Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ Lk. 10.38-42.
“Marta, Marta, þú er áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt, María hefur valið góða hlutskiftið.” Þekkt frásögn úr guðspjöllunum, sem margir hafa velt vöngum yfir. Hvað er Jesús að gefa í skin, - hvað er hann að kenna þeim og okkur með þessum viðbrögðum?
Tökum eftir því að það er Marta sem býður Jesú heim, tökum einnig eftir því að það er talað um þessa fjölskyldu oftar í guðspjöllunum, því þær systur áttu bróður sem Jesús vaktu upp frá dauðum, eftir að þær systur sendu boð til hans um að koma. Í þessu sambandi segir frá samtali sem Marta átti við Jesú og þar gefur Marta játningu, sem er mjög sterk á ákveðin: Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.
Jesús er að tala við systur sem eru mjög ólíkar, skemmtilega ólíkar. Ég trúi, að við sem á annað borð tilheyrum fjölskyldum og höfum alist upp kannski með mörgum systkinum þekkjum vel þessa mynd. Við skiljum stundum ekkert í hinum systkinunum, sem nenna ekki þessu og hinu, eða vilja gera hlutina allt öðruvísi en við - hver þekkir ekki setninguna: Á ég að gera allt hérna á heimilinu eða hvað?
Ég reikna með að við þekkjum viðbrögð Mörtu mjög vel, ég finn að það er mikið af Mörtu hér inni í mínu hjarta og ég finn til með henni í þessari stöðu. Það er svo margt sem þarf að gera á einu heimili, hvað þá ef húsið fyllist af gestum, það er svo margt sem okkur finnst nauðsynlegt og er nauðsynlegt til þess að lífið gangi hreinlega upp, heima, í skóla, á vinnustað, í stjórnsýslunni. Við gætum talið upp langan lista af hlutum, sem við öll mundum skrifa undir að væru nauðsynlegir, jafnvel bráðnauðsynlegir.
En svo gengur Jesús fram í guðspjalli dagsins og segir, jú, en kæru vinir, eitt er nauðsynlegt, það er eitt hlutskifti sem við þurfum að setja efst á forgangslistann. Hann benti á Maríu, þar sem hún sat við fætur hans og hafði verið að hlusta á hann boða fagnaðarerindið, María hefur valið góða hlutskiftið, það verður ekki frá henni tekið.
Nú er það svo, kæri söfnuður, að við öll, sem hér sitjum í dag í Hallgrímskirkju, höfum valið góða hlutskiftið. Á þessum morgni höfum við öll valið að koma hingað og þar með sests við fætur Jesú, - því til þess höldum við guðsþjónustur sem þessar að við getum sameiginlega sest niður til að hlýða á Guðs góða orð, fagnaðarerindi frelsarans um trú, von og kærleika. Fermingarbörn sem nú hefja sinn undirbúning hafa sömuleiðis valið þetta góða hlutskifti, velkomin í hópinn.
Messuhópurinn sem hér þjónar í dag hittist s.l. miðvikudag til að undirbúa þessa messu, - þá settumst við niður og ræddum þennan texta og reyndar alla texta dagsins, ræddum saman og báðum fyrir þessari messu. Undirbúningur sem gefur mér ómetanlega mikið, já ég vona okkur öllum, því þarna settumst við niður við fætur Jesús mitt í önn dagsins til að leita hinnar tæru lindar, uppsprettu hins lifandi vatns, sem Jesús lofaði að gefa þeim sem til hans kæmu. Við ræddum þennan texta og við fundum öll eitthvað af Mörtu í okkur, og við leituðum sameiginlega að leiðum til þess að geta fetað í fótspor Maríu.
Ég lít svo á, að Marta og María séu fulltrúar fyrir tvö afar mikilvæg hlutverk eða hlutskifti í kirkju Krists á jörð, þetta eru tvær systur sem þurfa að takast í hendur og leiðast, vinna saman og skilja hvor aðra.
María hafði valið góða hlutskiftið, þetta eina nauðsynlega, - vissulega, því þar er grundvöllurinn, þar er tengingin við Guð, tengingin við Lífið með stórum staf, til þess síðan að fara af stað og gera alla hina nauðsynlegu hlutina í anda Krists í Jesú nafni. María er fulltrúi bænastundarinnar, helgisiðanna og Marta er fulltrúi kærleiksþjónustunnar í heiminum. Þessar tvær systur þurfa að geta tekist í hendur, horft í sömu átt, stefnt að sama marki.
Marta, Marta, þú ert áhuggjufull og mæðist í mörgu! - Hver þekkir ekki þessa stöðu, að vera hreinlega að gefast upp, vera svo óendanlega þreyttur, að maður getur ekki meir, - já margir í dag eru jafnvel í þeim aðstæðum að þeir eru að gefast upp.
Um daginn rakst ég á sænska bók sem heitir: "Det er aldreig kört!" Eða: "Það er aldrei vonlaust". Bókin samanstendur af litlum sögum og hitmiðuðum setningum til að byggja undir vonina. Ein sagan er svona:
Maður nokkur lenti í miklu sjóslysi, skipið sökk og hann kastaðist upp á litla óbyggða eyju. Hann var glaður að ná landi, nú fór hann að tína saman rekavið, allt sem hann fann bar hann á einn stað og hróflaði upp litlu skýli, en hann sá að þarna mundi hann ekki geta lifað lengi. Stóra vandamálið var að sjálfsögðu matarleysið, jú hann gæti eflaust veitt fisk og kanínur, en án þess að hafa eldfæri yrði matseldin ókræsileg. Nú fór hann að leita, jú hann elti uppi kanínu, þannig að nú er það eldfærin, hann gekk um í sandinum, skimaði um allt, jú þarna var askja, hann hljóp til, opnaði öskjuna og viti menn, þarna var lítið stækkunargler, nú var honum borgið, hann gat kveikt eld, það hafði hann lært í skátunum. En í öllum hamaganginum að geta nú kveikt eld og steikt kanínuna, þá réð hann ekki við eldinn, eldtungurnar fóru í sinuna í kring, og í skýlið og rekaviðinn sem hann var búinn að safna og allt brann til kaldra kola. – Nú var h. öllum lokið. Hann varð sjálfum sér svo reiður, af hverju..., nei hann langði mest að leggjast niður og gefast alfarið upp, hann sá bara brunarústir, hann sá engan möguleika að lifa af. Hann sofnaði á ströndinni undir stjörnubjörtum himninum og svaf góðan dúr, þar til hann vaknaði við skipshljóð, en skip hafði siglt inn á víkina, þar sem hann lá. Hvernig vissuð þið, að ég var hér, spurði hinn illa leikni maður. - Jú, við sáum reykmerkið!!
Góð dæmisaga, sem fær okkur til að hugsa. Í þessari umræddu bók fann ég líka þessa setningu: Að kvarta er eins og sitja í ruggustól. - Þú ert vissulega að gera eitthvað, en þú kemst ekkert áfram!
Hér á landi hefur orðið hrun, það eru víða brunarústir, - alveg eins og á ströndinni hjá skipbrotsmanninum. En kannski hefur einhver séð reykmerkið.
Eitt er víst að Guð hefur séð reykmerkið, - og hann huggar með orðum lexíunnar í dag:
Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast.
Þetta megum við taka til okkar, í þetta megum við halda dauðahaldi, kæri söfnuður. Postulinn segir í pistli dagsins:
Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hugnraður, að hafa allsnægtir og líða skort. En niðurstaðan er þessi segir hann: Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.Hann hafði fundið leiðina að lindinni tæru, uppsprettunni, hann hafði lært að setjast við fætur Jesú. Leyfum þessum myndum Guðs-orðsins að fylgja okkur inn í hversdaginn.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.