Þankar um þjóðkirkjuna 1
Um skeið höfum við búið við tilhögun þjónustu vígslubiskupa sem ekki á sér grundvöll í raunveruleikanum en byggist fremur á minningu um liðinn tíma og hugsjónum um það sem verða ætti en á þörf og virkni í samtímanum.
Lengst af hafa verið tveir biskupar í landinu og stólarnir fornu hafa kallað á athygli og virðingu. Góðir menn hafa svarað því kalli en gengið þeim mun verr að finna vígslubiskupum hlutverk í samtímanum.
Mér sýnist að biskupsþjónustan geti illa verið með því umfangi að hún réttlæti setu og embætti vígslubiskupanna á hinum fornu stólum alfarið. Umfang biskupsþjónustunnar er ekki slíkt að það gangi upp ásamt með kröfum um skilvirkni og fagmennsku. Það er fagur draumur að hér verði þrír sjálfstæðir biskupar en ekkert hefur enn sýnt okkur hvernig hann eigi að komast niður úr skýjunum á plan veruleikans svarað þörfum samtímans.
Ég vil því mæla fram með tiltekinni lausn, sem er þó ekki hin eina hugsanlega svo sem ég hef áður bent á. Samfara ákveðinni uppstokkun á stjórnsýslu kirkjunnar þar sem meiri ábyrgð á framkvæmdarþáttum verði flutt frá biskupum til hins veraldlega þáttar stjórnsýslu kirkjunnar verði embætti vígslubiskupa sameinuð embætti biskups Íslands og biskupsritara.
Biskupsritari mætti heita vígslubiskup og hefði biskupsvígslu til undirstrikunar þátttöku hans í biskupsþjónustunni í Þjóðkirkjunni. Starfstöð beggja væri á biskupsstofu en þeir hefðu nærveru á hinu fornu stöðum eftir tilefnum. Dómkirkjuprestar hefðu skilgreinda stöðu gagnvart biskupunum sem sérstakir samstarfsmenn þeirra að helgiþjónustu þeirra. Hollvinafélög og félög um sérstaka starfsemi á stöðunum yrðu efld þar sem staðirnir lifa fyrst og fremst á því andlega lífi sem þar er lifað. Þetta hefur sagan kennt okkur og að um það er forysta vígslubiskupanna og biskupanna áfram mikilvæg en áhugi kirkjufólksins grundvöllurinn.
Með þessari tilhögun sparast mikið fé á ári hverju jafnframt því að tækifæri gefast til þess að styrkja hinn andlega og félagslega þátt biskupsþjónustunnar
Biskuparnir gætu gert með sér samstarfssamning líkt og sóknarprestur og prestur í prestakalli þar sem tillit yrði tekið til forystuhlutverks biskups Íslands, hæfileika biskupanna og sérstakra aðstæðna og verkefna, en umfram allt til þess að þeir/þær/þau deildu biskupsþjónustunni.
Biskupsstofa væri svo hið faglega bakland þjónustunnar en að aðgreind frá þeirri framkvæmdastjórn og stjórnsýslueftirliti sem Kirkjuráð bæri sérstaklega ábyrgð á.
Við höfum áreiðanlega fleiri áttað okkur á því að sú aðgreining sem í starfsreglum felst milli hins andlega lífs kirkjunnar og veraldlegs vafstur er holl og snýst þó hvert tveggja um líf og þarfir mannanna. Tveggjaríkjakenning Lúthers vísar okkur veginn í þessu efni og fagleg og lýðræðisleg sjónarmið styrkja vegferðina.
Af þessari breytingu yrði mikill sparnaður sem nauðsyn er á en einnig aukin skilvirkni og fagmennska í tilsjóninni (episkopé) þar sem kraftar hennar yrðu sameinaðir á Biskupsstofu. Hún styrktist með aðgreiningu veraldlegra og andlegra verkefna og leiðsögn hins andlegs starfs yrði ótvíræðari og frjáls undan deilum um hagsmuni og stjórnsýsluákvarðanir
Þessi tillögugerð er ekki sett fram til dóms yfir neinum mönnum né framtaki þeirra og þeim óskað velfarnaðar sem gegna þeim embættum sem um ræðir. Hér er horft til framtíðar þar sem tilefni gefst til og umræðan þegar opnuð.
Ég vona að þetta innlegg í umræðuna verði metið að verðleikum en ekki á neinum fordómum og nýtt til þess að þoka henni áfram og birta nýjar hliðar. Þetta efni snýst um velferð kirkjunnar (bene esse) en ekki um eigind hennar (esse) sem ásamt fleiru verður vonandi tóm til að víkja að síðar.