Talandi um himnaríki

Talandi um himnaríki

Mögulega er himnaríki jarðbundnara en við kynnum að ætla, af nafninu að dæma. Það er í það minnsta samofið tilgangi mannsins, um að við erum hluti af samfélagi, nærumst saman, miðlum hvert öðru því sem við höfum að gefa og leggjum okkar litla framlag í hendur Guðs sem margfaldar það með krafti sínum og mætti.

Flutt 11. mars 2018 í Neskirkju

Við tölum ekki mikið um himnaríki hér í kirkjunni. Við erum líklega of jarðbundin til þess og veltum því fremur fyrir okkur sem er af þessum heimi.

Jesús og Móses

Okkur til varnar má benda á að sögusvið Biblíunnar og umhverfi frásagna hennar eru oftar á jörðu en á himni. Þó er það nú svo með þessar frásagnir að þær leyna á sér, vísa með ýmsum hætti í ólíkar áttir. Jú, það er líklega flestum kunnugt að margar af sögum um Jesú benda aftur fyrir sig í tíma. Þar er hann í einhverju því hlutverki sem söguhetjur Gamla testamentisins voru á sínum tíma í og atburðir kallast á, þótt aldir og árþúsund skilji að.

Við fengum reyndar svolitla aðstoð í dag til að giska á hver fyrirmyndin er að guðspjallinu. Í lexíunni heyrðum við af því þegar Ísraelsmenn fengu yfir sig manna-korn í óbyggðunum. Þá höfðu þeir ráfað um í eyðimörkinni á þessari ferð sinni til fyrirheitna landsins. Þetta var ferð með fyrirheiti, leið sem stefndi að ákveðnu marki. Í Biblíunni er samt sjaldnast talað um skefjalausa hamingju og óblendna ánægju án þess að vísað sé til þeirrar staðreyndar að tilveran hefur fleiri víddir. Þjáningin vitjar okkar einnig. Eyðimörkin og skorturinn eru þarna alltaf í bakgrunninum og þannig hefur líf mannsins verið allt til síðustu kynslóða sem njóta meiri lífsgæða en áður hefur þekkst. Aðrar þrautir vitja okkar þó og við vitum ekki hversu lengi hinar efnislegu alsnægtir munu endast.

Sagan af því þegar hin útvalda þjóð - sem var í raun möglandi lýður, sundurleitur og tvístraður - fékk þessa himnasendingu í eyðimörkinni hafði lifað með fólkinu kynslóð fram af kynslóð og gerir enn. Í sinni einföldustu mynd var boðskapurinn sá að þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Þegar fólki eru að fallast hendur og öll björg virðist bönnuð er Drottinn nálægur með hjálp sína og stuðning. Og svo kemur sagan af Jesú sem er á svipuðum slóðum. Hvert er erindið? Hún er að mörgu leyti lík þeirri af Móse og fylginautum hans.

Í fyrra tilvikinu kemur hjálpin að ofan og fyrirhafnarlaust getum við sagt. Kunnugir á þessum slóðum þekkja til þessa fyrirbæris, manna-korn eru einhver sæt frjókorn sem berast með vindinum og setjast svo til jarðar. Þeir sem þau snæða fá langþráða næringu á þessum harðbýlu slóðum. Í óbyggðunum hafði fólkið safnast saman til að hlýða á þann sem í augum margra var hinn nýi Móses. Hann var leiðtoginn sem þjóðin hafði beðið eftir og rétt eins og Móses leiddi lýðinn út úr þrælahúsinu í Egyptalandi var Jesús sá sem myndi frelsa fólkið undan oki hins erlenda valds.

Með þeim hætti minna guðspjöllin stundum á textana sem við lesum á netinu, með slóðum sem lesandinn getur fært bendilinn á og farið yfir í annað skjal og aðra frásögn. Í upphafi sögunnar er talað um það þegar Jesús kemur af vatninu. Í sögu Móse hafði hópurinn skömmu áður gengið þurrum fótum yfir sefhafið en hermenn Faraós sem fylgdu í kjölfarið drukknuðu. Þarna kallast á hjálpræðið og djúpið, þetta forna tákn um óreiðu og óskapnað.

Í báðum tilvikum er fjallað um ákveðna prófraun. Jesús kallar eftir því að brauðinu verði safnað saman svo ekkert fari til spillis, rétt eins og Móses gerði um kornið í eyðimörkinni. Fjallið er vettvangur sögunnar og vísar til Sínaífjalls þar sem Móses kom niður með boðorðin tíu. Svo möglar fólkið í báðum sögum. Svona kallast þær á og fyrir fyrstu áheyrendum sem hlýddu á atburðalýsinguna tengdist þetta allt saman við hinar kunnu lýsingar af eyðimerkurgöngu lýðsins.

Himnaríki

Þess vegna verður líka áhugavert að rýna í það sem er frábrugðið við sögurnar tvær. Sagan af Jesú vísar ekki aðeins aftur fyrir sig. Hún bendir líka fram í tímann til þeirra atburða er hann settist að borðum með vinum sínum, lærisveinunum og þeir neyttu hinnar síðustu kvöldmáltíðar. Við endurtökum þá atburði á sinn hátt, í altarisgöngum í kirkjum. Þar erum við komin að þeim stað sem predikunin hófst á. Hér er sjálft himnaríki til umfjöllunar. Í hinum forna heimi var hungur og þorsti hluti af daglegri reynslu almennings. Við þekkjum þær tilfinningar vart nema af afspurn eða þá að við látum plata okkur í eitthvert heilsuátak með sjálfskipuðum skorti og nauð. Hitt er okkur framandi að vita ekki hvernig eigi að metta munna þegar dagurinn hefst.

Við þekkjum mögulega betur annars konar hörgul og skort sem tengist máltíðinni. Nei, það vantar ekki matinn í okkar heimshluta, frekar að ofgnógt hans sé að ganga frá okkur. En skorturinn sem samtími okkar býr við er af öðrum toga. Þegar hið gamla samfélag túlkaði himnaríki sem máltíð, var það ekki aðeins með vísan til þess að allir fengu mat og drykk. Þar var heldur engin einsemd. Það er í raun merkilegt hvernig hugmyndir hins gamla heim um hið fullkomna ástand tengist þessu tvennu. Gleymum við ekki stað og stund þegar við tökum þátt í einlægu og innilegu samtali við fólk sem okkur þykir vænt um? Já, komumst í einhvers konar algleymi þar sem tíminn skiptir ekki lengur máli. Finnum við þá ekki fyrir þeirri kennd sem er okkur svo dýrmæt - að vera hluti af einhverju sem er stærra og meira en við sjálf?

Einsemdin, einangrunin frá mannlegu samfélagi, snertir á svo mörgum þáttum í lífi okkar og samfélagi. Hvar borðar fólkið á okkar heimilum? Er það við matarborðið í samfélagi fólks, þar sem kynslóðir koma saman, fólk deilir sögum úr sínum hversdegi og hlær saman og neytir máltíðar. Miðlar fólk þar siðviti, þekkingu og reynslu. Eða er hver fyrir framan sinn skjá, í sínu herbergi eða sínum sófa? Er næringin innbyrt á hlaupum eða við einhverja sölulúguna? Ég veit ekki hvernig hlutfallið er hérlendis en Vestanhafs neytir fólk fimmtu hverrar máltíðar í bílnum.

Altarisgangan í kirkjunni miðlar okkur þeim skilaboðum að sameiginlegt borðhald skiptir miklu máli. Þar erum við minnt á að við erum hluti af einum hópi og því til staðfestingar göngum við í sameiningu til þessarar máltíðar. Mettunarfrásögnin vísar til hinna efstu tíma þegar skorturinn er ekki lengur til staðar. Hungrið eftir nauðþurftum þjakar ekki manninn og einsemdin sem stundum er sjálfskipuð rænir okkur ekki dýrmætum lífsgæðum. Þvert á móti er það hinn opni faðmur, þar sem Guð er eins og gestgjafi sem fagnar okkur í veisluhöldin.

Og lykilpersónan í sögunni er svo barnið sem stígur fram. Mitt í allri þessari eymd þar sem fólkið kveinaði á mat, lagði þessi piltur til sitt litla framlag. Og þar eins og víðar í hinum mögnuðu frásögnum Biblíunnar mætir hið æðsta hinu lágstemmda. „Himnaríki er mitt á meðal yðar,“ segir Kristur á einum stað og barnið í sögunni færði þarna von inn í aðstæður sem virtust vera vonlausar. Það skilur eftir ríkulegt fordæmi fyrir okkur öll. Mögulega er himnaríki jarðbundnara en við kynnum að ætla, af nafninu að dæma. Það er í það minnsta samofið tilgangi mannsins, um að við erum hluti af samfélagi, nærumst saman, miðlum hvert öðru því sem við höfum að gefa og leggjum okkar litla framlag í hendur Guðs sem margfaldar það með krafti sínum og mætti.