Tökum stökkið og trúum

Tökum stökkið og trúum

Fyrir nokkrum árum heyrði ég þessa sögu: Á hlýjum sumardegi fann maður nokkur púpu, sem fiðrildi var rétt að byrja að brjótast út úr. Maðurinn sat djúpt snortinn og horfði á þessa baráttu, þetta náttúruundur, góða stund. En svo var eins og kraftar fiðrildisins væru á þrotum og að það gæti ómögulega rifið sig laust af síðustu leifum púpunnar...

Fyrir nokkrum árum heyrði ég þessa sögu:

Á hlýjum sumardegi fann maður nokkur púpu, sem fiðrildi var rétt að byrja að brjótast út úr. Maðurinn sat djúpt snortinn og horfði á þessa baráttu, þetta náttúruundur, góða stund. En svo var eins og kraftar fiðrildisins væru á þrotum og að það gæti ómögulega rifið sig laust af síðustu leifum púpunnar. Maðurinn fann til með veslings fiðrildinu og vildi hjálpa því. Hann tók hnífinn sinn og skar varlega sundur púpuna til að losa fiðrildið. Nú var fiðrildið loksins frjálst. En líkami þess var bólginn og vængirnir smáir og beyglaðir. Maðurinn beið þess að það breiddi vængina út og þeir gætu borið líkamann uppi, en það varð ekki. Fiðrildið skreið aumingjalega á jörðinni. Maðurinn hafði ekki skilið að baráttan í púpunni var fiðrildinu lífsnauðsynleg. Með því að berjast svona urðu vængirnir sterkir og fiðrildið fært um að fljúga þegar það hafði losað sig úr púpunni. Stundum óskum við þess að Guð grípi hnífinn sinn og hjálpi okkur að losna við erfiði og andstreymi. En líf án baráttu myndi gera okkur ófær. Við yrðum aldrei eins sterk og okkur er ætlað. Og við myndum aldrei geta flogið.

Öll upplifum við mótlæti eða erfiðleika einhvertíman í lífinu og því er lífið stundum enginn dans á rósum. Við finnum fyrir hjálparleysi, reynum að berjast á móti straumnum og standa í lappirnar, allt til að komast út úr hremmingunum. Á sinni stuttu ævi fékk Jesús svo sannarlega að finna fyrir mótlæti lífisins. Á þeim þrem árum sem Jesús starfaði á landsvæði sem í dag er þekkt sem Ísraelsríki, kenndi hann fólki um Guð og gerði kraftaverk . Með honum í för voru lærsveinar hans sem trúðu á hann og treystu. Þeir hlýddu á orð hans og urðu vitni af kraftaverkunum. En mótlæti var til staðar. Því það voru ekki bara lærisveinarnir sem sáu og heyrðu í Jesú, oft var hópur fólks viðstatt sem varð vitni af kraftaverkum hans, bæði þeir sem trúðu á Jesú sem og þeir sem voru vantrúaðir. Þrátt fyrir að hafa séð kraftaverkin og hlustað á orð Jesú voru hinir vantrúðu ekki enn sannfærðir. En þrátt fyrir mótlæti og ofsóknir gafst Jesú ekki upp. Hann vissi að Guð faðir vor væri með honum og myndi ganga með honum í gegnum þá erfiðleika sem á hann dyndu. Jesús var með Guð á sínu bandi, hann var sonur Guðs. En þótt hann gerði kraftaverk og risi upp frá dauðum efaðist fólk. Margir trúðu ekki að hann væri upprisinn. Fram kemur í Jóhannesarguðspjalli (Jóh. 20.24 – 29) að lærisveinninn Tómas sagði að hann myndi ekki trúa fyrr en hann fengi að koma við naglaförin í höndum Jesú sem og síðu hans. Seinna þegar Jesús birtist svo Tómasi og Tómas sá Jesú og fékk að koma við hann þá sannfærðist hann. En Jesús sagði við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Þetta er kannski mergur málsins. Það er munurinn á trú og vissu. Í Hebrabréfinu (Heb. 11.1) útskýrir Páll trú á þennan veg: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ Við getum trúað og við þurfum að taka ákvörðum um að trúa, taka stökkið og trúa á Jesú og treysta honum. Við getum átt erfitt með að skilja og þá um leið að trúa því sem Jesús sagði. Því oft geta ummæli hans hljómað óskiljanlega og eflaust hafa lærisveinarnir sem og aðrir lent í því sama þegar hlýtt var á Jesú fyrir um 2000 árum. Segja má að Jesús hafi talað í gátum. Því dæmisögur hans fjalla oft um hluti sem áttu eftir að verða að veruleika, sem og hluti sem þóttu afar nýir af nálinni eins og að bjóða hinn vangan þegar auga fyrir auga, tönn fyrir tönn hafði tíðkast. En ljóst er að allt það sem Jesús sagði hefur reynst satt og rétt, og við verðum að trúa því að það sem hann sagði var fyrir okkur.

Jesús þekkti ekki syndina og talaði einungis útfrá kærleikanum. Hann vildi okkur alls hins besta og þó við skiljum ekki enn í dag allt það sem hann sagði okkur þá ættum við að reyna eftir fremsta megni að fara eftir því sem hann ráðlagði. Orð hans hafa jafn mikið gildi í dag og fyrir 2000 árum. En rétt eins og Tómas þá getum við átt erfitt með að trúa og treysta. Þetta á sérstaklega við þegar við sjáum ekki það sem við ætlum að treysta og þekkjum það ekki.

Til er leikur sem oft er farið í þegar ólíkir hópar koma saman eða fólk sem þekkist ekkert. Leikurinn hefst á því að settir eru 2 – 3 saman í hóp og er bundið fyrir augun á einum úr hópnum. Því næst eiga hinir að leiða þann „blinda“ áfram í gegnum allskyns þrautir og hindranir. Sá blindi verður að trúa og treysta því sem aðstoðarmennirnir segja, hvar eigi að stíga niður og hvað skuli varast. Sá blindi á kannski erfitt með að treysta aðstoðamönnum sínum í upphafi og vill jafnvel reyna að gera hlutina sjálfur en þegar líður á eykst traustið til aðstoðarmannanna. Ef misskilningur á sér stað milli hins blinda og aðstoðarmanna hans getur sá blindi lent í erfiðleikum og dottið eða hrasað. Þessi misskilningur getur orðið meðal annars vegna þess að sá blindi hlustar ekki nægilega vel á leiðbeiningar aðstoðarmannanna. En þá eru aðstoðarmennirnir til staðar og hjálpa hinum blinda upp og leiknum er svo haldið áfram. Hugsanlega missir hinn blindi trúnna á aðstoðarmenn sína eftir mótlætið en með tímanum eykst trúin og traustið á ný. Margir kannast við álíka þrautargöngu úr lífinu sjálfu.

Traustið og trúin kemur ekki að sjálfum sér. Við þurfum að taka ákvörðun, ákvörðun um að treysta og trúa, treysta Jesú og treysta Guði. Það getur tekið langan tíma og sá tími getur jafnvel verið afar sársaukafullur. En við getum treyst því að sú leið sem Guð leiðir okkur í gegnum er sú rétta og á þessari leið hittum við eflaust fleiri sem fylgja sömu braut. Einnig getum við tekið með okkur fólk sem leitar að réttri braut eða hafa villst af leið.

Vinir í bata nefnist hópur sem fyrirfinnst um allt land. Vinir í bata er hópur fólks, karla og kvenna, sem tileinka sér Tólf sporin sem lífstíl. Vinir í bata leggja af stað í andlegt ferðalag með öðru fólki sem hafa ákveðið að fela Guði að vera leiðsögumaðurinn. Margir hafa ruglað saman þessum hópi við AA – samtökin sem eflaust margir þekkja. En Vinir í bata er fyrir alla. Margir hafa mætt til þess að fara í ítarlega sjálfsskoðun en það má segja að það sé meginhlutverk fundanna. Fyrsta sporið hljóðar þannig: „Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.“ Næstu 11 spor ganga út á að setja traustið í hendur Guðs og biðja hann að vera með okkur í lífi og starfi. Bæn Vina í bata sem farið er með á hverjum fundi þekkja margir þar sem lagt er fullt traust á Guð við að aðstoða okkur í gegnum hvern dag. Þetta er æðruleysisbænin.

Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.

Við þurfum að læra að treysta Guði, að hann veiti okkur æðruleysi. Við þurfum að læra að sleppa og leyfa Guði. Við sleppum áhyggjum af því sem er að plaga okkur, leggjum traust okkar á Guð og hann mun leiða okkur þangað sem við eigum að fara. Það er oft við þessar aðstæður að við finnum mest fyrir nálægð Guðs. Við erum tilbúin að þiggja hans hjálp og hann er tilbúinn að veita þessa hjálp. En það er undir okkur komið að stiga fyrsta skrefið.

Amen.