Guðspjall: Lúk. 13:6-9
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. (Hebr. 13:8)
Góð orð að hvíla við á síðasta degi ársins. Hugurinn leitar til baka og það eru mörg minningabrotin að staldra við.
Andvarp yfir því sem miður fór og ekki heppnaðist. Daprar minningar um tækifæri sem glötuðust. Og margt annað. En fyrst og fremst eru það þó þakkir fyrir allar þær góðu gjafir sem við hlutum á árinu.
Fréttastofur og fjölmiðlar keppast við að minna okkur á allt það sem margvert mátti teljast frá sjónarhóli þeirra stofnana og ef til vill mun rata í sagnfræði framtíðarinnar. Fólk er fengið til þess að segja frá einhverju merkilegu á árinu og ýmist er það eitthvað sem snertir land og þjóð en líka fáum við að heyra í þeim pistlum eitthvað personulegt – eitthvað sem snerti viðkomandi og hafði áhrif á líf og eða lífsviðhorf.
Mörgum finnst vafalaust að árið hafi verið merkilegt ár, því að miklar jákvæðar og skemmtilegar breytingar urðu í lífi þeirra.
Öðrum finnst að árið hafi verið erfitt, vegna þess að sorg og söknuður ríkir í hug og hjarta, vegna þess að eitthvað gerðist sem vekur sorg og hryggð og öryggisleysi um það hvað næsta ár ber í skauti sér.
Og sumum finnst að árið hafi bara verið eins og flest hin árin, lífið hafi gengið sinn vanagang, sorg og gleði hafi blandast saman eins og venjulega.
Og svo eru þeir sem upplifðu einstaklega hamingjuríkt ár og baða sig enn í rósrauða skýi hamingjunnar.
En nú er komið að því að kveðja árið. Við setjumst með fjölskyldu og vinum að góðum og glæstum veitingum, förum og horfum á áramótabrennuna og fylgjumst svo með flugeldunum sem skotið verður á loft á miðnætti og tökum sjálf þátt í því.
Um leið og við horfum á eftir flugeldunum hverfa upp í geiminn og litrík ljósin blossa um himinhvolfið, hvarflar oft að spurningin um það hvernig árið MITT var. Var það eitthvað af þessu sem upp var talið, eða var það einhvern veginn allt öðru vísi?
Hvað gerði ég við tækifærin sem buðust á árinu? Var þetta ár einhvern veginn öðruvísi en hin árin? Lít ég til baka með góða tilfinningu og tilhlökkun yfir því að nýtt ár skuli brátt hefjast, nýtt ár með ný tækifæri. Það er spurning.
Eitt er það sem við kannske veltum ekki mikið fyrir okkur í árslok er spurningin um það hvernig samband okkar við Guð hefur verið.
Var það jafn tilviljanakennt og svo oft áður, gott að vita af honum þegar á bjátar, gott að vita af honum þegar eitthvað mikið stendur til eða var það samband byggt á trausti og þrá eftir að eiga samleið með honum dag hvern og í samfélagi við þau öll sem leita hans.
Ég rakst á litla sögu nýverið. Hún segir frá konu nokkurri sem fékk þau skilaboð frá systur sinni að þeim hefði verið boðið til veislu og hún hefði þegið boðið fyrir hennar hönd. Konunni leist ekkert á þetta, fann til alls kyns afsakanir, hún kynni ekkert að sitja til borðs í fínum veislum, hún vissi aldrei hvað hún ætti að segja og svo myndi hún ekki þekkja þarna nokkra sál, nema auðvitað systur sína og gestgjafann. En allt kom fyrir ekki, það voru engar afsakanir teknar gildar og sögupersónan okkar fór í veisluna, klædd í sitt fínasta púss. Og viti menn. Hún skemmti sér konunglega. ,,Ég kynntist nýju fólki og öðlaðist skilning á hæfileikum annarra. Ég vissi t.d. ekki áður að húsmóðirin var algjör snilldarkokkur, og ég uppgötvaði að frænka hennar var hreinn meistari í þvívíddar púsluspili, en síðast en ekki síst þá sá ég hvernig þessi frænka sem þarf að vera í hjólastól lítur eftir móður sinni.
Ég sá nýjar hliðar á þeim sem ég áður þekkti af afspurn og vissi lítið um nema það sem ég sá tilsýndar og mikið er ég þakklát systur sinni fyrir að nánast draga mig í þetta mjög svo fína heimboð,” sagði konan og brosti út undir eyri.
Þessi litla saga er svolítil dæmisaga um að festast ekki í einhverju fari, heldur leyfa tækifærunum sem við blasa á hverjum degi að njóta sín og verða lifandi meðal okkar.
***
Litla dæmisagan sem sögð var í guðspjallstexta þessa dags er saga um tækifæri. Fíkjutréð er gert að ímynd þess sem öðlast nýtt tækifæri. Fíkjutréð er all sérstætt tré. Það tekur þrjú ár að það beri ávöxt. Þannig var komið fyrir fíkjutrénu í sögunni. Þrjú ár voru liðin en ekkert hafði gerst og eigandinn vildi höggva það burt til þess að geta plantað þar nýju tré, sem vonandi bæri ávöxt að þremur árum liðnum. En verkamaðurinn í víngarðinum biður trénu griða í eitt ár og lofar að hugsa sérstaklega vel um það, en ef það dugi ekki þá megi tréð fara.
Þetta er líka dæmisaga um umhyggju. Þrátt fyrir að sýnt er fram á veikleika, þá er einhver sem ber umhyggju fyrir trénu og vill reyna til hins ítrasta að láta það bera ávöxt.
Við erum minnt á og vakin til umhugsunar um það hvernig við stöndum okkur í því að sýna samferðafólki okkar umhyggju. Allt of oft heyrum við af fólki sem virðist algjörlega týnt í samfélaginu og enginn virðist vita af fyrr en uppgötvast að viðkomandi hefur legið dáinn á heimili sínu um einhvern tíma.
Og við teljum alltaf að slíkt gerist ekki í okkar samfélagi og sem betur fer vitum við ekki af því að illa hafi farið, en við megum ekki sofna á verðinum og aðeins horfa á fallegu fíkjutrén sem bera mikinn ávöxt. Það eru líka fíkjutré í okkar garði sem lítinn eða engan ávöxt bera og okkur ber að hlúa að þeim.
Dæmisagan segir líka af möguleikum, það að margt það sem virðist eiga erfitt uppdráttar getur með seiglu og alúð náð að blómstra, vaxa og dafna og veita gleði öllum þeim sem fylgst hafa með.
Eða eins og Jón Helgason orðar það:
Séð hef ég skrautleg suðræn blóm sólvermd í hlýjum garði; áburð og ljós og aðra virkt enginn til þeirra sparði; mér er þó löngum meir í hug melgrasskúfurinn harði, runninn upp þar sem Kaldakvísl kemur úr Vonarskarði.
Því það er heldur ekki það sem glitrar og glampar mest á sem er merkilegast og þýðingarmest – nei, melgrasskúfurinn harði er ekki síður merkilegur þar sem hann vex á harðbalanum við erfið skilyrði.
Og á það minnir Jesús í textanum að allt sem vex og dafnar er Guðs góða sköpun og okkur ber að hlúa að því að gæta þess og sjá til þess að ganga ekki svo á sköpunarverkið að skaði hljótist af.
En líka er áminningin sterk að hlúa að hverjum og einum einstaklingi og mæta honum / henni þar sem þau eru, en ekki þar sem við erum.
***
Já, árið er liðið og aldrei það kemur til baka. Svo segir í sálminum góða.
Við erum minnt á að engu verður breytt af því sem fortíðin ber í skauti sér, en öll getum við einhverju ráðið um það sem nýja árið og framtíðin gefur okkur.
Varðveitum hvern dag og gerum hann að góðum gærdegi fullan af góðum og kærum minningum.
Hvað morgundagurinn ber í skauti sér vitum við ekki en við getum gert allt mögulegt til þess að sá dagur verði góður dagur og leyft okkur að eiga tilhlökkunina yfir nýjum góðum degi.
En dagurinn í dag er dagurinn sem máli skiptir, það er dagurinn okkar.
Gæt þessa dags, því að hann er lífið sjálft.
Í honum býr allur veruleikinn og sannleikur tilverunnar, unaður vaxtar og grósku, dýrð hinna skapandi verka, ljómi máttarins.
Því að gærdagurinn er draumur og morgundagurinn hugboð, en þessi dagur, sé honum vel varið, umbreytir hverjum gærdegi í verðmæta minningu og hverjum morgundegi í vonarbjarma.
Gæt því vel þessa dags.
Guð gefi að við eignumst gott ár með trú á að líf með Kristi sé gott líf, von um vöxt og þroska og kærleika til okkar sjálfra og allra manna.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun. Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.