Sambúð kristni og þjóðar

Sambúð kristni og þjóðar

Viltu aðskilja ríki og kirkju. Þú kannast við þessa spurningu sem er jafn fráleit og spurt væri hvort þú viljir aðskilja ríki og sveitarfélög eða ríki og verkalýðsfélög. Nær væri að spyrja: Viltu einkavæða Þjóðkirkjuna? Viltu láta kirkjuna lúta lögmálum viðskiptamarkaðarins um þjónustu sína?
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
03. október 2010
Flokkar

Lifandi Guðsson, líknarbraut, Læknarinn allra meina: Hlýðni þinnar heimurinn naut, hjálpina fékk hann beina, syndum öllum sviptir braut sannlega má það greina. Gef þú oss þinn gæsku frið, græðarinn Jesús, þess ég bið, himnaljósið hreina. Amen

Hugbót: Sr. Einar Sigurðsson í Heydölum 1539-1627.

Þetta fallega vers er eftir sr.Einar Sigurðsson prest í Heydölum 1590 til 1627. Einlæg lofgjörð og bæn um gróandi frið í kærleika og von. Minningin um sr. Einar er sérstaklega heiðruð hér í guðsþjónustunni með flutningi tveggja sálma hans við nýsamin lög eftir Finn Torfa Stefánsson, tónskáld og Daníel Arason, organista við Heydala-og Stöðvarfjarðarkirkjur. Sr. Einar lagði mikið að mörkum til lútherskrar siðbótar og íslenskrar menningar með sálmakveðskap sínum, en talið er að enginn Íslendingur hafi afkastað meiru í þeim efnum um aldirnar. Sóknarfólkið í Heydalakirkju í Breiðdal hefur undirbúið metnaðarfulla áætlun um byggingu menningar-og safnaðarmiðstöðvar við kirkjuna í minningu hans, Einarsstofu, með von um vígslu á 500 ára afmælisári siðbótarár Lúthers árið 2017.

Það er gott að mega koma hér fyrir okkur, kór-og kirkjufólk í Breiðdal og Stöðvarfirði og heimsækja safnaðarfólk í Bústaðarkirkju og minna okkur á að við erum ein kirkja saman í Þjóðkirkjunni. Og það er ánægjulegt að sjá hve hér eru margir brottfluttir Austfirðingar samankomnir. Þannig er kirkjan samfélag á vinamóti, svo kærkominn samastaður þar sem ræktin í vináttu með Guði og samferðafólki er í fyrirrúmi. Og hér blómgast menning og list eins og orðið, sálmarnir og safnaðarsöngurinn bera með sér.

Og ávöxtur trúarinnar heitir kærleikur eins og Jesús Kristur bar vitni um með lífi og verkum sínum og guðspjall dagsins staðfestir svo áþreifanlega. Þú skalt elska Guð og náungann.

Íslensk þjóð þráir að hafa kærleika í öndvegi sem á rætur í kristinni trú og þess vegna hlúð að kirkjunni sinni, sameinast um að kirkjan geti rækt hlutverk sitt og verið skjöldur og skjól í mislyndum veðrum lífsins. Þannig hefur kirkjan verið kjölfesta í lífi þjóðarinnar um aldir, ekki einvörðungu á Íslandi, heldur á Norðurlöndum og um leið verið þungamiðja í því velferðarmodelli sem Norðurlöndin hafa verið þekkt fyrir um allan heim. Er það tilviljun, að einmitt þar sem lútherskur siður festi dýpstu rætur, þar var menntun í forgangi, frelsi og mannréttindi, virðing og umburðarlyndi, allt það sem felst í kristinni menningu og við þráum mest?

Táknin um sambúð kristni og þjóðar blasa við í hverju fótmáli hvort sem horft er á dagatalið, þjóðfánann eða þjóðarsiði. Vandlifað er á íslenskri jörð án þess að kirkjan komi við sögu í persónulegu lífi, enda er starfið í kirkjunni afar fjölþætt og hefur mikið vaxið og blómgast á síðustu árum. Það finnur fólk og tekur virkan þátt. Opin og ærleg umræða er kirkjunni dýrmæt, en þá skiptir máli að hún sé málefnaleg og á staðreyndum byggð og hafi að leiðarljósi hvernig kirkjan getur rækt störfin sín og staðið við þjónustu sína.

En umræður undanfarnar vikur um kirkjuna hafa í ríkum mæli einkennst af helypidómum og upphrópunum. Þeir sem lengst ganga gegn kirkjunni láta sér oft fátt um sannleiksgildi staðreynda finnast ef tilgangurinn helgar meðalið. Ómaklega hefur verið vegið að Biskupi Íslands sem staðið hefur í eldlínu erfiðra mála. Dýrmætt er að hafa sanngirni í heiðri og líka gagnvart þeim sem eru í forystu og gegna trúnaðarstörfum.

Sumir fjölmiðlar fóru mikinn í ágústmánuði, stóðu yfir fólki dögum saman og spurðu hvort það ætli ekki örugglega segja sig úr kirkjunni og boðað var að þúsundir manna streymdu úr kirkjunni. Svo komu tölurnar eftir herferðina í lok mánuðar. Rétt innan við eitt prósent úrsagnir, sem er alltof mikið fyrir kirkjuna, en í engu samræmi við spádóma og allan áróður fjölmiðla, enda fóru þær fréttir hljótt.

Þá er fullyrt æ ofan í æ í fjölmiðlum, að kirkjan sé ríkisstofnun og fréttafólk spyr í síbylju hvort ekki eigi að aðskilja ríki og kirkju. Það ríkir trúfrelsi í landinu og kirkjan er sjálfstætt trúfélag að lögum, á í samstarfi við ríkið með gagnkvæmum samningum eins og gildir um mörg frjáls félagasamtök, lýtur eigin stjórn og fjarhagslegs sjálfstæðis, en rækir þjónustu sína við alla landsmenn óháð búsetu og trúfélagsaðild. Prestarnir eru starfsfólk Þjóðkirkjunnar, en ekki ríkisins og eru nú skipaðir af Biskupi, en ekki ráðherra eins og áður. Sóknirnar eru 374 um land allt þar sem sóknarnefndirnar sjá um kirkjuna sína í sjálfboðastarfi í heimabyggð og safnaðarþjónustuna með presti sínum. Enginn sóknarnefndarmaður kannast við að vera þar starfsmaður ríkisins og heldur enginn kórfélagi kirkjunnar kannast við að vera í ríkiskór. Og það er opið og virkt lýðræði í stjórn og starfsháttum kirkjunnar. Sóknargjaldið rennur til sóknarinnar, þannig að úrsögn úr kirkjunni bitnar þá fyrst og fremst á kirkjustarfinu í heimabyggð og þeirri menningu og starfi sem það ber uppi.

Umfangsmiklar breytingar hafa orðið í sambúð ríkis og kirkju á undanförnum árum svo spurningin um aðskilnað er úrelt. Það virðist hafa farið framhjá mörgum. Hvergi á Norðurlöndunum býr Þjóðkirkja við meira sjálfstæði í skipulagi og starfsháttum en einmitt á Íslandi.

Hefur Alþingi áttað sig á þessari stöðu, að ríkið eigi ekki kirkjuna og trúfélögin í landinu? Svo virðist ekki vera ef horft er til umgengni Alþingis við sóknargjöldin, sem ríkið innheimtir fyrir öll trúfélög eins og mörg önnur félagagjöld. Alþingi hefur tekið af félagsgjöldum fólksins til trúfélöganna væna sneið í ríkissjóð eða allt að fimmtu hverja krónu og boðar að taka enn meira. Myndu verkalýðsfélögin sætta sig við slíka sjálftöku ríkisins af stéttarfélagsgjöldunum sem það innheimtir eða lífeyrissjóðirnir og atvinnuvegasjóðirnir? Hér þarf Alþingi að virða aðskilnað frá kirkju og öðrum trúfélögum í verki.

Já, viltu aðskilja ríki og kirkju? Þú kannast við þessa spurningu sem er jafn fráleit og spurt væri hvort þú viljir aðskilja ríki og sveitarfélög eða ríki og verkalýðsfélögin Nær væri að spyrja: Viltu einkavæða Þjóðkirkjuna? Viltu láta kirkjuna lúta lögmálum viðskiptamarkaðarins um þjónustu sína? Og svörin við þeirri spurningu segja ekki einungis mikið um stöðu kirkjunnar, heldur um framtíð og gerð íslensks þjóðfélags. Víst er, að með einkavæðingu kirkjunnar, þá verður ekki kirkja eins og við þekkjum hana á Þórshöfn eða Stöðvarfirði, Hólmavík eða Vík í Mýrdal svo dæmi séu tekin. Og tæpast verður kirkjan þá sú burðarás í menningu, sálgæslu og velferðarþjónustu eins og verið hefur fram til þessa. Og þá kann að skolast til skilningur manna á gildi kærleikans fyrir mannréttindin og helgi lífsins, og þjóðlífið taki breytingum í þá átt sem fólk óttast mest, að harkan og miskunnarleysið verði í alsráðandi.

Það hefur oft verið reynt að afmá Guð út úr lífi og vitund þjóða. Þær tilraunir enduðu oftast með skelfingu fyrir lífskjör og afdrif fólks. Það hefur aldrei reynst farsælt að hafa vit fyrir Guði og setjast í sæti hans. Um það fjallar Biblían, mannkynssagan og fréttir líðandi stundar. Það eru engin ný tíðindi að efast sé um tilvist Guðs og menn gangi fram fyrir skjöldu og auglýsi afneitun sína. Skírast stóðu þau átök á milli Guðs og manns á Golgata þar sem menn negldu Guð á kross og þóttust hrósa sigri. En þar fór öðruvísi en maður hafði ráðgert af því að hinn krossfesti reis upp frá dauðum, lifir, er og verða mun. Nú er krossinn, sem fyrrum var ógnartré, táknið um kærleika og frið. Mikið kraftverk er það. Þess vegna er kirkja á Íslandi og kristinn kærleikur með einlæga von um mannréttindi í fyrirrúmi eins og við skynjum í lífi og verkum Jesú Krists.

Það er hlutverk kirkjunnar að standa vörð um þann boðskap í störfum sínum og þjónustu sem mótað hefur gildismat laga og siðferðis, menningar og samskipta í landinu um aldir. Og það er verkefni kirkjunnar á öllum tímum að njóta trausts til þess að vera samastaður þjóðarinnar í blíðu og stríðu. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

Við búum ekki í fullkomnu þjóðfélagi, margt má betur fara, og sjálf eigum við mörg við bresti og misjafnar aðstæður að stríða, en mikið megum við samt þakka fyrir lífsgæðin sem við eigum meira af en flestar þjóðir í heiminum. Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þjóðar sem á svo mikið í heimi sem stynur undan örbirgð. Nú skiptir öllu að skapa samstöðu um frið í von um bjarta framtíð þar sem réttlæti ræður för og fólkið sem minnst má sín verði í forgangi. Þar verða allir að leggjast á árar. Það gengur ekki að bera hundruðir fjölskyldna, jafnvel þúsundir, með valdi nauðungaruppboða út af heimilim sínum og setja í félagslegt skuldafangelsi. Við skiptum öll máli hvernig sem aðstæðum okkar er háttað.

Gott er stundum að setja sig í annarra spor og horfa í eigin barm, rækta með sér æðruleysi, leita að innri friði og styrkja vináttu með samferðafólki. Þetta reynir kristin trú að laða fram. Ekki til þess að láta allt yfir sig ganga, heldur til að styrkjast í von um réttlæti. Að koma í kirkjuna sína og taka þátt í helgri stund, sameinast í bæn um heill og velferð, leyfa andanum að lyfta sér aðeins hærra og njóta gróandi menningar og samvista með kirkjufólki. Það er holl heilsubót og gefandi mannrækt sem er framlag til friðar. En um fram allt er þar Guð í miðju sem lætur sér annt um þig og afdrif þín, lifandi Guð sem snertir hjarta þitt og ber þig á bænarörmum og segir: Þú skalt elska Guð og náungann. Í Jesú nafni Amen.