Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. Jóh. 15.12-17
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að kosningar eru í nánd. Hver í kapp við annan reyna stjórnmálaflokkarnir að vinna kjósendur á sitt band með miklum orðaflaumi, svo að minnir á ólgandi leysingar að vori. Orð eins og hagvöxtur, samgöngumannvirki, virkjunarkostir, hjúkrunarrými, atvinnusköpun og fleiri svífa um í loftinu eins og marglitar blöðrur. Eins og það sé sautjándi júní. Stjórnmálamenn brosa til okkar af síðum dagblaðanna, ljósklæddir og frjálslegir í fasi, eins og þeir hafi ekki gert annað síðustu mánuðina en að liggja á sólarströnd – þeir sem eru yfirleitt svo ábúðarmiklir og alvarlegir. Jú, pólitíkin rétt fyrir kosningar ber með sér svipmót auglýsingamennsku og skrums og það er vissulega freistandi að láta megnið af því sem sagt er seytla inn um annað eyrað og út um hitt. Það er engu að síður mikilvægt, og skylda hvers og eins í lýðræðissamfélagi, að leggja við hlustir, vefja umbúðunum utan af orðskrúðinu, vega og meta það sem sagt er, kynna sér staðreyndir mála og mynda sér skoðanir. Því að stjórnmál snúast vissulega um mikilvæga hluti og hugsjónir.
Hlutskipti stjórnmálamanna er ekki öfundsvert í þessu sambandi, þeir þurfa að ná eyrum fólks í stóru kjördæmunum sínum með aðstoð fjölmiðla sem oft eru árásargjarnir og lítt málefnalegir í umfjöllun sinni – ekki alveg búnir að fóta sig í nýfengnu frelsi frá flokkapólitíkinni og hugsunarhætti kalda stríðsins.
Þegar ég sat og hlustaði á kappræður stjórnmálamanna í sjónvarpinu í nýliðinni viku, og fannst allt í einu að ég væri að drukkna í merkingarlitlum orðaflaumi, kom upp í huga minn kafli úr hinni þekktu bók Uppvöxtur litla trés, sem Gyrðir Elíasson þýddi. Þar segir frá litlum dreng sem elst upp hjá ömmu sinni og afa í deyjandi samfélagi indíjána fyrir miðja síðustu öld. Þar er brugðið upp mynd af einfaldri lífssýn fólks sem hafði búið í nánu sambýli við náttúruna um aldaraðir, lært að umgangast hana af virðingu og kunni fátt af því sem nú þykir mönnum helst til framdráttar í lífinu. Amman var bókmenntalega sinnuð og læs og las fyrir þá, afann og litla drenginn, á kvöldin og lagði mikið upp úr því að drengurinn lærði ný orð í hverri viku. Afinn, sem var ólæs, hafði hins vegar mikla ímugust á orðum og taldi þau oft til mestu óþurftar. Ég ætla að grípa niður í bókina þar sem segir frá því að drengurinn er nýbúinn að læra orðið antipat:
„Afi staðnæmdist. Hann beið þar til ég hafði náð honum og lagt frá mér krukkurnar. „Hvað sagðirðu?“, spurði afi. „Ég sagðist hafa antipat á þyrnirunnum, vespum og svoleiðis,“ sagði ég. Afi horfði niður til mín, svo fast að ég fór að verða hálfórólegur yfir öllu saman. „Hvað í ósköpunum hefur handapat að gera með þyrnirunna og vespur?“ spurði afi. Ég sagði honum að það hefði ég ekki hugmynd um, en orðið væri antipat, og það þýddi að maður þyldi ekki eitthvað. Afi sagði: Nú, jæja, afhverju segirðu þá ekki bara að þú þolir það ekki, í staðinn fyrir að nota orðið antipat? Afi varð býsna æstur út af þessu. … Hann sagði að trúlega hefði [sá sem setti orðabókina saman] grafið upp mörg orð um sama hlutinn, sem drægju allan mátt úr meiningunni. Hann sagði að svona væri það sem stjórnmálamenn kæmust upp með að plata fólk og segðu sífellt að þeir væru ekki að meina þetta eða hitt - eða hið gagnstæða. Afi sagði að ef málið væri athugað, kæmi örugglega í ljós að orðabókin væri samin af stjórnmálamönnum, eða þeir stæðu á bak við hana á einhvern hátt. ... Afi sagði að ég skyldi bara losa mig við þetta orð. Og ég gerði það.“
Það var í þessum hugleiðingum að ég greip heilaga ritningu til þess að glugga í guðspjall komandi sunnudags og það var ekki laust við að ég væri kvíðinn. Mér leið líkt og konunni háöldruðu, sem eitt sinn var spurð að því í fjölmiðlum hvernig henni litist á samtíma sinn. Hún andvarpaði þreytulega og sagði: „Mikið skelfingar ósköp er mikið talað.“ Ég man ekki lengur hvað hún hét þessi gamla kona en þetta stutta svar hennar líður mér seint úr minni, henni fannst greinilega, eins og honum afa gamla, að við gætum hæglega losað okkur við eitthvað af orðum. En mér var engrar undankomu auðið frekar en stjórnmálamönnunum, prestar eru víst dæmigerðir fulltrúar hinnar talandi stéttar. Ég opnaði Biblíuna mína og las yfir guðspjall þessa sunnudags, eins og áður sagði örlítið kvíðafullur og fullsaddur af orðum. En hvílíkur léttir! Þarna voru þau fest í letur einföld, látlaus orð langt aftan úr fortíðinni þrungin merkingu og innihaldi. Þau minntu ekki á skrautlegar blöðrur. Þau minntu á grænt brumið sem nú er að springa út á greinum trjánna, þrungið þrótti eilífs lífs. Ég skynjaði að hlutskipti okkar prestanna er allt annað en stjórnmála- og fjölmiðlamanna, að hafa slíkt orð til að byggja mál sitt á. Það er vart hægt að hugsa sér meiri andstæður en allan þann orðavaðal sem fylgir dægurþrasinu og orðin sem guðspjallstextinn geymir: Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. Þetta eru ekki orð sem við þurfum að losa okkur við. Þessi orð eru ekki sett á blað til þess að draga máttinn úr meiningunni. Engin þunglamaleg, margsamsett eða gjaldfallin orð, heldur einföld og falleg orð úr grunnorðaforða íslenskrar tungu: kærleikur, líf, vinur, faðir – að elska, að bera ávöxt. Stjórnmálamennirnir tala um loforð, í guðspjallinu er talað um boðorð. Stjórnmálamennirnir biðja kjósendur að velja sig, í guðspjallinu segir Kristur: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður.“ Stjórnmálamennirnir tala um hagvöxt sem getur hæglega að engu orðið, í guðspjallinu er talað um ávöxt sem varir. Það var ný reynsla að uppgötva áhrifamátt þess orðs sem varðveitt er í heilagri ritningu á þennan hátt, skynja í því endurnærandi kraft og finna þann þunga sem hefur náð að sverfa björg og móta nýtt samfélag, en það er jú það sem trúin og stjórnmálin og fjölmiðlarnir eiga sameiginlegt, allt snýst það um samfélag. Þar er snertiflöturinn. Það er í tísku um þessar mundir að tala um að trúin sé einkamál fólks, sem hún vissulega er, rétt eins og stjórnmálaskoðanir þess. En það er einungis ein hlið trúarinnar. Trúin er annað og meira. Hún er líka afl sem hefur mótað samfélög og gert þau að því sem þau eru, hún er afl sem hefur mótað stjórnmálin. Íslenskt samfélag hefur frá því það varð til mótast af kristnum sið. Meðal fyrstu manna sem hér settust að voru kristnir menn og kristinn siður var þegar farinn að hreyfa við viðhorfi heiðinna þjóða í norðurálfu þegar land var numið hér. Það eru því fáar þjóðir sem eiga sér sögu sem er jafnsamofin kristnum sið og þeim gildum og viðmiðum sem hann boðar og Íslendingar. Hún er því undarleg sú hjáróma en þó ágenga rödd sem hljómar í samtímanum um kristinn sið sem innrætingu sem helst eigi að halda frá börnum og unglingum þar til þau komist sjálf til vits og ára. Það er einkennileg hugsun sem gengur ekki upp. Það er helst hægt að líkja því við það að tvítugt ungmennið afþakki pent móðurmjólkina sem færði því lífsbjörgina eða að hávaxið og glæsilegt tréð ráðist að rótum sínum. Ég vitna í orð þekkts fjölmiðlamanns, Sigmundar Ernis Rúnarssonar, í blaðagrein: „Stundum er spurt af hverju íslensk þjóð hefur náð jafnlangt í veraldlegum og andlegum efnum og raunin hefur orðið á síðustu hundrað árum. Stundum segjum við að fámennið hafi þjappað okkur saman; stundum að veðrið hafi hert okkur. Það gleymist iðulega að kristið umburðarlyndi og frjálslyndur siður hefur leyst úr læðingi krafta sem hafa notið sín hér á landi um aldir. Við erum með öðrum orðum afkomendur umburðarlyndis.“ (Sigmundur Ernir Rúnarsson: Af sjálfsmynd þjóðarinnar. Fréttablaðið 3. apríl 2005.)
Í því orði sem varðveitt er í helgri bók býr eilífur máttur. Það er ekki orð manna heldur orð Guðs. Í það orð mun mannkynið á öllum tímum geta sótt styrk og þrótt. Fyrir mátt þess orðs mun mannlegt samfélag stöðugt ganga í endurnýjun lífdaga, þar finnast viðmið og gildi sem koma að notum á öllum tímum og við allar hugsanlegar aðstæður. „Þetta býð ég yður að þér elskið hver annan eins og ég hef elskað yður.“ Er hægt að hugsa sér jafnmikla merkingu fólgna í jafnfáum og einföldum orðum?
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.