Kvikmyndin Jesús frá Montreal minnir mig á Jóhannesarguðspjall! Ekki kannski hvað varðar flæði eða skilgreiningar, heldur hvað varðar stíl. Og það er stíll tvennda, dramatískrar spennu milli para eða andstæðna. Auðvitað þarf leikhús og kvikmynd blóð og spennu til að byggja upp flækju og söguþráð, en tvenndirnar, sem lýst er í mynd Denys Arcand eru talsvert sláandi.
Efnisþráðurinn
Kvikmyndin er fransk-kanadískir “passíusálmar” eða kannski fremur “passíumyndir” frá árinu 1989. Faðir Leclerc er kaþólskur prestur, sem vill poppa upp helgileik um passíu Krists og fær til liðs við sig leikarann Daniel Coulombe. Sá tekur verkefni sitt alvarlega, leggst í stúdíu, kynnir sér allt sem hann getur náð í um Jesú og fer að leita að leikurum. Honum auðnast að draga hæfileikafólk út úr firringu og þrældómi. Einn leikarinn var rödd í klámmynd, annar n.k. geimrödd. Ein er viðhald prestsins og hjálparkokkur í kirkjumötuneyti fyrir soltna fátæklinga, sú fjórða misnotuð leikkona, sem er búið að sannfæra um að gildi hennar væri fyrst og fremst í kringum miðju líkamans!
Daniel tekst að sannfæra leikarana um, að verkefnið sé verðugt og mikilvægt. Hann fær þegar í þessu köllunarferli stöðu hins styðjandi lausnara, en frelsarahlutverkið verður æ skýrara eftir því sem á myndina líður. Undirbúningsvinnan hefst, hópurinn slípast saman saman, mótar mannhverfa Jesúsögu og sýnir síðan passíuna við mikla hrifningu leikliðsins í Montreal, en við litlar hjá Leclerc klerki og hans nótum.
[poll=2]
Leikur í lífi og lífið í leiknum
Hópurinn, sem var svo erfitt að kalla til verka, helgar sig verkinu og lætur ekki segjast, þegar kirkjan vill ekki lengur standa straum af og bera ábyrgð á sýningum passíunnar. Lögregla blandast í málið. Daniel í Jesúhlutverkinu er fangelsaður þar sem hann hangir á krossinum! Kirkjan bannaði líka frekari sýningarnar. Ekki verður þó aftur snúið, lífið hefur breyst í leikhús og leikhúsið er orðið lífið. Áhorfendur eru ekki lengur utan við heldur inn í dramanu sjálfu. Þegar lögreglan mætir svo aftur á staðinn lætur einn áhorfenda ekki bjóða sér vitleysuna. Hann er af þungavigtartagi, tekur löggu en keyrir hann óvart í krossinn, sem fellur við. Daniel/Jesús verður undir og fær þungt höfuðhögg. Honum er ekið á spítala, sem kenndur er við biblíuhöfund. Þar er þó enga hjálp að fá. Hin kristilega hefð hjálpar ekki Jesú í neyð. Daníel rís upp í helfró, virðist hressari, fer niður í lestarstöð (steig niður til heljar) og prédikar eins og heimsendaspámaður, fellur og er vippað á sjúkrahús að nýju, nú gyðingalegt. Þar fær hann, ótrúlegt nokk, betri hjálp en meðal hinna kristnu, en deyr þó þarna meðal Gyðinganna. Svo kemur fórnin, líkami hans er notaður til að gefa sjúkum nýja sýn, nýtt hjarta o.s.frv. Dauði hans er ekki til einskis heldur til að bæta líf fólks, líkamlega og andlega. Þetta er ekki friðþægjandi staðgengilsfórn heldur “líffæra”ndi fórnardauði.
Jesústefið
Meginstefið lýtur að Jesú Kristi – þ.e. hver hann er. Þar kemur fyrsta tvenndin, sem vissulega er megintvennd, Jesúpassían og Danielspassían. Annars vegar er leitað að hinum sögulega Jesú. Daniel lagði sig eftir öllu því, sem akademían gat frætt um. Og hann fór til þeirra sem voru með það besta og ferskasta. Hann var óbundin af klafa túlkana alda og kaþólsku kirkjunnar, gat komið að sögunni með eigin leit og gildi og því opnað Jesúsöguna algerlega. Þessi nálgun er nú ekki ný og hefur verið ívaf í sögu kirkjunnar, líka hinnar kaþólsku, síðustu tvö hundruð árin.
Jesúsagan tekur Daníel í faðminn og hann túlkar hana að nýju. Leiðin er mannmiðlæg en með trúarlegri, andlegri áherslu eða skírskotun, sem kemur fram bæði í Jesúpassíunni og líka í Daníelspassíunni. En svo koma víddir í myndinni eins á bókasafninu þar sem Daníel stúderar. Konan snýr við dæminu, þó Daníel sé að leita að Jesú Kristi þá sé það Kristur, sem finnur Daníel. Konan verður í þessari senu ekki aðeins bókasafnsstarfsmaður heldur sendiboði. Reyndar kemur hún svo aftur fram sem fylgikona trúarlegs sérvitrings.
Myndin vekur athygli á með ýmsu móti hver merking Jesú Krists sé í okkar samfélagi og samtíma. Myndinni er ekki ætlað að gera upp við fræðin um Jesú Krist. Það, sem sagt er um Jesú, er samtíningur af klisjum úr ýmsum áttum. Það kemur úr hippahefðinni, Jesúvinsamlegum pólitískum byltingarhefðum sem og frómleikahefðum þar sem Jesúmyndin er hreinræktuð yfir í androgynus, kvenkarl-legan og gæskuríkan Jesú. Þessi Jesús verður eðlilega fyrirmynd um einfaldan smekk í mannlífinu, andóf gegn spillingu, vantrú á kerfum af öllu tagi.
Hópurinn og stofnunin
Þá er komið að annarri mikilvægri spennutvennd – andstæðunum: Smáhóp mennskunnar annars vegar og hins vegar stofnunar. Litli hópur Jesú var og er góður, en stofnanir Gyðinga og Rómverja vondar. Hið sama gildir varðandi nútímastofnanir. Áherslan verður sósíalkrítísk - kirkja og þjóðfélagsstofnanir eru vondar, en litli hópurinn er góður og gengur erinda mennskunnar og hins rétta lífs.
Trúarlegu stofnun myndarinnar, hinni kaþólsku kirkju, farnast afar illa í myndinni. Fram kemur, að sitthvað er trú og trúarstofnun. Réttlætingar stofnunarinnar í mynd hins breyska og brjóstumkennanlega prests eru átakanlegar. Hann telur fólk koma í kirkju vegna tilfinninga en ekki dýpra inntaks. Kirkjan er því í hans túlkun grunnfærið leikhús og eiginlega vefur blekkingar. Þar skiptir máli að leika vel og láta ekki slá sig út af laginu. Reglurnar í trúarstofnun kirkjunnar eru skýrar, ekki má hrófla við kenningunni, ekki koma með nýjar meginlínur. Svo virðist sem kenningin sé hluti af blekkingarvef, sem komið hefur verið upp til að dylja hið eiginlega.
Leikhúsfólkið átti bara að laga leikritið, en ekki semja alveg nýtt stykki. En af því Daniel er opinn og hópurinn heill og megnar að fæða nýtt líf og nýja kenningu einlægni og hjartahreinleika. Presturinn veifar hækjum og tækjum, sem fólk notar í kirkjulegu samhengi. Er kirkjan hækja, í bisniss, og eru starfsmenn hennar aðeins hræddir og sérgóðir tækifærissinnar? Svarið við þeim spurningum er næsta augljóst.
Jesúmyndin
Jesús frá Montreal er ávöxtur síns tíma, þegar sósíalkrítík átti upp á pallborðið. Jesútýpan opinberar spillingu líka utan hins trúarlega sviðs, auglýsingabisniss, leikhúsbisniss og lögfræðibisniss. En dómsvaldið kemur vel út, þar vinna menn betur en á hinum póstunum. Hvað kerfisvandann varðar er þessi mynd skyld samfélagsgagnrýni á sjöunda til níunda áratugnum, pólitískri, bókmenntalegri og kvikmyndalegri.
Jesúmyndin sem við sjáum er af hinum einfalda, fallega, hugrakka, vitra, alvarlega og hljóðláta Jesú. Hann er spámaður, sem á í höggi við kerfi, sem spilla hinu góða lífi. Myndin stendur með mennskunni og hinum kúguðu. Heilagleiki Jesú frá Montreal er fólginn í, að hann er mótaður karakter grundvallaður á ákveðnum gildum og lætur ekki buga sig af valdi og fjármunum. Því megnar hann að höfða til mennsku fólks og heilinda. Hann er leiðtogi á grundvelli siðgilda og mannúðar. Í þeim krafti megnar hann að valda samfélagslegum usla, ógna trúarkerfum Gyðinga, pólitísku kerfi Rómverja og valdastéttum.
Biblían og nútímalíf
Tvenndir eru settar upp milli biblíufyrirmynda og nútímafyrirbæra. Upphafssenan rímar við Jóhannes skírara, sem segir að betri “leikari” muni koma. Þegar Daniel safnar leikurum gengur hann í fótspor Jesú, sem safnaði til sín lærisveinum. Daniel gengur berserksgang þegar bjórauglýsendur niðurlægja Maríu Magdalenu-týpuna, sem heitir Mireille. Sú sena á sér baksögu í musterishreinsun Jesú. Réttarhöldin yfir Daníel endurspegla réttarganginn fyrir Pílatusi. Þar sjáum við Denys Arcand, leikstjórann, sjálfan undir hárkollu dómarans. Lögmaðurinn tungulipri gengur hringinn í skýjakljúf og minnir á freistandi djöful, sem ekki lætur rugla sig þrátt fyrir höfnun því hann gengur aftur í lokasenum og vill stofna tilraunleikhús. Kona í auglýsingabransanum vill “haus” vinar Daniels og nota í auglýsingu. Henni tekst það og hann er síðan sýndur “afhausaður” á auglýsingaskilti í lokasenum á brautarstöðinni. Auglýsingaskilti er þá í svipaðri stöðu og diskur með afhöggnu höfði Jóhannesar í palestínskri höll í fornöld. Líffæragjöf Daniels á sér fyrirmynd í lækningum Jesú og hugsanlega upprisu. Áform um tilraunaleikhús er fyrirmynduð í stofnun kirkjunnar. Þetta eru aðeins nokkur af fjölmörgum tvennum. Þær eru fleiri og skemmtilegt að leita að þeim.
Gildi
Myndin tengir vel fortíð og nútíð. Hún tekur á ýmsum áhugverðum spennupörum og dramatíserar vel. Hún er ekki góð til að fræðast um Kristsfræði en lík passíum, eins og Passíusálmum, hvað það varðar að efla einstaklinga í trúarleit, vekja myndir og þróa hugmyndir. Áherslan á hið einfalda líf. Hin einföldu gildi vísa beint inn í persónulíf fólks. Tvennurnar knýja til viðbragða um afstöðu okkar til Jesú, teygja og toga myndina, sem við gerum okkur af honum. Kvikmyndin tekur á táknmáli, symbólkerfum trúarinnar og stofnanavæðingu. Jesús er spámannlegur í Jesús frá Montreal. Finnum við hann eða finnur hann kannski okkur?