Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina. Veldu mig Hefur þú einhvern tíma verið útvalin(n)? Hefur þú kannski verið valin(n) úr hópi fólks til þess að gegna draumastarfinu eða fengið drauma hlutverkið? Eða hefur þú kannski verið valin(n) í eitthvað sem þú hefur engan áhuga á að taka að þér? Hefur þú einhvern tíma velt því fyrir þér hvort Guð hafi valið þig eða kallað sérstaklega til einhvers hlutverks? Við heyrðum í dag um tvo útvalda karla. Annar er valinn með nokkrum látum en hinn á töluvert lágstemmdari hátt. Sá fyrri, sem fékk nafnið Páll, hafði áður verið hatrammur í herferðum sínum gegn kristnu fólk. Hann upplifði köllun sína með miklum látum þegar hann féll til jarðar, sá mikla birtu í kringum sig og heyrði rödd Jesú Krists tala til sín. Hlutverkið sem hann var valinn í var heldur ekkert smávegis og kannski svolítið kaldhæðið út frá fortíð hans. Hann átti að ferðast um og boða trú í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann átti að boða trúna sem hann hafði barist gegn. Sá síðari, sem fékk nafnið Pétur eða kletturinn, var einn af lærisveinum Jesú. Köllun hans bar að með öllu rólegri hætti þegar Jesús snýr sér að honum og tjáir honum að héðan í frá verði kirkja Krists byggð á honum. Hann á að vera kletturinn eða undirstaða kirkjunnar. Ég er ekki viss um að Páll hafi verið í skýjunum yfir sínu hlutverki en hann tók mark á vitruninni og stóð sig ágætlega sem einn af hinum fyrstu postulum Krists og er stór hluti rita Nýja testamentisins talinn vera eftir hann.Verkefni hans voru sannarlega ekki alltaf auðveld og hann lenti oft í vandræðum og stundum í fangelsi. Við fáum ekkert að vita um viðbrögð Péturs við útvalningunni. Við vitum ekki hvort hann varð hoppandi glaður, órólegur eða kvíðinn. En við vitum nokkuð mikið um persónuleika hans og hann virðist kannski ekki hafa verið sá “stöðugasti” í vinahópi Jesú.
Í Biblíunni er sagt frá mörgum útvalningum þar sem fólk er valið til þess að gegna einhverju ákveðnu hlutverki í þágu Guðs. Hin útvöldu bregðast við á mismunandi hátt. Allt fá því að svara játandi um leið, til þess að neita og láta ganga svolítið á eftir sér. Þessir tveir karlar sem við heyrðum um í áðan voru hvorugir neinar ofurhetjur. Annar barðist gegn trúnni og hinn var kannski sá í lærisveinahópnum sem Jesús taldi vænlegast að halda nálægt sér, hafa auga á. Mögulega hefði hann bæði verið greindur með bæði ofvirkni og athyglisbrest í dag. En um leið voru þessir tveir karlar stórmerkilegir. Þeir voru á réttum stað á réttum tíma. Þeir voru venjulegar manneskjur með sína galla, kosti og hæfileika. Og einmitt þess vegna held ég að þeir hafi verið valdir. Vegna þess að þeir voru í senn venjulegir og stórmerkilegir. Svona eins og við öll. Save me Síðustu vikur hef ég horft á nokkra þætti í nýrri bandarískri þáttaröð sem heitir “Save me”. Þessir þættir fjalla um Beth, eiginkonu og móður sem hefur misst sjálfvirðinguna. Hún drekkur of mikið, er búin að missa vinnuna, maðurinn hennar er kominn með viðhald og vill skilnað, dóttirin ber enga virðingu fyrir henni og fáar vinkonur halda enn tryggð við hana. Eina nóttina, þegar hún kemur heim eftir eftir mikið rall, glorhungruð, opnar hún ísskápinn og sér þessa dýrindis samloku með kjöti og grænmeti á efstu hillunni. Hún tekur samlokuna og byrjar að háma hana í sig af mikilli græðgi. En græðgin var aðeins og mikil og ekki vill betur til en svo að brauðið festist í hálsinum á henni og hún kafnar. Það næsta sem hún veit er að hún rankar við sér á gólfinu og finnur að eitthvað hefur breyst. Hún er sem ný útgáfa af sjálfri sér og er sannfærð um að hér hafi átt sér stað kraftaverk, að Guð hafi bjargað henni. Og hún er full þakklætis yfir því að vera á lífi. Daginn eftir vaknar hún hress og full af krafti. Hún er sannfærð um að Guð hafi ákveðið að bjarga henni og er harðákveðin í að gera nú það besta úr lífi sínu. Fjölskyldan hennar er, eins og gefur að skilja, ekki alveg með á nótunum og trúir ekki alveg á þessa breytingu. Fljótlega fer hún síðan að upplifa að Guð “tali” við sig. Hún fær sýnir og vitranir. Guð gefur henni ákveðin verkefni sem hún á að leysa. Flest eru þessi verkefni flókin og tilgangurinn með þeim ekki alltaf augljós en þau leiða ávallt til einhvers góðs. Beth er nokkuð viss, strax í upphafi, um að vitranirnar komi frá Guði. Guð vill að hún boði trú og hún fer að líta á sig sem spámann Guðs, útvalda af Guði. Hún fer yfirleitt að fyrirmælum Guðs þó oft sé það óþægilegt og jafnvel frekar neyðarlegt enda hefur hún ekki verið dugleg að rækta trúna fram að þessu og hegðun hennar ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Það kemur þó fyrir að hún neitar að hlusta á Guð og þá hefur það afdrifaríkar afleiðingar. Ef við skoðum viðbrögð Beth þá er hún ein af þeim sem taka kölluninni opnum örmum og reyndar af nokkrum húmor (sem gerir þættina þess virði að horfa á þá). Og hún efast aldrei um að þetta sé allt vilji Guðs. Það sem er líkt með henni og Páli og Pétri er að hún er ósköp venjuleg manneskja. Og meira að segja manneskja sem hefur hrasað nokkuð illilega og er kannski ekki þekkt fyrir að vera sú guðhræddasta. Því er hægt að ganga út frá því að höfundur þáttanna hafi einhverja þekkingu á útvalningu fólks í Biblíunni. Engin þessara útvöldu eru hinar fullkomnu manneskjur. Þessar sem alltaf hegða sér rétt og velja lífsmáta sem telst “fullkominn” hverju sinni. Það sama má segja um Jesú Krist sjálfan sem er manngervingur hins Guðlega hér á jörðu. Hann var ekki fullkominn heldur. Það kom fyrirað hann var dónalegur. Hann umgekkst ekki alltaf “rétta” fólkið. Hann fór ekki alltaf eftir settum reglum, braut jafnvel lög svo eitthvað sé nefnt. En í þessum þáttum má bæði segja að mennska hans og Guðdómur hafi birst. Hvað segir þetta okkur? Af hverju ætli Guð velji svona fólk? Getur verið að svarið sé svo einfalt að við séum öll svona? Að við séum öll ófullkomin á einhvern hátt? Og kannski einmitt svo fullkomin þess vegna?
Veldu mig Ég held að Guð sé alltaf að velja sér fólk til þess að aðstoða sig við að koma á Guðsríki, betri veröld þar sem allri sköpun líður vel. Aftur á móti held ég að við séum misjafnlega vel undir það búin að hlusta á þessa köllun. Ég held nefnilega að Guð neyði enga manneskju til þess að boða trú, vera spámaður eða klettur, gegn vilja sínum. Ég held að Guð hafi ekki neytt Pál postula til þess að gerast trúboði. Aftur á móti held ég að Páll hafi upplifað eitthvað sem breytti honum, þarna á leið sinni til Damaskus. Á sama hátt held ég að við getum öll orðið fyrir upplifunum sem breyta okkur og fá okkur til að sjá og skilja tilgang lífs okkar aðeins betur. Ef við viljum hlusta. Ef við opnum okkur. Þótt Guðdómurinn hljóti að vera magnað fyrirbæri þá hefur Guð takmarkanir. Guð getur ekki strokið þér um kinnina og sagt þér að þú sért fallegur. Guð getur ekki faðmað þig að sér og sagt þér að þú sért dugleg. Guð getur ekki horft í augu þín og sagt þér að þú sért elskuð bara vegna þess að þú ert þú. Til þess að geta þetta þarf Guð á fólki að halda. Til þess að þetta sé mögulegt þarf Guð á þér að halda. Og mér. Amen.