Þar sem er engill í húsi er ekki hægt að hugsa neitt vont! Börn eru boðberar elsku og friðar, já hins góða lífs. Þau kalla á, að óreiðunni sé haldið í burtu. Þau eru í sakleysi sínu brýning öllu heimilisfólkinu að hindra að slæmt áreiti ráðist inn á heimilið.
Afstöðubreyting
Tveir strákaenglar komu í okkar bæ, Litlabæ. Margt breyttist við komu þeirra. Það kemur ekki á óvart að litlum börnum fylgi vinna, álag og missvefn. Þetta vita allir foreldrar og flokkast undir “selvfölgeligheder” sem ekki tekur að ræða. Lítil börn kalla á afstöðubreytingu.
Tilveran hefur eiginlega ekki skroppið saman, heldur hreinsast um margt. Það er eins og streita hafi verið gerð útlæg um tíma. Henni er haldið utan dyra. Váleg tíðindi og vondar fréttir fá ekki heldur að koma í hús. Því höfum við þverrandi löngun að kveikja á sjónvarpsfréttum, hljóðvarpsfréttir hljóma lágstemmt. Helst að húsbóndinn fletti upp á netmiðlum, heima og erlendis til að skima fréttayfirlitin, þó ekki væri nema til að fylgjast með gengi sinna manna í Chelsea!
Hreinsun
Hvað merkir þessi breyting á heimilisbrag? Upp í hugann kemur gríska orðið kaþarsis sem merkir eiginlega tæming eða hreinsun. Það hefur verið notað í trúræktarsamhengi um það ferli þegar einstaklingur losnar undan helsi, sleppir hækjunum sem hindra trúarþroska. Tvíburarnir okkar hafa orðið tilefni tæmingar og endurmats. Vísast er að baki djúp löngun til að spilla í engu umönnun hins unga lífs – leyfa ekki vonsku, átökum, hryllingi lífsins að síast í sængurföt barnanna, seytla um sálir heimilisfólksins og slíta fjaðrirnar í frumbernsku englanna í vöggunum.
Föstutímarnir í kirkjuárinu, fyrir jól og fyrir páska, eru hreinsunartími sálarinnar. Þá hafa kynslóðir tekið frá tíma til að halda á vit hins eiginlega og verulega – Guðs. Þá er hinu vonda haldið frá og opnað fyrir hið góða. Kyrrðardagar, tilbeiðsla einstaklinga og helgihald kirkjunnar lúta hinu sama. Þar er tilveran afmörkuð, hinu lamandi eða letjandi er haldið til hlés og hinu himneska og mannbætandi leyfð aðkoma. Að ala upp börn er helgunartími fyrir foreldra, sem vilja gefa börnum sínum gott veganesti.
Verndun
Magnea Þorkelsdóttir kom í Litlabæ og fagnaði litlum dreng. Hún sagði þessa helgisetningu, sem hefur lifað með mér: “Þar sem er engill í húsi er ekki hægt að hugsa neitt vont.” Ég fann, að það var satt sem hún sagði. Hið vonda hafði ekki lengur sama greiða aðganginn að lífi okkar. Þegar vernda skal aðra verður ekki leikið tveimur skjöldum, maður verður sjálfur að vera heilshugar í afstöðu verndarinnar. Þá verður þessi hreinsun virk gagnvart heimilisfólkinu.
Verður tilveran einfaldari? Eiginlega ekki, hún verður hreinni og skýrari eins og fagur haustdagur. Vitundin um eðli, margbreytileika og átök lífsins hverfur ekki. Viskan er ekki gerð brottræk af heimilinu, heldur aðeins streitan, vonskufréttirnar, óttinn og váin. Aðeins hið góða er ræktað, traustið, kyrran og elskan í bland við hláturinn. Engill í húsi er eftirsóknarverður, englar í húsi eru guðsgjöf.