Fyrir skömmu kom út bók eftir Jim Collins (2009), sem ber heitið „How the mighty fall and why some companies never give in.“ Í þessari bók fjallar höfundur um það hvað gerist í raun og veru þegar stórfyrirtæki verða gjaldþrota. Það er margt vert umhugsunar í þessari bók, sér í lagi núna þegar rúmlega eitt ár er liðið frá því að bankakerfið hrundi. Höfundur hefur rannsakað þetta viðfangsefni í nokkur ár. Í ljósi þess hefur hann sett fram ákveðið líkan, sem hann nefnir fimmstiga-líkanið. Það eru fimm grundvallarþættir sem eru sameiginlegir öllum stórfyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota í Bandaríkjunum á undanförnum árum.
Það sem einkennir fyrsta stigið er hroki. Stjórnendur líta á velgengni sína sem sjálfsögð réttindi. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa misst sjónar á þeim grundvallarþáttum sem orsökuðu velgengni þeirra í upphafi.
Annað stigið er agalaus leit eftir einhverju meira og stærra. Mikið vill meira eins og sagt er. Stjórnendur vilja stækka fyrirtæki sín og fara í yfirtökur á öðrum eða samrunar eiga sér stað við önnur fyrirtæki. Frekari vöxtur ætti að leiða til meiri gróða.
Þriðja stigið einkennist af afneitun á þeirri vá sem stendur fyrir dyrum. Menn burtskýra upplýsingar sem eru truflandi og óþægilegar. Stjórnendur lifa í blekkingu og taka aukna áhættu.
Fjórða stigið einkennist af ákveðinni ringulreið. Fyrirtækinu hefur hnignað. Þá er kallaður til bjargvættur sem á að snúa þróuninni við. Oftar en ekki er umbreytingarleiðtogi fenginn til þess að bjarga málum. Sagan sýnir að þetta eru að meira og minna leyti skyndilausnir.
Fimmta stigið einkennist af uppgjöf og vonleysi. Nauðasamningar, greiðslustöðvun og gjaldþrot.
Þetta fimmstiga-líkan má svo sannarlega færa upp á bankakerfið á Íslandi sem hrundi fyrir rúmu ári. Hroki og dramb er einkennandi fyrir fyrsta stigið. Gamla og góða orðtakið “Dramb er falli næst” á hér vel við. Hroki er fordæmdur í Biblíunni. Í upphafi hennar er sagan af Adam og Evu í aldingarðinum Eden. Hroki þeirra leiddi þau til falls. Þau freistuðst til þess að líkjast Guði og var vísað út úr aldingarðinum, enda höfðu þau opnað illskunni leið inn í heiminn. Sagan af Babelsturninum, sem átti að ná til himins, var eytt af Guði, er einnig dæmi um hroka.
Á enskri tungu er orðið „hubris“ notað yfir hroka og stærilæti. Það orð er komið úr grísku. En viðfangsefni margra grískra harmleikja er einmitt hrokinn. Sama má segja um gríska goðafræði. Þar eru ýmsir nefndir. Einn þeirra er Narkissos. Á hann var lagt að hann skyldi verða ástfanginn af eigin spegilmynd. Hann horfði á mynd sína í tærri lind þar til hann veslaðist upp og dó og varð að samnefndu blómi. Þess vegna er orðið „narcissismi“ notað yfir sjálfshrifningu eða sjálfsdýrkun. Versta mynd af narkissisma er siðblinda, þar sem hvorki samviska né sektarkennd eru fyrir hendi. Hinn siðlausi lítur á alla í kringum sig sem hluti er hann getur notað í sína þágu.
Annars er það vanvirðing á siðferðislegum gildum sem er einkennandi fyrir hroka. Þeir sem eru helteknir af þessari synd, sem talin er fyrst í röð dauðasyndanna sjö, telja sig hafa yfirburði fram yfir aðra. Þessi tilfinning þeirra getur átt sér rætur í menningu, kynþætti, pólitík eða efnahagslegum yfirburðum. Yfirleitt er hroki þekkingarskortur, áhugaleysi á vissum málefnum eða skortur á auðmýkt.
Ýmsir hrokagikkir eru þekktir af alþýðu manna. Mætti þar nefna Hitler, Mussolini, Kalígúla keisara, sem lýsti sjálfan sig guð, Dr. No og Goldfinger í James Bond myndunum og svo auðvitað óvinurinn sem sýndi Guði hroka og varð fallinn engill. Allir voru þeir hrokafullir og saga þeirra endaði með ósköpum.
Hroki leiðir alltaf til falls. Það eru gömul sannindi og ný. Biblían talar mjög skýrt gegn hroka eins og fyrr sagði. Eitt dæmi um það er eftirfarandi tilvitnum úr Orðskviðunum 16.5: “Sérhver hrokafullur maður er Drottni andstyggð.”