Eitt stærsta vandamálið sem íslenskt samfélag glímir við í dag er spurningin um trúverðugleika. Þótt Hrunið hafi komið illa við efnahag einstaklinga og þjóðar, þá var mestur skaði unninn á trausti sem almenningur ber til stofnanna og opinberra aðila.
Kirkjan hefur ekki farið varhluta af gengisfellingu traustsins í íslensku samfélagi. Um fjörutíu prósent aðspurðra bera mikið traust til þjóðkirkjunnar samkvæmt könnun í febrúar sl. Hluti af uppbyggingu og endurreisn í íslensku samfélagi hlýtur því að vera að stofnanir og starfsfólk líti í eigin barm og spyrji hvað megi betur fara.
Hvað kirkjuna varðar hlýtur spurningin fyrst og fremst að snúast um trúverðuga guðfræði og hvernig kirkjan lifir og iðkar köllun sína í heiminum. Klaus-Peter Jörns, sem var prófessor í praktískri guðfræði í Berlín, og hefur skrifað mikið um helgihald og túlkun, heldur því fram að trúverðuleiki kirkjunnar hvíli fyrst og fremst á einlægni og heiðarleika einstaklingsins sem stígur fram og talar í kirkjunni. Engum dylst hvort sú eða sá sem talar um Guð, Jesú og lífið í heiminum, hvíli fyrir sitt leyti í þeirri trú sem er boðuð.
Honum er í þessu sambandi tíðrætt um sambandið sem við látum í ljós á milli Guðs og hins lifaða lífs hér og nú. Áskorun okkar í dag er að umgangast Guð ekki sem safnvörð sem gætir fyrri opinberanna og undraverka - heldur sem lifandi nærveru og kraft í samfélaginu fyrir heilagan anda.
Viðfangsefni trúverðugrar kirkju sé því að setja trúna fram þannig að hún sé skiljanleg í samtímanum því heimurinn sem við lifum í er heimurinn sem Guð skapar. Við lifum í nútímanum og því er nútíminn það samhengi sem við tölum í.
Framlag frjálslyndrar guðfræði inn í uppbyggingu trúverðugrar kirkju er sýnin á veruleika manneskjunnar sem ein heild en ekki brotin upp í himneskt vs. mannlegt. Það að Guð gerðist maður og lifði í Jesú Kristi er stærsti vitnisburðurinn um samstöðu Guðs með manneskjunni. Holdtekningin leyfir okkur því að trúa að aðstæður okkar séu ævinlega Guði skiljanlegar og umhugaðar.
Þrjú örviðtöl við Klaus-Peter Jörns
Trúverðug guðfræði
Trúverðug kirkja
Áskoranir guðfræðinnar
Klaus-Peter Jörns er aðalfyrirlesari á ráðstefnu um frjálslynda guðfræði í Reykholti 20.-21. maí. Þar mun hann ræða um trúverðuga guðfræði.