Hvað er hégómi var spurt í sunnudagaskólanum. Eitt barnið rétti upp hönd sína og svaraði: “Það er eitthvað upp í munninum? Það er aftast, gómurinn.” “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma” er önnur greinin í boðsbréfi Guðs til betra lífs. Hver er merking þess? Þýðir það að maður má ekki vera með Guð á gómnum í tíma og ótíma, ekki Jesúsa sig hugsunarlaust og ótæpilega, ekki segja amerískt Jesus, Djís eða Gosh? Er þetta boð um munnotkun og beint sérstaklega gegn munnsóðum og til að þeir fari sér ekki að trúarlegum voða? Varla, en margir kristnifræðarar hafa fyrr og síðar varað ungviðið við að bölva og vera ekki ekki með Guð á vörunum að tilefnislausu, hvorki í enskri eða íslenskri útgáfu - leggja ekki nafn Guðs við hégóma. Það er gott og vel en er það nóg?
Orð og nafn
Marteinn Lúther lagði út af boðorðunum í litla katekismanum. Fræði Lúthers hin minni voru uppfræðslu- eða fermingarkver margra og um aldir í norðurhluta Evrópu. Þar segir siðbótarfrömuðurinn um annað boðorðið, að menn eigi ekki að biðja óbæna í nafni Guðs, fremja fjölkynngi, ljúga eða svíkja. Áhersla Lúthers er að orð skuli rétt notuð, ekki skuli blekkt, ekki prettað né hið gilda og góða verðfellt. Hann hefur sjálfsagt oft hlustað á bölv og ragn og freistaðist sjálfur til tengja lítrík orð og setja saman ábúðarmiklar setningar og málsgreinar. Afi í bókinni Salómon svarti sagði gjarnan: “Vandaðu málfar þitt, drengur minn.” Lúther var eins og afi og vildi að menn vönduðu málfar, en ekki vegna mannasiða heldur vegna Guðs. Mál manna varðar veru Guðs, nafn Guðs.
Ég gerði skyndiprufur í vikunni um afstöðu fólks til merkingarsviðs annars boðorðsins. Flestir - og það er vísast skilningur meirihlutans - skilja eða hugsa um annað boðorðið út frá hvernig við tölum, út frá meðferð tungumálsins. Samkvæmt þeirri afstöðu er annað boðorðið um trúarlega málrækt, trúarlega hreintungustefnu. Líklegast er sú vitund, að menn eigi ekki að Jesúsa sig og nota nafn Guðs í tíma og ótíma, komin úr Lútherskatekismanum.
Nafn og sjálf
En er þá annað boðorðið fyrst og fremst um það sem er sagt? Hvað þýðir að leggja ekki nafn Guðs við hégóma? Nafn er hluti sjálfs. Ekki viljum við að gert sé grín að nafni okkar því þá er verið að hæða okkur sjálf. Orðið hégómi merkir það sem er auðvirðilegt, fáfengilegt eða falskt. Og á hebreskunni er hégóminn það sem er óstöðugt, óöruggt – jafnvel tóm. Við getum skilið að hið háleita eigi ekki að draga niður í hið lágkúrulega, að ekki eigi að blanda sannleika og lygi, að ekki megi rugla á hinu trausta og ótrausta.
Lífsvernd
Að baki öðru boðorðinu hljóta vera efnismeiri ástæður en einhver trúarleg hreintungustefna. Mælgi er alveg örugglega ekki helsta viðfang boðorðanna eða siðfræði Biblíunnar. Það er mun fremur lífið og vernd þess, hamingja fólks og velferð þess. Annað boðorðið varðar vissulega málfar en einnig annað og meira. Ég legg til að við skiljum boðorðið víðar en aðeins málfarslega, að það varði flestar greinar mannfélagsins, þjóðfélaga, hópa sem og innra líf einstaklinga. Ég skil þetta boðorð sem hvatningu til að meta hið dýrmæta mikils og ruglast ekki á því og hinu sem er minna virði. Samkvæmt Biblíunni er Guð vermætið algilda. Við ættum aldrei lítilsvirða nafn nokkurs – allra síst megum við vanvirða veruleika Guðs. Þegar svo er gert fer illa og við slíku er varað með þessu öðru orði.
Ýmis dæmi má nefna um að blessun Guðs hefur verið misnotuð og þar með nafn Guðs dregið niður í hið óstöðuga, hið lágkúrulega. Prestar, sem á fyrri tíð blessuðu skotvopn og drápstól, lögðu nafn Guðs við hégóma. Þeir notuðu hið trúarlega til að réttlæta eða “blessa” ákveðna hernaðarpólitík. Trúmenn verða ávallt að gæta að því að kasta ekki rýrð á Guð með heimsku sinni, þröngsýni og hégómaskap.
Með hliðstæðum hætti rekast þau, sem nota trúarleg rök fyrir hernaði og árásarpólitík sinni, á annað boðorðið. Ýmis stjörnvöld erlendis hafa vísað í trúarleg rök stefnu sinni til stuðnings. Þetta er hrapaleg aðferð og í andstöðu við annað boðorðið. Við getum kallað slíkt pólitískt guðlast.
Misrétti – mismunun – brot?
Síðan er afstaða gagnvart fólki. Þegar reynt er að nota trúarleg rök til að mismuna fólki vegna trúar, kyns eða litarháttar er brotið á öðru boðorðinu. Guð elskar alla jafnt, elskar alla sköpun sína og öll börn sín, hvernig sem þau eru, lifa eða hugsa. Þegar mismunun er trúarlega rökstudd er brotið gegn boðorðinu. Guð elskar hvíta bjargálna Vesturlandamenn ekki meira en aðra. Margir guðfræðingar spyrja hvort málum sé ekki öfugt farið. Stendur ekki Guð alltaf við hlið fórnarlamba, sakborninga, fangelsaðra, líðandi, fátækra og kúgaðra? Ef við andæfum ekki röngum félagskerfum, mismunun, vondri peningaskiptingu í heiminum og misrétti er spurning hvort við brjótum á öðru boðorðinu? Leggjum við nafn Guðs við hégóma þegar við drögum fyrir sálarskjáinn og heyrum ekki neyðaróp þurfandi?
Við getum líka talað um fagurfræðilegt brot eða guðlast – að draga Guð niður í lágkúrulega gjörninga. Árið 2007 var gerður stór súkkulaðiskúlptúr af Jesú og sýndur í New York. Þetta var lystilega vel gerð mynd og einhverjum fannst hún lystileg í öðrum skilningi einnig. Þessi sætinda Jesús (sweet Jesus) var á mörkum hins sæmilega, að hið guðlega væri dregið niður á plan hins smeðjulega og ósæmilega.
Bloggheimar eru fullir af stóryrðum um hið trúarlega. Að gera grín að trúarlegri grunnhyggni trúmanna er ekki saknæmt en alvörumál að hæðast að Guði, siðgildum og meginforsendum gjöfulla samskipta fólks og þjóða.
Hégómi
Ég las í minningabók Karen Blixen í sumar, að hún líkti saman Sómölum og Íslendingum. Þessi mikla sagnakona þekkti klassískar bókmenntir okkar vel og svo las hún doktorsritgerð um Sómali og þar kom sami dómur um líkindi þeirra og Íslendinga. Kenningin var að þessar ólíku þjóðir í Atlanshafinu og Austur-Afríku væru hégómlegar. Hégómi Íslendinga kæmi m.a. fram frægðarsókn, t.d. í Hávamálum 76:
“…En orðstír / deyr aldregi / hveim er sér góðan getur.”
Það má skemmta sér að þessari ábendingu Blixen og auðvitað efast um hana. En okkur er hollt að spyrja hvort sókn okkar sé kannski bara eftirsókn eftir vindi, hinu fáfengilega, frægð, yfirborðsgæðum? Er líf þitt stöðugt brot á öðru boðorðinu? Kannski Jesúsar þú þig aldrei, notar aldrei Guðs nafn með léttúðugum hætti en brýtur samt annað boðorðið daglega og algerlega meðvitundarlaust og forhert?
Þegar menn verðfella hið heilaga, draga Guð niður í þröngar skilgreiningar í eigin þágu, þágu flokks eða uppáhaldsfordóma er nafn Guðs dregið í svaðið. Við eigum ekki að hreykja okkur upp, gera okkar þarfir, mál eða trúarafstöðu að höfuðgildi og ætla svo að nota Guð eins og hvert annað þægilegt réttlætingartæki til að sannfæra okkur sjálf og alla aðra um gildi og alræðismátt okkar máls. Slík afstaða er brot gegn Guði. Það er að belgja sig pg hreykja sér, læðast í guðssætið og lauma eigin dýrð í hásætið. Slíkur hroki leynir á sér og ætti stundum að fá Óskarinn fyrir sannfærandi leik auðmýktar og elsku. Hryllingurinn er oft strokinn, snoppufríður og góður upp í eyrun – en deyðandi.
Hver er þá boðskapur dagsins? Þú vilt ekki að neinn hæði nafn þitt, þig né það sem þú telur mikilvægt. Þú ættir því ekki að hæða nafn Guðs á nokkurn máta með því að fara ósæmilega með það sem Guðs er. Gleðstu fremur yfir hinum stórkostlegu gjöfum Guðs og nýttu þær í þágu lífsins. Annað boðorðið er boðskort til hins góða lífs. Við ættum ekki að smætta tilveruna og kasta rýrð á gjafara allra gæða, heldur megum rækta með okkur þakkarafstöðu, auðmýkt og gleði yfir gæðum. Þá verður hégóminn fjarri, góð orð á gómi og gleði í samskiptum.
Amen
Hugvekja í Neskirkju 1. febrúar, 2009.