Um síðustu hvítasunnu stóðum við fjölskyldan í flutningum, það er heilmikið átak. Ég pantaði pizzur á allt liðið í kvöldmatinn og þegar ég kom inn með krásirnar var stokkið á kassana og menn fengu sér áfjáðir á diskinn enda allir svangir. Þegar menn voru sestir og byrjaðir að gúffa í sig, heyrðist allt í einu mjóróma rödd við borðið: ,,Amma Jóna, á ekki að biðja bænina.“ Alla setti hljóða, stóru strákarnir mínir glottu vandræðalega út í annað og mér hitnaði allri að innan. Ömmustelpan mín fjögurra ára er alin upp við það að hjá ömmu og afa er alltaf farið með bæn fyrir kvöldmatinn og hún hefur tekið þátt í því ritúali af mikilli alvöru enda kirkjunnar manneskja og sækir sunnudagaskólann alla sunnudaga af gleði og áhuga. Það lögðu allir niður pizzursneiðarnar og lutu höfði eftir þess bón barnsins og þökkuðu fyrir lífsins gæði. Orðin hennar Bergþóru Hildar voru undursamleg bæn í eyrum ömmunnar. Þrátt fyrir að vera óttalegur pizzusnúður þá gleymdi hún ekki þakklætinu og að fela sig góðum Guði og hún fékk allt fullorðna fólkið til að staldra við og gera hið sama. Mér finnst hún Bergþóra Hildur fallegasta, skemmtilegasta, gáfaðasta fjögurra ára stelpa í öllum heiminum og ég segi það oft við hana. Þá horfir hún alltaf á mig með ákveðni vorkunn í svipnum eins og hún muni allt í einu segja: ,,Amma þú verður að raða þér saman og vera í tengslum við raunveruleikann.“ En þrátt fyrir hennar miklu gæði, þá getur hún verið alveg hræðilega þrjósk og foreldrar hennar eru stundum í fullri vinnu við að setja henni mörk, ég er svo heppin að geta alveg sleppt því. Er það t.d. nokkur hemja að faðir hennar kom með hana 45 mínútum of seint í kvöldmat í ömmu- og afahús um daginn af því að hún vildi ekki vera í fötunum sem hann setti hana í?! Þvílíkt og annað eins og maðurinn er sálfræðimenntaður og þurfti allan þennan tíma. Bergþóra Hildur og Hrönn vinkona hennar í næstu íbúð eru þessa sumardaga í heilmiklum valdaátökum og samanburðafræðum þrátt fyrir að vera bestu vinkonur. Þessar tvær stúlkur sem báðar voru bornar til skírnar hér í Garðakirkju á vordögum fyrir fjórum árum af því að foreldrar þeirra vildu að þær tilheyrðu kirkju Krists geta velgt foreldrum sínum verulega undir uggum. En þær eru fyrst og síðast dásamlegar. Þær eru kirkjan, líka fólkið sem gleypti í sig pizzurnar á síðustu hvítasunnu. Þau eru líka kirkjan. Þegar þær vinkonurnar voru bornar til skírnar voru þær umvafðar kærleika kirkjunnar, fólksins sem sat í kirkjubekkjunum í litlu kirkjunni á Garðaholtinu og kærleika allra þeirra sem vona til Krists út um víða veröld. Þær voru umvafðar heilögum anda sem stundum leggur þeim orð á munn eins og við borðhaldið um daginn.
Í Guðspjalli dagsins verðum við vitni að einkar áhugaverðum samskiptum Jesú og Péturs lærisveins. Jesús spyr lærisveina sína um orðið á götunni. „Hvern segja menn [mig] vera?“Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn mað ur hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.“ Síðar í guðspjallinu segir: ,,Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“
Frábært. Í einni og sömu frásögn er sami maðurinn ávarpaður sem klettur og gefin fögur fyrirheit en undir lok hennar er hann ávarpaður með nafni hins illa: Vík frá mér Satan! Ef guðspjöllin eru skoðuð fær engin persóna eins mikið rými og Pétur fyrir utan Jesú sjálfan. Ekki einu sinni María móðir frelsarans er í meiri fókus. Pétur gegnir miklu aðal hlutverki og það er óhætt að segja að hann sé ekki alltaf rétti maðurinn á réttum stað með réttu orðin. Þetta er maðurinn sem röflaði bara þegar hann sá Jesú ummyndast á fjallinu og bauðst til að tjalda bara yfir samkomuna á staðnum. Þetta er sami maðurinn og ákvað að ganga til móts við Jesú á vatninu en fátaði svo og byrjaði að sökkva þannig að Jesús varð að bjarga honum. Hann byrjaði að vísu á því að ögra Jesú í aðstæðunum: ,, Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu. Jesús svaraði: ,,Kom þú!“ Og Pétur sté út úr bátnum. – Hvatvísi! það var nákvæmlega það sem hrjáði hann - og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva.„ Stendur í textanum. „Þá kallaði hann: ,, Drottinn, bjarga þú mér!“ Jesús rétti þegar út höndina og tók í hann.“ Þannig kom Jesús vini sínum á réttan kjöl. Pétur er líka maðurinn sem afneitaði Kristi þrisvar sinnum eftir að frelsarinn var handtekinn og flúði af vettvangi! Við þennan vin sinn segir Jesús í guðspjalli dagsins: „Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.“
Þessi óttalegi tilfinningapési og fljóthugi, hann var sem sagt kletturinn. Það læðist að manni hvort Jesús hafi kannski ekki verið mikill mannþekkjari. Jú, hann var það. Ég elska persónuna Pétur í Biblíunni, þennan sem hét fyrst Símon Jónasson. Það er vegna þess að ég á svo auðvelt með að spegla mig í persónu hans. Ég þekki þetta allt, að vera staðföst og vitna um Krists, þar tekst mér oft að hitta naglann á höfuðið. Ég þekki það líka vel að vera hvatvís og þurfa að bakka með hlutina og biðjast afsökunar. Ég þekki það líka láta sem ég sé hugrökk en vera í raun alveg að farast úr kvíða. Ég þekki það líka að vera klettur en ekki síður þá tilfinningu að mér finnist ég vera drukkna og ráði ekki við aðstæðurnar.
Við segjum margt um kirkjuna og þar með segjum við margt um okkur sjálf. Í blaðinu fréttatímanum sem kom út í síðustu viku er rætt við fjölmiðlamanninn Sölva Tryggvason sem segir um kirkjuna: ,,Fyrir mér eru 12 spora samtökin hin nýja íslenska þjóðkirkja. Þannig er mín sýn á íslenskt samfélag. 12 spora-samtökin eru þau einu á Íslandi þar sem þúsundir manna koma saman í hverri einustu viku og rækta sig andlega án þess að þar komi til peningar eða veraldleg umbun. Kirkjan nær ekki að laða svona marga á sunnudagsmessur.“ (Tilvitnun lýkur) Að baki þessum orðum býr sá góði vilji að kirkjan sé sönn. Hér er tjáð löngun til þess að hvorki fé eða frægð né neitt annað skyggi á það sem kirkjan á að standa fyrir. Við vitum öll og finnum að auðvitað er kirkjan ekki bara þau sem koma í sunnudagsmessu. Allt AA- og 12 sporafólkið sem kemur saman vítt um land í viku hverri og nýtir sér víðast hvar safnaðarheimili kirkna – þau eru einmitt kirkjan. Það er hárrétt. Þúsundirnar sem allan veturinn sækja sóknarkirkjurnar sínar í alls kyns hópastarfi fyrir börn og fullorðna – þau eru líka kirkjan. Eins fólkið sem fylgir ástvini til grafar eða ber barnið sitt til skírnar. Ég tala nú ekki um brúðhjónin sem hafa kropið við altarið t.d hér í Garðakirkju þessa helgi að ógleymdum okkur öllum sem nákvæmlega á þessu augnabliki erum að tala saman, íhuga saman, í gegnum ríkisútvarpið, óháð allir trúfélagaskráningu eða öðrum ytri þáttum. Já, við öll sem eigum það í okkur að staðnæmast í Jesú nafni til þess að þakka fyrir lífið og biðja fyrir ástvinum okkar, hvert mannsbarn sem þráir frið og réttlæti og horfir til Guðs í bæn fyrir heiminum tilheyrir kirkju hans. Og við vitum líka að Þjóðkirkjan sem stofnun er ekki annað en ytri stuðningur við hina raunverulegu kirkju Krists og að því leyti sem hún styður við kristnina er hún gagnleg en að því leyti sem hún þvælist fyrir henni er hún einmitt bara að þvælast fyrir. Þess vegna þarf kirkjustofnunin alltaf að fá að breytast og þróast í takti við hina raunverulegu kirkju því stofnunin sjálf hefur ekkert hlutverk annað en að þjóna kirkju Jesú, fjöldahreyfingu frelsarans frá Nasaret.
Af því að ég er hluti af kirkjunni fór ég t.d. í gegnum 12 sporin undir merkjum Vina í bata fyrir nokkrum árum og hafði gott af því, alveg eins og ég nýt þess að sækja sunnudagsmessur eða mæti í bænahópinn minn. Þetta geri ég vegna þess að ég er að takast á við minn Pétur innra með mér sjálfri. Það eru margar og síbreytilegar leiðir innan kirkjunnar til að vaxa sem andleg manneskja. Við erum ólík en spurningin um tilgang lífsins liggur á hjarta okkar allra og við getum ekki vikið okkur undan spurningunni sem orðuð er í guðspjalli dagsins: ,,Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?” Það er ekki mitt að dæma vegferð fólks í sinni andlegu leit, það er okkar að vera samferða og vera vinir í bata, andlegum bata. Þannig fór Pétur í gegnum lífið. Hann gerði mistök og hann vann sigra. Hann var klettur, þrátt fyrir hvatvísina og takmarkaðan skilning á svo mörgu. Hann var svo sannarlega 12 spora maður. Ég veit ekki hvað leiddi þig í Garðakirkju í dag, eða að útvarpinu til að hlusta. Ég veit ekki hvað þú ferð með í sálu þinni út í þennan dag, en ég vona að það sé löngunin til að varðveita sálarheill þína. Því hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sál sinni?
Það má endalaust deila um kirkjuna og eilífðarmálin. En við getum öll verið sammála um að samfélag kirkjunnar á að vera skjól. Sem þýðir að við verðum að taka því kalli að vera hvert öðru skjól. Það er okkar að gæta að hvert öðru. Um það ber síðasta samtal Jesú og Péturs glöggt vitni. Jesús birtist lærisveinunum eftir upprisu sína við Tíberíasvatn. Að baki var öll sagan, sigrar og hrakfarir Péturs og vina hans, upphefð þeirra og eymd. Og þegar þeir höfðu matast ávarpar Jesús Pétur og segir: „Símon, elskar þú mig?“ Hann svarar: ,, Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: ,, Gæt þú lamba minna.“ Jesús segir aftur við hann öðru sinni: Símon, elskar þú mig?“ Hann svarar: ,,Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: ,,Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: ,,Símon, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann í þriðja sinni: ,,Elskar þú mig?“ Hann svaraði: ,,Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: ,,Gæt þú sauða minna.“
Í kirkju Krists hafa allir það hlutverk að gæta að náunga sínum annars er hún ekki kirkja Krists. Við getum það öll í ófullkomleika okkar af því að við elskum og erum elskuð. Og stundum heyrist bara mjóróma rödd við borðið sem spyr hvort við ætlum ekki að þakka fyrir pizzuna.