1. Í þessari grein ætla ég að einbeita mér að eftirfarandi spurningu: „Hvernig eigum við að berjast gegn kynþáttamisrétti og fordómum á Íslandi frá degi til dags?” Sú barátta getur verið jafnt fyrir einstaklinga, kirkju eða aðra hópa.
Rasismi byggist fyrst og fremst á hugmyndum um að einn kynstofn sé æðri öðrum kynstofnum. Ef manneskja vill trúa því að hvítir menn séu duglegri eða meira virði sem manneskjur en fólk með litaða húð, þá er hún með kynþáttafordóma. Í öðru lagi vísar hugtakið „rasismi“ til þess þegar manneskjur mismuna fólki sem tilheyrir öðru þjóðarbroti en fellur að þeirra eigin menningarheimi. „Gyðingahatur“ er t.d. mismunun vegna þjóðernislegs minnihlutahóps og menningar þess, en ekki vegna kynstofns. Rasismi eða kynþáttamisrétti birtist þannig annars vegar sem andúð á öðrum kynstofnum en sínum eigin og hins vegar sem neikvætt álit gagnavart fólki sem tilheyrir öðrum menningarheimi.
En það er einnig annað atriði sem við þurfum að huga að en það eru birtingarmyndir mismununar og fordóma. Önnur er sýnileg og meðvituð mismunun og fordómar en hin er dulin og/eða ómeðvituð mismunun og fordómar.
2. Skoðum núna aðallega ómeðvitaða fordóma og mismunun og dulda. Ég tek aðeins tvö dæmi um kerfisbundna mismunun og fordóma eins og þær birtast í dag. Það er mitt mat að þetta varði helst mismunun eftir uppruna fólks eða þjóðernislegum minnihlutahópum í veruleikanum á Íslandi í dag.
Kerfisbundin mismun er sýnileg en jafnframt dulin. Hún er sýnileg í opinbera kerfinu og meðferðinni þar en birtist ekki skýrt sem mismunun eða fordómar. Hún klæðist ýmsum dulargervum eins og í slagorðinu: ,,Hagsmunir þjóðarinnar“.
Eftir bankahrunið þurfti íslenska ríkið að einbeita sér að því að vernda hagsmuni Íslendinga, fyrst og fremst, sem er skiljanlegt að sjálfsögðu. En hrunið hafði einnig margvísleg áhrif á útlendinga, bæði réttindi þeirra og þjónustu við innflytjendur. Málið snýst um línuna sem aðgreinir hvort slagorðið um hagsmuni þjóðarinnar sé réttlætanlegt eða hvort það gæti fallið undir brot á mannréttindum útlendinga sem eru búsettir á Íslandi. Ég skal taka dæmi. Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins 28. febrúar sl. var hlutfall atvinnuleysis í janúar 8,5 prósent á landsvísu. En þegar nánar var gáð þá reyndist atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á landinu 15.5 prósent á sama tíma. Í fréttaskýringunni var sagt frá því að erlendu starfsfólki var sagt fyrst upp og Íslendingar ráðnir í kjölfar þess.
Spurningin er hvort slík starfsmannaskipti eftir þjóðerni séu réttlætanleg? Ef staða er laus og Íslendingur og útlendingur, sem ekki er búsettur á Íslandi sækir um stöðuna, þá er mjög skiljanlegt að hinn íslenski umsækjandi fái hana. En ef útlendingur er þegar búsettur á Íslandi og á sitt líf hér, þá vantar hann vinnu alveg eins og aðrir. Það er algjör misskilningur að hugsa eins og innflytjendur gætu farið til heimalands sins bara hvenær sem er. Fyrir innflytjendur sem eru búnir að búsetja sig hér er Ísland heima. Að mínu mati er það rétt að segja starfsmannaskipti af þessu tagi er mismunun á grundvelli ríkisfangs fólks. 3. Ég skal taka annað dæmi. Alþingismaður nokkur sagði frá eftirfarandi skoðun sinni í umræðu á Alþingi 22. febrúar sl. : ,,Er það rétt að íslenskir skattgreiðendur eiga að greiða fyrir nám erlendra nemenda hvaðan sem þeir koma?“ og hann hvatti menntamálayfirvaldið að innheimta skólagjöld af erlendum nemendum. Þetta hljómar kannski skiljanlegt og skynsamlegt þegar þið heyrið þetta í fyrsta skipti. En í rauninni getur erlendur nemi haft verið búsettur hér nokkuð lengi og greitt skatta hér eins og Íslendingar. Erlendur nemi er ekki endilega skiptinemi. Hann getur t.d. verið innflytjandi sem hefur dvalið hér í fjögur til fimm ár, ekki enn verið búinn að öðlast íslenskan ríkisborgararétt, en verið í háskólanámi. Ég er ekki viss hvort þessi tiltekni alþingismaður sé meðvitaður um þetta atriði eða ekki, en hann skorti á skilning á því hvort sem er.
Það sem einkennir þessi tvö ofangreind dæmi er að hin beina andúð gegn útlendingum sést ekki en hins vegar er grunnhugmyndin engu að síður þessi: ,,Útlendingar eru byrði á Íslendingum“ eða ,,Innflytjendur eiga að snúast heimalands síns ef þeim liður illa hér“. Er slíkt sjónarmið réttlætanlegt? Er slík hugsjón sátt við hugtak um mannréttindi? Er slíkt viðhorf æskilegt fyrir hagsmuni Íslands í framtíðinni?
Það er fleira sem ég gæti bent á í þessari ræðu eins og t.d. þjónusta Útlendingastofnunar sem fjölmargir innflytjendur kvarta yfir af því að þeir skynja óvirðingu og fyrirlitningu til þín þar, eða fordómar í garð múslima. En ég verð að bíða eftir öðru tækifæri til þess að segja frá því.
4. Að lokum langar mig að taka það skýrt fram, til þess að forðast misskilning, að það að tala um mismunun og fordóma í samfélaginu er ekki það sama og að ,,skíta út Íslendinga“ eða ,,tala illa um Ísland.“ Ég skora núna á hverjum degi á Íslendinga að aðstoða Japani í erfiðleikum þeirra vegna jarðskjálftanna. Ég fæ mikil og góð viðbrögð, samúð og samstöðu frá fólki á Íslandi og ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég ber mikla virðingu fyrir Íslendingum og mér liður vel hérlendis.
En það er eitt, og baráttan gegn mismunun og fordómum er annað. Baráttan gegn misrétti snýst ekki um að hvort manneskja sé góð eða vond, eða hvort Ísland sé betri þjóð en aðrar þjóðir eða ekki. Hún snýst um ófullkomleika manna og mikilvægi þess að berjast gegn misrétti óháð því hvar sem við eigum heima. Að viðurkenna þetta í huga okkar og hjörtum skýrt er ef til vill fyrsta skref í baráttunni gegn kynþáttamisrétti.
* Grein þess er brot úr erindi sem haldið var í örþingi þjóðmálanefndar þjóðkirkjunnar 21. mars sl. í tilefni af Alþjóðadegi gegn kynþáttamisrétti. * Hægt er að hlusta á heildarerindið hér.