu þola hefur mótað sjálfsmyndina. Það er veganestið þeirra frá unga aldri á fullorðinsár.
Frelsið er andstæða fjötranna. Í Fjórum mínútum birtist það í mótstöðu við regluverk sem deyðir, í tónlistinni sem tengir Jenny og Traude og í sköpunargleðinni.
Til íhugunar við áhorf
Þegar horft er á myndina má haga þetta samspil fjötra í frelsis í huga. Hvar er sterkustu fjötrana að finna í myndinni? Hvernig rakna þeir upp?
Aðalpersónurnar tvær, Traude og Jenny, eru líka áhugavert umhugsunarefni. Hvað tengir þær saman? Hvað er ólíkt með þeim.
Síðast en ekki síst er það svo sýnina á manneskjuna sem birtist í Fjórum mínútum sem er full ástæða til að íhuga. Ein af lykilspurningum Kraus í þessari mynd og reyndar fleiri myndum er: „Getur fólk breyst?“ Hvað segir Fjórar mínútur okkar um það?
Byggt á innlýsingu sem var flutt á undan sýningu myndarinnar í Bíó Paradís, 19. mars 2011.