Nú eftir hádegið í dag fermum við fyrsta hóp vorsins. Það verður örugglega hátíðleg stund. Þau eru vorboðarnir í kirkjunni þar sem þau ganga inn kirkjugólfið í hvítklæddri fylkingu.
Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar
Ég nefni það gjarnan við þau að fermingarkyrtillinn kallast á við skírnarkjólinn sem við klæðum hvítvoðunginn í þegar hann er ausinn vatni. Þau veita því athygli hversu síður kjóllinn er og fá þá að heyra að þar búi að baki sú hugmynd að barnið eigi eftir að vaxa í það hlutverk að vera kristin manneskja. Þess vegna eru þau í svo viðeigandi passlegum klæðnaði þegar þau fermast. Þau hafa með öðrum orðum lært heilmargt og þroskast.
Eitt af því sem við leggjum á þau í undirbúningnum er að læra trúarjátninguna. Þar ber nokkur nöfn á góma, Jesús og María eru þar nefnd, Guð með hástaf og svo er það hann Pílatus – „píndur á dögum Pontíusar Pílatusar“ segjum við hátíðlega þegar við rekjum þrautir og þjáningar Krists eins og þeim er lýst í píslarsögunni.
Hérna er hann þá mættur þessi nafntogaði landstjóri í Júdeu sem fermingarbörn eru með á vörunum. Guðspjallið greinir frá samtali hans við Jesú og má segja að guðspjallamaðurinn nái hæstum hæðum í frásagnarlist sinni. Bandinginn stendur frammi fyrir valdsmanninum, ójafnvægið á milli þeirra ætti að vera hróplegt. Atburðarrásin fer þó aðrar leiðir.
Harmur valdhafans
Hér er það Pílatus sem birtist okkur sem hin harmræna persóna.
Hann spyr og skilur ekki, fær ekki svör við ráðgátum sínum. Jesús virðist aftur á móti vera sá sem valdið hefur. Hann lýsir örlögum sínum ekki sem þraut og niðurlægingu – heldur verði hann gerður dýrlegur. Píslargangan er samkvæmt þessu óhjákvæmileg – hún leiðir af starfi Jesú og boðun sem aflaði honum óvina, en endir hennar er ekki á krossi heldur í upprisunni. Féndur hans hafa á hinn bóginn gengið lyginni á hönd og hér lesum við um það hvernig þeir eru fastir í fjötrum hefðar og fylgja forskrift lögmálsins í þessu ferli sem þarna er lýst.
Frásögnin er okkur holl áminning um hlutskipti þeirra sem hafa helgað lífi sínu því að öðlast völd yfir öðru fólki.
Þannig verður hinn títtnefndi landstjóri, Pílatus að fulltrúa slíkra einstaklinga. Völd eru vandmeðfarin. Biblían birtir okkur dæmi um það hversu harmrænt það getur verið, þegar það fer saman að tróna hátt í píramída valdanna og hafa ekki þá sýn til að bera sem hæfir þeirri stöðu. Ef völdin taka völdin þá verður staðan svört og eitur rennur um æðar mannlegs samfélags. Þar er ekkert satt og ekkert rétt – í slíku umhverfi eru það aðeins duttlungar einvaldsins sem ráða för.
Í Biblíunni kynnumst við ólíkum leiðtogum og hvergi verður lýsingar af hrösun og falli jafn skýrar og í fari þeirra. Við þurfum heldur ekki að gear annað en að skima yfir sögubækur, heimsfréttir eða jafnvel horfa á okkkar nánasta umhverfi til þess að sjá afleiðingar þess þegar þau mörk eru rofin í þessum efnum og vilji valdhafans ríkir ofar hagsmunum fólksins og æðri gildum. Lærisveinar Jesú féllu meira að segja í sömu gryfju. Þeir fóru sjálfir að metast um það hver væri mestur.
Þá sagði Jesús þeim að þjónustan væri mikilvægari en það að drottna yfir öðrum. Hann benti þeim á barn sem stóð þar álengdar og bar sakleysi þess saman við samkeppni þeirra. Barnið er mest í himnaríki sagði Jesús og við hugleiðum svipuð orð þegar við skírum hvítvoðunginn.
Þetta eru ekki innantóm orð. Þau geyma hinn sanna tilgang. Góður leiðtogi lætur stjórnast af hugsjón sem er stærri en svo að hann láti eigingirnd sína þvælast fyrir sér á þeirri leið sem hann hefur lagt upp í. Fyrir honum er það mikilvægast að samfélagið sem hann leiðir áfram fái dafnað og fólkið vaxi upp til aukins þroska. Til þess að geta unnið að því marki þarf hann einmitt að taka sér allt það til fyrirmyndar sem að sönnu skilar einhverjum tilgangi. Hann þarf að geta skapað pláss. Hann þarf að geta vikið til hliðar. Slíkt er einkenni þeirra sem hafa æðri hugmyndir en eigin skammtíma hag að leiðarljósi.
Þess vegna líkir Kristur sér við þjón – og við vitum hvernig góðir þjónar starfa. Þeir vilja hjálpa þeim sem með þeim starfa og efla þá til dáða.
Það er svo hápunkturinn á samtali Pílatusar og Jesú þegar sá fyrrnefndin spyr þessarar spurningar: „hvað er sannleikur?“ Svo aftur sé vikið að skrásetjaranum, guðspjallamanninum Jóhannesi, þá hefur orðið „sannleikur“ komið margoft fyrir í textanum. Við könnumst vonandi við setningarnar: „Vegurinn, sannleikurinn og lífið“, „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ og áfram mætti rekja dæmin. En þetta er síðasta skiptið sem þetta stóra orð ber á góma og þá er það sett fram með heimspekilegri spurningu landstjórans.
Mörgum hefur það þótt miður að Jesús skyldi ekki svara þessu í eitt skipti fyrir öll. Því það er ekki alltaf skýrt hvað það felur í sér hvort setning er sönn eða ekki. En hvað segir spurningin um þann sem spyr? Hvað er satt og hvað er rétt? Helst það ekki í hendur? Þegar valdhafinn spyr – er hann þá að sama skapi að brjóta heilann um hugtak sem er því náskylt: nefnilega réttlætið, ,,satt og rétt". Áður en réttlætið er fótum troðið hefur sannleiknum þegar verið fórnað. Sannleikurinn er jú fyrsta fórnarlambið í valdabrölti Pílatusa á hverjum tíma.
Sannleikur og réttlæti
Og hverju þegir Jesús?
Er það ekki vegna þess að líf hans og störf bera vitni um þann sannleika sem hann boðaði? Já, umhyggjan, líknin, virðingin, kærleikurinn – allt þetta sem þjónusta Jesú beindist að. Hann lætur skilgreiningarnar eiga sig, en með þögninni beinir sagnameistarinn Jóhannes sjónum okkar að því sem þegar hefur verið gert og unnið. Andstæðurnar blasa þar við okkur, hatrömm ásókn í takmörkuð völd eða þjónustan sem bætir líf þeirra sem njóta og kallar þau sjálf til sömu dáða.
„Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar.“ Þetta lesa fermingarbörnin hér í athöfninni á eftir. Það er ekki að ástæðulausu sem nafn valdsmannsins er nefnt í játningunni. Það minnir okkur á sárin sem samfélag fólks og heimurinn allur ber vegna misbeitingar valds. Erindi okkar er að beina þeim á aðrar brautir. Þeim bendum við á það hvernig manneskjan getur vaxið og dafnað, frá því að hún er borin upp að skírnarlauginni í alltof síðum kjól. Og fær í vegarnesti fyrir lífið köllunina um að fylgja boðskap Jesú Krists. Svo játar ungmennið því frammi fyrir altarinu að sá eigi að verða leiðtogi lífsins. Það er mikilvæg játning, því auður og völd geta verið tvíeggja sverð en þjónsta við æðri markmið gera líf mannsins þess virði að því sé lifað.