Kirkjan er stofnun sem hefur tilhneigingu til að vera þunglamaleg og íhaldssöm. Til hennar var þó stofnað með djörfung og kjark að leiðarljósi. Erindi kirkjunnar á öllum tímum er erindi fagnaðar. Við eigum að vera kirkja gleðinnar. Boðskapurinn er bjartur og tær og við eigum að boða hann kinnroðalaust. Kirkja fagnaðarerindisins hefur það erindi að lýsa upp skugga og bægja frá myrkri. — Það er margt sem ógnar lífinu. Fólk rænir aðrar manneskjur frelsi, fólk selur eitur. Inní þær hörmungar talar djörf kirkja. Djörf kirkja hlustar Djörf kirkja á erindi við þjóðina sem hún er kennd við. Djarfa kirkjan óttast ekki fjölbreytileika heldur fagnar honum. Hún hopar ekki en sýnir virðingu og víðsýni. Hún hvetur til samtals og samstöðu. Hún gerir sér grein fyrir breyttri stöðu og sér þar ný tækifæri. Djarfa kirkjan hefur úthald til að hlusta og heyra vel. Sumt er framandi og ögrandi en hún hlífir sér ekki við að hlusta, skoða og meta. Ísland er lítið og fámennt land. Meirihluti þjóðarinnar tilheyrir þjóðkirkjunni. Á Íslandi eru þó minnihlutahópar bæði innan og utan þjóðkirkjunnar. Hin djarfa kirkja tekur það hlutverk alvarlega að veita þeim sérstaka athygli og styðja þá þegar það á við. Djarfa kirkjan treystir fólki. Þar er ekki átt við blint traust heldur traust sem byggir á þeirri reynslu að traust kallar á traust. Slíkt getur valdið vonbrigðum. Stundum eru þau sem sýnt er traust ekki traustsins verð. Það heyrir þó til undantekninga, þessvegna velur djarfa kirkjan að treysta áfram.
Djörf kirkja og aukið sjálfstæði Djörf kirkja fagnar umræðu og hefur forystu um að skoða allar hliðar t.d. á tengslum og/eða aðskilnaði ríkis og kirkju. Hún spyr óhrædd um hagsmuni kirkju og þjóðar og leitast við að skoða þarfirnar frá ólíkum sjónarhornum. Hin djarfa kirkja hvetur til aukinnar þátttöku fólksins sem tilheyrir henni. Hún kallar til opins samtals og vill að sem flest þeirra sem vilja taka þátt í starfinu fái auknar skyldur og um leið aukna ábyrgð.
Hvernig umræðu vill hin djarfa kirkja? Hin djarfa kirkja hvetur til opinnar umræðu um öll mál. Hún lítur svo á að ekkert mannlegt sé henni óviðkomandi. Opnun er lykilorð. Það er ekki reynt að hefta eða stýra umræðu. Hún þorir að taka þátt í samfélagsumræðu og lítur þar til fyrirmyndarinnar Jesú frá Nasaret sem lét til sín taka og hikaði ekki við að ögra viðteknum hefðum og skoðunum ef velferð fólksins var í húfi. Málstaður minnihlutahópa eða einstaklinga sem minna mega sín er málstaður hinnar djörfu kirkju
Hvert er erindi hinnar djörfu kirkju hér og nú? Eðli þjóðkirkju er að vera umfaðmandi, víðfeðm, í sambandi við umhverfi sitt á hverjum stað. Í raun er það innsti kjarninn í þjóðkirkjuhugtakinu. Erindið er skýrt — það er fagnaðarerindi sem hún boðar með djörfung og gleði.
Að lokum Við köllum eftir umræðu. Við viljum tilheyra djarfri kirkju. Við skrifuðum nýverið um kirkju óttans. Við sem tilheyrum kirkjunni verðum stundum slegin ótta. En við getum líka verið hugrökk. Við erum samsett úr slíkum andstæðum — það gerir okkur að manneskjum. Það er mikilvægt að kannast við óttann, horfast í augu við hann og leita leiða til að mæta honum. Til þess þarf kjark og við köllum eftir þeim kjarki hjá okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur. Við viljum kirkju sem trúir og vonar að kærleikurinn geri heiminn betri. Þjóðkirkjan hefur ekkert að hræðast. Hún er grein á meiði hinnar „einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju“ Krist. — Slík kirkja hefur aðeins ástæðu til að vera glöð og djörf!