En hann sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. (Lúk. 13. 6-9)
Þinn anda, Guð oss gef ó, Guð oss alla vef í hagsæld lífs og hörmum þíns heilags kærleiks örmum. - Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það verður víða lokað 2. janúar. Það þarf að gera árið upp. Hvað hefur áunnist? Eða hefur kannski ekkert áunnist? Og brátt tekur skattasýrslunum að snjóa inn um bréfalúgur landsmanna. Við komumst ekki hjá því að gera upp heimilisbókhaldið. Stóru fyrirtækin komast ekki upp með uppgjör einu sinni á ári. Á mörgum þeirra hvílir sú skylda að upplýsa eigendur eða væntanlega eigendur um hvernig málin stanada. Kvarði arðseminnar er tekinn fram reglulega og mat lagt á hvort fyrirtækið standist mál. Þessi krafa styrkir virðingu og sjálfsvirðingu þeirra sem undir hana eru seldir.
Mér finnst áramótin ekki einhliða þægilegur tími. Þau minna á svo margt. Þau minna mig á að sá spölurinn sem ég á ógenginn styttist sífellt. Og þegar fortíðin leitar á, eins og títt er um áramót, skjóta upp kollinum minningar, sumar ljúfar og þakkarverðar, vissulega, aðrar sárar, jafnvel óbærilegar. Og spurningar vakna, áleitnar: Hefur verið gengið til góðs? Og áramótin beina einnig sjónum til framtíðar, framtíðar sem ég get vissulega gert áætlanir um, en þó veit ég að þær eru ekki nema að hluta á mínu valdi.
Guðspjall þessa gamlaársdags er um uppgjör. Fíkjutré skilaði ekki ávexti þriðja árið í röð. Hvað hefur slíkt tré að gera í ávaxtagarði. Dómur er felldur: Högg það upp.
Ég hef undanfarið verið að blaða í bók sem mér barst í haust. Ein kaflafyrirsögnin vakti athygli mína og forvitni og hugur minn dvalið við hana. Hún var á þessa leið: Vandi nútímamannsins er þessi: Hvar get ég fengið dóm?
Mér þótti staðhæfingin sérkennileg. Ég hélt að ef það væri eitthvað sem nútímamaðurinn hefði andstyggð á væri það að láta fella yfir sér gildisdóma, að ekki sé talað um ef Guði er blandað í málið með sinn dóm. Enda segir höfundurinn eitthvað á þessa leið: „Þarna komum við einmitt að einhverjum djúpstæðasta vanda mannsins í menningu vesturlanda hvort heldur litið er til þess sem kallað er módernismi eða póstmódernismi. Þessi menning einkennist af einstaklingshyggju og kröfunni um takmarkalaust frelsi einstaklingnum til handa, kröfu sem ýtir til hliðar þörf mannsins fyrir dóm.“ Og höfundur skýrir hvað hann á við með orðinu dómur með því að skírskota til þess hvað orðið merkir á grísku, þ.e. að greina, aðgreina, gera upp á milli. Og hver er þá vandinn þar sem dómnum hefur verið ýtt út af borðinu? Upplausn sjálfsmyndarinnar. Umræddur höfundur staðhæfir að til þess að maðurinn öðlist heilbrigða sjálfsmynd, heilbrigðan skilning og viðhorf til sjálfs sín þurfi hann að hafa kvarða til að mæla sig við, svo hægt sé að greina hvað er gott og hvað illt, hvað rétt og hvað rangt. Án dómsins, án aðgreiningarinnar, verði lífið léttvægt. Hvernig fer fyrir þeim sem ekki hafa slíkan kvarða að mæla sig við? Jú, þeir glata hluta af sjálfum sér. Sjálfsmyndin, sjálfssemdin verður fljótandi. Án kvarðans vita menn ekki hverjir þeir eru og leita staðfestingar á sjálfum sér með því að mæla sig við hvikular fyrirmyndir sem birtast á skjánum eða í glanstímaritum og kauphallartíðindum. Idenditetið, sjálfssemdin, víkur fyrir öryggisleysi og siðvitið leysist upp í spurningunni: Hvað kemur mér vel? vegna þess að hvergi er tekið af skarið um hvað er gott, satt og rétt, hvenær ég stenst mál og hvenær ég þarf að láta af einhverju og bæta ráð mitt.
Idenditet, sjálfsemd, hefur verið skilgreind sem sífelld grein einstaklingsins fyrir því hver hann er og hvað hann hyggst fyrir. Án einhvers kvarða utan mannsins, án gilda sem eru hafin yfir vafa, verður sjálfsemdin flöktandi, manneskjan rótlaus og tómhyggjan yfirvofandi.
Í tilefni af útgáfu uppeldishandbókar sem út kom hér á haustdögum var fluttur inn þekktur bandarískur uppeldisfræðingur sem lagði áherslu á mikilvægi þess að börnunum okkar væri smíðaður rammi, þeim sett mörk. Sá sem engin mörk hefur, sá sem engin viðmið hefur veit hvorki hver hann er né hvert hann er að fara. Börnin okkar fá ekki að vita hver þau eru nema þeim séu sett mörk, þeim fenginn kvarði til viðmiðunar svo þau geti greint gott frá illu og rétt frá röngu. Þau fá ekki að vita hvers virði þau eru nema til þeirra séu gerðar sanngjarnar kröfur.
Þegar kirkjan hefur hafið upp raust sína til varnaðar og haldið fram kristnum gildum hefur gjarnan upp raust sína margradda kór þeirra sem saka hana um þröngsýni, dómsýki, fjandskap við lífið og frelsið o.s. frv. og hún minnt á orð Jesú: Dæmið ekki. Þau orð voru ekki töluð til að næra dómgreindarleysi, heldur til að vara við niðurlægjandi fordæmingu skinhelginnar. Hafi hins vegar einhver hvatt til þess að vega og meta hvað sé gott, rétt og satt og hafna því sem er illt, rangt og ósatt þá er það Jesús Kristur. Þegar kirkjan minnir á það er hún sökuð um að hún sé sífellt að reyna að gera sakbitna og taugaveiklaða einstaklinga úr frjálsu og heilbrigðu fólki og Freud kallaður til vitnis. En nútíma sálvísindi hallast í vaxandi mæli að því að taugaveikluð sektarkennd eigi sér gjarnan rætur í raunverulegri sök sem ekki hefur verið gerð upp, lækningin sé fólgin í því að horfast í augu við hana, viðurkenna hana og gera hana upp.
Á liðnu ári eignaðist kirkjan bandamann í fréttakonu með sjálfsvirðingu og óbrjálaða siðferðiskennd sem með því að ganga af vettvangi vakti til umhugsunar um að klámvæðing samtímans ber vott um mannfyrirlitningu, og að það kunni jafnvel að vera vert umhugsunar hvort tjáningarfrelsinu og fjölmiðlavæðingunnifylgi ekki einhver siðferðileg ábyrgð.
Vísast höfum við kirkjunnar þjónar ekki alltaf leikið af nægilegri fimi á þá strengi sem kalla manninn til ábyrgðar frammi fyrir Guði og ekki alltaf prédikað af nægilegri hógværð um ábyrgð mannsins og dóm Guðs, eða jafnvel látið það ógert. Það breytir ekki því að kristin kenning um að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd og kalli hann með því til ábyrgðar gagnvart sér og vegi hann á vogarskálar réttlætis síns, - er vitnisburður um hve ríka áherslu kristin trú leggur á mikilvægi og reisn mannsins. Sá sem engar kröfur eru gerðar til hefur enga reisn. Sá sem engar kröfur eru gerðar til skiptir ekki máli. Sá sem enga ábyrgð ber er ekki mikils virtur. Maðurinn skiptir Guð máli. Þegar búið er að úthýsa Guði og réttlæti hans úr tilvist mannsins verður sjálfsemdarvandinn óbærilegur, niðurlæging mannsins algjör og hrópið eftir réttlátum dómi þögult en sársaukafullt. Það skyldi vera að sálarfræðin og guðfræðin gætu tekið höndum saman á nýrri öld í viðleitni sinni til að gera manninn heilan.
Það var leitað ávaxta á fíkjutré. Mælikvariðnn á gott fíkjutré er að það beri ávöxt. Það bar ekki ávöxt. Yfir því var felldur dómur: Högg það upp! Hví á það að spilla jörðinni. Þessi stutta líking Jesú er þrungin merkingu. Hún undirstrikar með fullum þunga kröfuna um ávöxt. Að bera engan ávöxt er jafn ámælisvert og að bera skemmdan ávöxt. Maðurinn er kallaður til að bera ávöxt með því að þjóna Guði og náunga sínum í kærleika. En sagan dregur jafnframt fram kjarnann í kristnum dómi: Fagnaðarerindið um langlundargeð, fyrirgefningu og kærleika Guðs, - án þess að maðurinn sé sviptur ábyrgð.
Lát það standa enn þetta ár. Gefðu því nýtt tækifæri. Höndin sem heldur á vogarskálum dómsins er jafnframt höndin sem rétt er út til að reisa við, bjóða ný tækifæri, nýtt upphaf. Dómur Guðs, afstaðan til þess Guðs sem setur mörk, sem dæmir syndina og elskar réttlætið, er ekki aðeins forsenda heilbrigðrar sjálfsmyndar. Hann býður til uppgjörs, bendir á það sem aflaga fer og býður tækifæri til uppgjörs. Uppgjörið er forsenda þess að breyting verði á. Að fella dóm yfir því sem ekki stenst mál er jafnframt boð um tækifæri til að fylgja því sem stenst mál.
Ég sá glefsur úr þætti um friðarverðlaunahafann Johan Galtung í norska sjónvarpinu í gærkvöld. Það vakti athygli mína þegar lýst var aðferðum hans til að koma á sáttum í milliríkjadeilum að hann nefndi það sem forsendu að menn játuðu brot sín hver gagnvart örðum og bæðust fyrirgefningar. Heilbrigð sektarkennd er forsenda iðrunar og sátta. Johan Galtung er guðsafneitari og fer ekiki í launkofa með það, en í þessu á hann samleið með kristinni kenningu.
Það líður að áramótum. Áramót kalla eftir uppgjöri. Höfum við kjark til að gera upp við Guð og menn, horfast í augu við það sem við höfum misgert eða ógert látið og gera það upp. Höfum við kjark til að endurskoða gildismat okkar og taka upp baráttu gegn niðurbrjðótandi og mannskemmandi afstæðishyggju og brengluðu gildismati sem samtíminn er svo ríkur af og ganga út og segja ég tek ekki þátt í þessu - og hasla okkur nýjan völl uppbyggilegra lífsgilda sem einkennast af trú, von og kærleika? Það er útlátalítið að berja á báðar hliðar á þeim sem okkur kann að finnast að eigi að ganga á undan. En eina manneskjan sem við höfum einhver tök á erum við sjálf. Þar verðum við að byrja. Með því einu getum við veitt hvort örðu aðhald og þeim sem stýra hinum stóru málunum. Til þess er okkur rétt hönd. Til þess er okkur gefið nýtt ár, hvort sem okkur er trúað fyrir lítilli bátskel í lífsins ólgusjó eða gjörvallri þjóðarskútunni. Guð gefi okkur sjálfsvirðingu og auðmýkt til að gangast undir dóm Guðs og ganga reist til framtíðar leidd af honum.
Um leið og ég sendi héðan úr Hallgrímskirkju óskir til ykkar allra sem heyrið mál mitt um farsæld og blessun Guðs á nýju ári, er mér um leið hugsað til ykkar sem sorgin hfur vitjað. Ég bið Guð að lækna sárin og þerra tárin og leiða ykkur til móts við nýtt ár í von og trú og að hann gefi ykkur þrek á sorgargöngunni.
Við hjónin þökkum samstarfsfólki okkar hér við kirkjuna og söfnuðinum öllum góða samfylgd á árinu sem er að líða og væntum okkur góðs af þeirri fylgd á nýju ári. Guð blessi ykkur öll. Amen.
Sigurður Pálsson (sigpal@hallgrimskirkja.is) er sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Flutt á gamlaárskvöldi, 31. desember 2002.