Mikið er í ráðist af Borgarleikhúsinu í samstarfi við leikhópinn Vesturport að færa leikrit á svið, sem mið tekur af margslungnu og fjölvídda stórvirki Johann W. Goethes (1749-1833) um Faust. Aðdáunarvert er hve vel tekst að gera því viðhlítandi skil og skírskota jafnframt til samtímans. Efniviðinn í Faust sækir Goethe til Biblíunnar, forngrískra harmleikja, verka Shakespears og þýskra Faustsagna fyrri tíðar, er lýstu samningi við djöfulinn til að auka mátt og þekkingu með eigin sál að veði.
Leikverk enska leikskáldsins Ch Marlowe ,,The tragical history of Dr Faustus” frá 1604 byggðist á þeim sögnum og hafði verið sýnt á þýskri grund. Faust Goethes er þó miklu stórfenglegra verk. Það býr að lífsreynslu Goethes sjálfs og stöðugri þekkingarleit. Hann var fjölfræðingur í stíl fyrri tíðar, nam lög- og eðlisfræði, læknis -og líffræði. Hann var gjörkunnugur heimi fornmennta og lista og höfuðskáld síns tíma og brautryðjandi hugsæisstefnunnar, rómantísku stefnunnar, í listum og menningu.
Sýningin tekur mið af fyrra þætti leik- og ljóðabálksins, sem segir nokkuð sjálfstæða sögu. Hún er nýstárleg og ögrandi og nær vel grunntóni verksins sem seyðandi og mögnuð tónlist Nick Caves dregur vel fram. Ögrandi uppsetning leikhópsins samræmist því háskaspili sem er kvika verksins enda er allt lagt undir í framvindu þess og teflt djarft um lífstilgang og gildi.
Leikmyndin er að uppstöðu til víravirki sem myndar dagstofu og útvegg á hjúkrunar -og elliheimili á jólum svo sem jólatré og ljósaseríur sýna. Upp af því og yfir áhorfendasalinn er spunnið vírnet sem verður vettvangur annarra heima, myrkravera og loftfimleika líkt og í fjölleikahúsi, og gólf stofunnar gliðnar er heljarop opnast.
Leikritið hefst með því að Jóhann (Þorsteinn Gunnarsson), aldurhníginn og lífsreyndur leikari á heimilinu, nafni bæði Goethes og Fausts, les úr Biblíunni upphafsorð Jóhannesarguðspjalls. ,,Í Upphafi var orðið” en telur að hugsun, vilji eða gjörð væri nærri lagi. Í hverju felst ásetningurinn? Hann spyr og er ósáttur við ógreið svör eins og Faust í upphafi leiks Goethes, því að aðgengileg þekking getur engu svarað um grunn og innri lífsþræði. Spurður um það, hvort hann trúi á Guð, svarar Jóhann í hálfkæringi, að trúarbrögð séu leikhús fyrir fátæka. Þótt vistmenn, þjáningarbræður hans og systur í tilbreytingarleysi heimilisins, minni hann á leiksigra og afreksverk, dugar það ekki til að draga úr þunglyndi hans og létta honum lífið
Gréta (Unnur Ösp Stefánsdóttir), sæta og ljúfa stúlkan, sem annast vistmenn ásamt Valentín bróður sínum (Rúnar Freyr Gíslason), gerir það líka. Nöfn þeirra eru hin sömu og í leikverki Goethes og hlutverkin ríma. Valentín stendur þar gegn háttsemi og hugmyndum Fausts. Það gerir Valentín einnig á elliheimilinu, heldur reglu og kippir veruleikanum í samband hafi tengsl við hann rofnað.
Jóhann hefur glímt á sviði við stærstu hlutverk leikbókmenntanna en aldrei fengist við Faust enda ,,hættulegur skáldskapur um angist og þjáningu.” Fyrir orð Grétu fer Jóhann þó með nokkra kafla úr verkinu. Þeir sem heyra hrífast af nema Valentín, sem kveikir á væminni amerískri jólatónlist og gerir hjólastólaæfingar með vistfólkinu og skipar Grétu að skila hálsfesti sem Jóhann hafði gefið henni fyrir uppörvun og hvatningu en gerir um leið lítið úr honum.
Þegar Jóhann býður félaga sínum í skák til að drepa tímann og hann gefur upp öndina í sama andartakinu, er Jóhanni öllum lokið og hyggst ganga frá sér og nota til þess ljósaseríu, en þegar hann herðir um háls, heyrir hann fagran jólasálm sunginn fyrir utan og kallar á hjálp, sem endurspeglar svipmynd frá Faust Goethes, en þar eru páskar hin tímanlega umgjörð.
Þá verða umskipti í leikverkinu, því að hjálpin berst úr óvæntri átt. Skákmaðurinn ,,lifnar við” og Mefistó, djöfullinn í mannsmynd, birtist Jóhanni og bíður fram aðstoð sína og ávarpar hann sem Faust og kynnir sig, þegar Jóhann veit ekki hvort hann er lífs eða liðinn. ,,Ég er illskan sem starfar í þágu hins góða. Ég lýg og tala í gátum. Þú ert beygður, ég er til þjónustu reiðubúinn og kem færandi hendi með syndina”, og þjónustulipur ári hans, Asmodeus, sprettur fram úr gólfinu og fleiri árar á köngullóarvefnum yfir salnum.
Þegar myrkrahöfðingjanum bregður við kross á vegg, sér Jóhann, sem er loksins að komast í Fausthlutverkið, sér leik á borði að ná valdi á hyskinu og gera samkomulag við foringjann. ,,Hvað getið þið gert fyrir gamlingja eins og mig”, spyr hann og er svarað: ,,Við getum hresst upp á þig og gefið þér sýnir sem endurheimta trú þína á Guð og uppfylla óskir þínar.” Jóhann/ Faust veit þó eftir að hafa kannað refilstigu dulrænu og kukls, að ,,höfðingi heimsins” semur ekki nema að trygga sitt. Jóhann/Faust undirritar samt samning við hann í blóði sínu um að njóta þjónustu hans á jörðu en hinum megin snúist hlutverkin við enda hefur hann litla trú á framhaldslífi á hvorn veginn sem fer. Jóhann/Faust setur þó þann varnagla að skilin verði ekki fyrr en hann hafi notið einhvers þess sem hann óski sér að verði varanlegt og hann krjúpi fyrir.
Mefisto sýnir að ,,hann geri allt í dauðans alvöru” með því að vippa konu á hælinu snarlega milli heima og hún birtist síðan sem afturganga og galdranorn, er hjálpar með ólyfjan og sprautu til við að skipta á líkömum Jóhanns/Fausts og hins glæsta Amodeusar, er lífsstraumur berst með titringi þeirra á milli. En Faust endurheimtir þá líka reynsluskort og sakleysi fyrri tíðar sem Mefisto gerir sitt ýtrasta til að spilla og beitir til þess lyga- og blekkingarvefnum.
Hann reynir að nýta Grétu sem agn til að afvegaleiða Faust inn á girndarbrautir og festa þau bæði í lyganetinu. Gréta fellur fyrir Faust og hann tælir hana. Trú hennar og næmi fyrir himneskum viðmiðunum og víddum hverfa henni þó ekki. Hún er með kross á brjósti og í hjarta og spyr Faust ítrekað um trú hans á Guð og heldur sál hans vakandi í ljósinu þótt myrkramyndir Mefistos sæki stöðugt á hann.
Blekkingarmyndirnar sem Faust reynir og brugðið er upp í sýningunni með mögnuðu sjónarspili, rekast á veruleikann og mörkin verða óglögg á milli. Gréta, sjálfri sér lík sem starfsstúlka á hælinu, heilsar árunum sem gestum hjá Jóhanni og Valentín minnir þá á, að heimsóknartímanum sé lokið. Samt er sem eitthvað undarlegt sé í gangi og hann varar Grétu við að hleypa slæmum áhrifum að sér. ,, Ég vil fá ró hérna. Ekkert meira hókus pókus.” Gréta rúllar Jóhanni, í nýja gerfinu, í hjólastól og Valentín segir heimilisfólkinu enn til á hjólastólaæfingu. Glyðrulegur kvenári reynir að tæla hann en Valentín er í vinnunni og getur ekki sinnt slíku. Fleiri skrattar leggjast þá á hann og koma honum frá.
Mefisto þykir sem hægt gangi að myrkva sál Fausts og hvetur hann til dáða og samþykkja lygina og viðurkenna réttmæti hennar í samskiptum. ,,Hvít lygi og blekkingar eru nauðsyn til að ná árangri.”,, Ljós að handan og fegurra líf eru lygar á góðum nótum.” Hann fer með Faust á Valborgarmessu, tryllta skemmtun myrkraaflanna. ,,Nú safnast saman hópurinn, í hásætinu djöfullinn.” Eldglæringar birtast á sviðinu og netið titrar, rafmagnsgítarar væla eftir nótum Nick Caves og lofsöngur myrkraliðsins ,,Halleluja people”, hljómar í hryllingi. -Og allt fer úr skorðum á elliheimilinu þegar vistmenn losna undan taumhaldinu.-
En Gréta nær áttum og fer enn að spyrja og tala um Guð og öldurnar lægir. Faust sogast með henni frá myrkrinu inn á bylgjulengd ljóssins og hrífst af lífsundrum og samhenginu undursamlega í stjörnuskini og hjartslætti lífs og segir: ,, Ef að er gætt eru skilaboðin augljós frá himni og í hverju hjarta.” Svífandi í loftfimleikum tjá þau Gréta ást sína en líka iðrun yfir illskunni og skynja í hjörtum, að kærleikur þeirra er meira en losti jarðneskra og líkamlegra hvata, því að hann leitar í hæðir til einingar við kærleika Guðs.
Þau eru komin á endastöð. Og Faust biður að andartakið vari sem hann reynir ekki í sæluvímu nautnanna samkvæmt ætlun Mefistós heldur í sælu þess kærleika er sameinar elskendur í sálu og líkama og finnur Guð sem uppsprettu ástar og lífs, það bráir af Jóhanni. Hann kemur til sjálfs sín laus úr Fausthlutverkinu og lygavefnum. Honum heyrist þó sem til sín sé kallað og minnt á samkomulag en svarar því ekki. Gréta er komin á sinn stað á heimilinu og segir: ,,Gleðilega hátíð Jóhann.” Hann er þó ekki samur og fyrr, því að hann er reynslunni ríkari þótt tæpt hafi staðið. Hann hefur fundið muninn á lygi og sannleika, myrkri og ljósi, numið í sálu grunnhljóma lífs og skynjað að lífsþræðirnir sönnu og traustu eru í hendi Guðs. Hann krýpur og játast Guði og biður engla himins að grípa sína sál og Guð um enn eitt tækifæri.-Eflaust til að játast og lifa honum.-
Þessi endalok sýningarinnar í Borgarleikhúsinu samræmast ekki Faustsögnunum fornu þar sem Faust tortímist að lyktum ofurseldur myrkrinu en þau eru í samhljómi við Faust Goethes. Hann hefur í verki sínu hliðsjón af frásögn Gamla Testamentisins af Job. Guð leyfir Satan að þjá Job skelfilega í trausti þess að trú hans og ráðvendni standist allar raunir. Goethe lýsir í formála veðmáli Mefistos við Guð um að hann geti náð tökum á Faust en Guð hefur traust á honum. Goethe horfir líka til freistingarsögu Jesú, sýnanna sem djöfullinn bregður upp fyrir innri sjónum hans til þess að tæla hann frá Guði og víkja af köllunar -og þjáningarvegi sínum, sem rjúfa myndi lygavef djöfulsins og losa dauðatök hans Allt var þar undir að kristnum lífsskilningi, farnaður lífs um tíma og eilífð.
Með ljóðabálki og leikverki sínu um Faust segir Goethe söguna um lífsháskann. Hann lýsir traustinu sem Guð hefur á mönnum, einkum þeim sem mikið er gefið að bregðist ekki og glepjist af myrkrinu eða láti bugast af því heldur varðveiti vitundina um Guð og ljós hans í sálu, velji ekki hið lága heldur leggi á brattann og horfi til stjarna og himins.
Með ýmsum skírskotunum glæðir merk sýning í Borgarleikhúsinu á Faust skynjun áhorfenda á ógnum og háska. Köngullóarvefurinn yfir þeim vísar til þess að lyga -og blekkingarnetum geti leynt og ljóst verið brugðið um þá sjálfa, freistingum valda og áhrifa, sem ekki miða að auðmjúkri lífsþjónustu, blekkingum auðfengis gróða og hagnaðar, ginningum girnda og kláms sem myrkva helgar og göfugar kenndir, freistingum þess að leita kunnáttu og þekkingar án lífsvirðingar og nýta þekkingu og vísindi án aðgæslu og ábyrgðar.
Sýningin varpar líka líkt og verk Goethes fram spurnum um drifkraft lífsins, gildi og tilgang þess. Er lífið eins og það sýnist vera á áþreifanlegu yfirborði eða mun margslungnara? Hversu frjáls er maður? Eru ósýnilegir kraftar og áhrif að verki í mannlífi jafnvel andstæð öfl? Er elliheimilið endastöð þar sem hrörnun og dauði staðfesta vanmátt og slokknun vitundar og lífs eða er von um að endalokin verði önnur og betri? Er hjartað bara vöðvi sem dælir blóði eða sköpunarundur Guðs þar sem hann gerir vart við sig og uppsprettulindir lífsins liggja? Eru jól og páskar glansmynd og einber blekking eða ytri ábendingar um háleitan lífstilgang, sem samræmast innri kennd og þrá um Guð og leiðarljós hans? Eru Orð Guðs og elska, þrátt fyrir allt sem myrkvar líf og tilveru manns, upphaf þess og takmark?
Kristin trú svarar því játandi. Hún varar við því að leita þekkingar, valda og áhrifa án auðmýktar og þolgæðis. Hún viðurkennir að þekkingu og kunnáttu eru takmörk sett og í molum á sýnilegu sjónarsviði en að því komi að gjörþekking veitist á brautum þess Guðs sem opinberar vitund manns visku og þekkingu í náðargáfum sínum (1.Kor 13.12).
Sýning Borgarleikhússins og leikhópsins Vesturports á endurgerð hans á Faust eftir Goethe sýnir háskaspil og hættumörk og er sem slík mögnuð og glæsileg. Hún er áhugaverð fyrir alla sem glíma við lífsgátur og leita svara. Leikstjóri og leikarar vinna leiksigra. Og leiksvið, umgjörð og tónlist votta þá dirsku og framsækni sem stýrir ferð í leikhúsinu og gefa þar skapandi kröftum virka og farsæla framrás.
Stjörnugjöf. ****