Sem stormur hreki skörðótt ský, svo skunda burt vor ár. Og árin koma, ný og ný, með nýja gleði´ og tár.
Gleðilegt ár, kæri söfnuður, gleðilegt ár og innilegar þakkir fyrir gömlu árin.
Við áramót finnum við blendnar tilfinningar bærast í brjóstum okkar. Við höfum kvatt gamla árið, árið 2006, með öllu því sem það bar með sér af gleði og tárum. Og nýhafið er árið 2007 með óþekkta gleði og ókunn tár. Við finnum til smæðar okkar gagnvart hinu gengna jafnt hinu ókomna. Um þetta tvennt fáum við fáu breytt. Augnablikið er það eina sem við eigum víst. Það er í augnablikinu sem eilífðin ræðst.
“Gærdagurinn er liðinn. Morgundagurinn er ókominn enn. Við eigum aðeins daginn í dag. Hefjumst handa”
er haft eftir móður Teresu.
Í ljóði eftir Karl Kristensen mætast hinar þrjár víddir tímans - dagurinn kvaddur að kveldi með bæn fyrir byrjandi degi og framtíðin falin Guði.
Einn dagur enn að djúpi tímans hniginn og dýrleg sól er björt í hafið sigin. Þótt endurómi þetta lífsins lag við lifum aldrei aftur þennan dag.En næsta degi biðjum blessun þína í birtu sólarljóma okkur skína. Heit friðarþráin fái hjörtun gist Og fögnuður að þekkja Herrann Krist.
Við felum, Guð, þér framtíð okkar alla og finnum best þá degi tekur halla, Hve dýrlegt er að leggja líf og önd, þú ljóssins faðir, allt í þína hönd.
Nafnið Jesús
Hugleiðingarefni nýársdags er nafn Jesú, nafn Guðs sem er okkur skjól og blessun í byrjun árs sem endranær. Nafnið Jesús er latneska útgáfan hinu gríska Iesous, sem aftur er dregið af gyðinglega nafninu Jeshua, Jehoshua, það er Jósúa. Það merkir Jahve er hjálpræði – Guð frelsar. Enda sagði engill Drottins við Jósef: “...hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra” (Mt. 1.21). Nafnið hefur verið tengt við sögnina iasthai, sem merkir að lækna. Það er í góðu samræmi við alla þá ritningarstaði sem benda á nafn Guðs til lækningar anda, sálar og líkama, bæði í Gamla testamentinu og í því nýja.
Í mörgum kirkjum gefur að líta upphafsstafina IHS, saumaða listilega á altarisklæði eða útskorna í skírnarfont. Ég lærði sem barn að þeir væru dregnir af latnesku orðunum Jesus Hominum Salvator – Jesús frelsari mannanna. Í kaþólsku alfræðiorðabókinni segir hins vegar að IHS séu fyrstu og síðustu stafirnir í nafninu Jesús, sem á miðöldum var ritað IHESUS, með IH í upphafi. Hvort sem kann að vera rétt þá er þetta merki Jesú, til að minna okkur á að í nafni hans býr kraftur Guðs til frelsunar, líkt og í merkinu XP – á grísku Chi Rho -, það er Kristur, sem er hér að baki mér í predikunarstólnum ásamt með grísku stöfunum alfa og omega. Öll eru þessi tákn áminning augunum um það sem hjartað þekkir að Jesús Kristur er hjálpræði Guðs, hinn útvaldi Drottins, upphaf og endir alls sem er.
Nafn Drottins er sterkur turn
Í Orðskviðum Salómons (18.19) segir: Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.
Þetta eru stórkostleg orð. Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur. Þau merkja að við eigum okkur skjól í nafni Drottins, það er í máttugri veru hans, sem streymir inn í líf okkar fyrir bæn og iðkun trúarinnar. Og með því að “leggja nafn Drottins yfir” líf okkar þiggjum við blessun hans, líkt og verið hefur frá prestsskapartíð Arons og sona hans.
Blessunarorðin þekkjum við vel. Þau eru hluti af okkar daglegu bænagjörð, margra hverra. Blessun Guðs er eins og faðmlag inn í líf okkar, opinn faðmur Drottins, sem umlykur okkur í ást sinni, er okkur skjól í stormum lífsins, eins og faðmur móður og föður var okkur í frumbernsku.
Trúarlífssálarfræðin hefur merkilega hluti að segja um myndmál hinnar drottinlegu blessunar. Þar er talað um ásjónu Drottins, um auglit hans. Leitt hefur verið rökum að því að þegar brjóstbarnið liggur á armi móður eða föður sjái það andlit þess sem það annast skýrt. Það er nákvæmlega sú fjarlægð sem augu kornabarns greina andlit í. Þannig tengist næringin og öryggið sýninni af ásjónu hins elskaða, af upplyftu augliti mömmu eða pabba sem umönnunina veitir.
Orð blessunar Drottins gefa til kynna sömu reynslu. “Ég er hjá þér, ó Guð, sem barn hjá blíðri móður, sem lítill fugl á mjúkri mosasæng”. Á sama hátt og nærvera föður og móður umlykur okkur er nafn Drottins lagt yfir okkur. Það merkir allt í senn, næringu til anda, sálar og líkama, lækningu og hlífð. Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.
“Drottinn Jesús Kristur...”
Við trúum á nafn Jesú því við höfum séð máttug tákn hans í lífi þjóðar og einstaklinga. Trúarbrögðin, þjóðsögunar og almenn reynsla vitnar um að það er máttur fólginn í því að þekkja og nota nafn einhvers. Við sem höfum kennt börnum og unglingum vitum hvað það er mikilvægt að læra fljótt nöfnin þeirra. Með því eigumst við mikilvægt tæki bæði til aga og uppörvunar. Til að fanga athygli bæði barna og fullorðinna, fá þau til að líta upp, staldra við og hlusta nefnum við nafn þeirra.
Við signum okkur í nafni Guðs – föður, sonar og heilags anda. Með því vörpum við krafti hans yfir líf okkar, sem skikkju, eins og huliðshjúp til varnar hinu illa. Og við biðjum í nafni Jesú, svo sem hann kenndi okkur: “Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður” (Jóh. 16.23).
Einföld bæn, sem við getum umlukið okkur með í daglega lífinu er Jesúbænin. Í henni eigum við vörn og útgönguleið hvað sem á dynur. Jesúbænin er á þessa leið:
Drottinn Jesús Kristur, sonur Guðs, miskunna þú mér syndugri.
Þessa bæn er hægt að biðja innra með sér hvenær sem er og hvar sem er, anda henni að og frá í takt við andardráttinn og hjartsláttinn: “nær en blærinn, blómið, barn á mínum armi, ást í eigin barmi, ertu hjá mér, Guð”. Jesúbænina má stytta að vild í harmóníu við hjartans mál, “hvert andartak, hvert æðarslag”: Drottinn Jesús Kristur, miskunna þú mér... Drottinn Jesús Kristur, miskunna þú... Jesús, miskunna... Jesús...
Í skjóli Guðs
Guð hefur gefið okkur nafnið sitt svo við getum ávarpað hann, fengið hann til að hlusta á amstur okkar, sorg og gleði dag frá degi. En ekki bara þess vegna heldur líka til að sá máttur sem í því nafni býr geti verið okkar vörn, skjól og sóknartæki. Við erum nefnd með nafni hans. Við erum kristin.
Strengjum þess heit á þessum fyrsta degi ársins 2007 að minna okkur daglega á þann máttuga veruleika sem okkur er búinn. Einsetjum okkur að lifa hvern dýrmætan dag þessa nýja árs í bæn um að blessun Guðs megi “í birtu sólarljóma okkur skína”. Látum það verða með því að biðja í nafni Jesú og finna þannig hjálpræði Guðs streyma inn í líf okkar; með því að leggja nafn Drottins yfir okkur í blessunarorðunum; með því að hlaupa inn í hinn sterka turn nafnsins í signingunni og Jesúbæninni. Þar erum við óhult, fortíð, nútíð og framtíð Guði falin.
Kom, nýja ár, með storm og stríð, með stillur, frið og sólskin blíð. Þó stormar hreki skörðótt ský, í skjóli Guðs ég bý.