Skírnin

Skírnin

Skírnin markar það lífsamband sem við erum í við Guð. Án hennar höfum við ekkert sem á er að byggja það varðandi, en fyrir hana getum við reitt okkur á fjölmargt sem varðar okkur svo miklu.

Skírnin markar flestu fremur þann veruleika sem við kristnir menn lifum í; er okkur eins og vatnið sem fiskarnir synda í. Hún er andrúmsloftið sem við drögum að okkur, þó er hún okkur ekki að jafnaði sérstakt hugleiðingarefni. En engu að síður verðum við að vera klár á hvað hún er og hvaða gagn er að henni.

Skírnin markar það lífsamband sem við erum í við Guð. Án hennar höfum við ekkert sem á er að byggja það varðandi, en fyrir hana getum við reitt okkur á fjölmargt sem varðar okkur svo miklu.

Fyrst skulum við staðnæmast við að skírnin er sakramenti. Heilagur leyndardómur sem kirkjan hefur varðveitt og vígt þegna sína inn í frá öndverðu. Það merkir að hún ber með sér fyrirheiti frá Guði sjálfum, hefur jarðneskt efni sem jarteikn og byggist á orði hans. Fyrirmæli hans felast í skírnarskipuninni sem er guðspjall dagsins og þau orð byggjast aftur á vitnisburði lífsverks Krists eins og Páll postuli greinir í 6. kafla Rómverjabréfsins sem er pistill dagsins. Við erum skírð til dauða og upprisu Krists.

Fyrirheitið sem skírninni er tengt felst í því að með henni eru okkur tileinkuð þau gæði sem fórn og sigur Krists færði þeim sem á hann trúa og að því víkjum við nánar síðar.

Hið jarðneska efni er vatnið. Við höfum vatn að jarteiknum um þann viðburð sem skírn okkar hvers og eins er. Vatn er hvervetna í umhverfi mannsins og þörf hans fyrir það er augljós þyrstum manni sem drekkur af svalalind þess. Sagt er og að við sjálf séum að langmestum hluta þyngdar okkar vatn. Við laugum okkur í vatni, hreinsum af okkur óhreinindin og finnum til vellíðanar á eftir.

Skírnin er sáttmáli sem við göngum undir að frumkvæði Föður lífsins með son hans að meðalgöngumanni. Sáttmálinn felst í því að hann ættleiðir okkur og við verðum hans börn. Undarlegt að því leyti að hann er frá öndverðu faðir okkar með því að hann skapaði okkur. En hugsum okkur hvað blóðskyldur faðir yrði að gera ef barn hans væri áður ættleitt með einhverjum hætti sem annars manns barn. Hann yrði að ættleiða það á ný! Við getum líka hugsað um þann atburð að gangast við barni. Það gerist frammi fyrir valdsmanni með löggerningi, sáttmála.

Maðurinn af konu fæddur tilheyrir fyrst og fremst heiminum sem hann er fæddur í. Þar mætir hann örlögum sínu, tækifærum og ógnunum. Kostir hans markast af því heimshverfi sem hann elst í. Og hann sjálfur fer sömuleiðis allrar veraldar veg. Deyr. Tortímist.

Guð er hins vegar eilífur, efninu og heiminum óháður og það sem við hann er tengt er eilíft. Elífíðin er fremst gæða skírnarinnar. Með henni verðum við erfingjar eilífðarinnar. Eilífðin er sú tilvera sem í engu er háð takmörkunum efnislegrar tilveru, né þeim ótta sem er undirrót alls ills. Þar er allt takmarkalaus ást og fullnægja. Hún verður erfðahlutur manns við skírnina.

Nú var sagt að Guð sé frá upphafi faðir okkar og hans vegna ætti þá skírnin að vera ónauðsynleg. Hann þekkir börn sín öll og elskar þau hvert og eitt þar sem hann er réttnefndur faðir og meir en það; jafnvel í dýpsta skilningi og án takmarkana. Og það er rétt. Hún er að öllu leyti okkar vegna, nauðsynleg og markandi.

Maðurinn er frjáls gagnvart Guði. Samband Guðs og manns er á jafningjagrundvelli þó að þeir séu að engu öðru leyti jafningjar en því sem tekur til samþykkisins um samfélag. Þó getur maðurinn ekki boðið til þess. Hann skortir alla stöðu í því efni. Aðeins Guð getur boðið upp á það. Aðeins hann getur borið samfélagið uppi í mætti sínum. Til þess skortir manninn allt nema viljann.

Skírnarspurningin rétt orðuð er því: Vilt þú vera Guð barn? Hún er borin fram af kirkjunni sem er falið að umgangast hana í Krists stað eins og umboðsmenn ríkisvaldsins fara með lagagerninga að þess leyti. Því koma prestarnir til að skírnin er formlegur gerningur milli Guðs og manns eins og ættleiðing er.

Maðurinn þarfnast þessa vegna þess að hann veit að af sjálfum sér getur hann ekki tileinkað sér neitt það sem Guðs er. Hugmynd hans um Guð er ávallt hugsun um nokkuð sem maðurinn getur ekki vaxið upp til af sjálfum sér. Það sanna trúarbrögð heimsins. Meðvitund mannsins um synd og ófullkomleika svara aldrei til hugmyndar um skyldleika við algóðan og almáttugan Guð.

Þess vegna er tileinkun skírnarinnar á fyrirgefningu syndanna önnur fremstu gæði skírnarinnar. Maðurinn fær loforð um það að syndir hans verði ekki tilreiknaðar honum né verði þær til þess að gera hann framandi föður sínum á himnum. Hugsum til sögunnar af týnda syninum í þessu sambandi.

Við erum gengin frá dauðanum til lífsins, frá synd til sáttar með skírninni. Sérhver synd sem við drýgjum verður okkur fyrirgefin ef við í einlægni iðrumst og biðjumst fyrirgefningarinnar. Það að við þurfum að biðja um hana byggist enn og aftur á sjálfstæði okkar gagnvart Guði. Það hverfur ekki við það að við verðum hans börn.

Þetta er okkur svo mikilvægt að vita og treysta á með höfðinu, hugsuninni, þegar trúartilfinninguna skortir, efinn sækir að og sorg og sekt myrkva hugarsýn. Þá hverfum við að þessari staðreynd að við erum Guðs börn eftir orði hans. Við eigum barnaréttinn, erfðaréttinn og höfum vatn skírnarinnar því til staðfestu. Því getum við treyst skírnarinnar vegna.