Prédikun flutt í sameiginlegri messu Garða- og Laugarnessókna:
Fyrir síðustu helgi var framlengt gæsluvarðhald yfir tveimur karlmönnum sem höfðu ruðst inn á heimili manns hér í borg, beitt hann grófu ofbeldi, fjötrað og keflað og þvingað út úr honum fé. Var framlenging gæsluvarðhaldsins útskýrð meðal annars með vísan til þess „hversu óþverralegt brotið var og jafnframt til að særa ekki réttarvitund almennings, með því að þeir gangi lausir.” (Fréttastofa Ruv)
Ofbeldi er óþolandi. Og misþyrmingar af því tagi sem þessi maður mátti þola renna öllu fólki til rifja. Líka vegna þess að maður veit að þegar sárin hans verða gróin og marblettirnir búnir að hreinsast þá mun hann að öllum líkindum sitja uppi með tilfinningalegan skaða sem illt er að bæta. Sumu fólki tekst að vinna úr ofbeldisreynslu og verða sterkara eftir en áður, en það er alls ekki alltaf svo. Ég þekki unga konu sem varð fyrir nauðgun. Þar voru líka tveir karlmenn á ferð sem réðust á hana og misþyrmdu henni. Mánuðir hafa liðið. Líkamlega er hún orðin heil, en hugurinn bara starfar ekki rétt ennþá. Hún nær ekki eðlilegum svefni og skelfingin hertekur hana aftur og aftur. Ofbeldi er óþolandi vegna þess að þjáningin sem af því hlýst er svo langvarandi og það eru ekki bara fórnarlömbin sem þjást heldur allir aðstandendur með. Það er enginn vandi að vinna fólskuverk. Það getur hvaða auli sem er beit aðra misþyrmingum, en það að lagfæra lífið í framhaldi af grimmdar- og heimskuverkum er annar handleggur.
Steinar bóndi í Hlíðum undir Steinahlíðum sem frá er greint í Paradísarheimt Halldórs Laxness var þekktur fyrir það að segja aldrei já. Og þegar honum var hótað þá skríkti í honum. Höfðingjar sveitarinnar, sýslumaðurinn og stórbóndinn Björn á Leirum, girntust það eina sem þessi fátæki bóndi átti. Það var hesturinn Krapi. „Veit ég vel að aldrei hefur þótt hæfa að fátækur maður ætti fríðan hest;” mælti Steinar við sýslumann sem þjarmaði að honum að selja sér hestinn. „enda skilst mér af þeirri sök séuð þið nú farnir heldur betur að gera að gamni ykkar við mig, blessaðir stórhöfðingjarnir. Og þá er að taka því vinur.” (Halldór Kiljan Laxness: Paradísarheimt, Helgafell, Reykjavík 1969, s.26)
Þá gerist það í sögunni að Steinar ríður til Alþingis því það er árið 1874 og Kristján konungur í þann mund að færa þjóðinni stjórnarskrá og í ljós kemur að erindi hans er það að gefa danska kónginum hestinn Krapa. Þá segir svo: „í Brennugjá, þar á Þíngvöllum sem áður var tíðkað að leiða menn á bál, hafði dálítill hópur bænda safnast saman í ljósaskiftunum þetta síðsumarskvöld daginn fyrir konúngskomuna” (s. 29)
Í raun er sagan Paradísarheimt rannsókn á manneðlinu og ekki síst þeim þætti þess sem lýtur lægst og hvernig við má bregðast. Og einmitt þarna á Þingvöllum þar sem bæði hjarta þjóðarinnar og samviska hennar slær velur skáldið frásögn sinni ramma; ofan í Brennugjá. Þar gerist sá atburður sem ræður mestu um framhaldið. Maður nokkur hefur tekið sér stöðu og heldur ræðu. Þar er á ferð Mormónatrúboði og takið eftir því hversu mikill hversdagur er í lýsingu hans á eftirfarandi ofbeldisverknaði: „Mormóninn klaungraðist ofan af steininum nokkuð stirðlega. Tveir eða þrír góðir bændur höfðu hönd á honum, þó ekki til að hjálpa honum niður, heldur til að taka hann í karphúsið. Þeir héldu honum á milli sín framaní hópnum svo hver sem vildi gæti geingið fram og veitt honum ráðningu. Einn stígvélaður heldrimaður kom og setti í hann fótinn. Annar góður maður kom og gaf honum sinn undir hvorn. Þar stendur nú maður ekki yfrið stórmannlegur til sýndar, og dálítið eins og illa gerður hlutur með svipu í hendinni. Það er gott að hér er svipa, sagði feitur gullsnúraður maður með hökutopp. Þú þarna rassmalagestur, lánaðu piltunum svipuna. Það vill nú svo til hahaha að svipan sú arna hefur mannsvit þó lítið sé meðan svo á að heita að ég haldi á henni, svaraði Steinar bóndi í Hlíðum og hló í falsettu.” (s.37)
Og þannig atvikaðist það að menn nenntu ekki lengur að berja Mormónann. Síðar í sögunni gengur Steinar með hnakkinn sinn austur í sveitina sína búinn að gefa kónginum hestinn. Finnur hann þá sama mann bundinn og keflaðan í alfaraleið en bændur sitja í kirkju og hlýða á messu. Þegar Steinar er búinn að leysa trúboðann sem hrækir út úr sér mold og blóði segir svo: „Steinar bóndi gerði vandlega upp reipið að hirðumanna sið og lagði það á miðsteininn. Síðan dustaði hann svolítið af mormóninum. Ég ætla ekki að segja mart, sagði bóndinn. Það mundi síst hækka mig þó ég færi að áfellast aðra menn.” (s.51)
Þannig lýtur reipið í hönd Steinars sömu lögmálum og svipan hans, það hefur mannsvit meðan hann heldur á því. Á sama máta gætir hann tungu sinnar og hefur sérstaklega varann á sér með það að segja nokkru sinni já. Okkur hættir til að Jesússa okkur yfir ofbeldisverkum, en sannleikurinn er nú sá sem líka birtist svo ágætlega í skrifum Nóbelskáldsins að ofbeldi er hversdagur. Og fyrsta skrefið í átt að einhvers konar nálgun við vandann held ég að hljóti að vera í því fólgið að viðurkenna algengi ofbeldis. Þess vegna er gott að mormóninn í sögunni er barinn á Þingvöllum í Brennugjánni okkar og svo skilinn eftir keflaður við kirkjugarð á meðan menn hlýða á messu eins og við gerum hér í dag.
Guðspjall dagsins, sjálf kristniboðsskipunin er mælt fram í andrúmi ofbeldisverka af því tagi sem hér ræðir. Það er hinn bundni og barði Kristur sem talar. Við munum að það fyrsta sem Jesús sýndi lærisveinum sínum þegar hann mætti þeim upp risinn voru sárin á líkamanum. Ég er nokk viss um það að þegar samstarfsmenn mannsins sem bundinn var og keflaður svo fólskulega núna í vikunni komu til að gá að honum af því hann hafði ekki skilað sér í vinnu og þrjótarnir flúðu bakdyrameginn þá hafi hann sýnt þeim áverkana. Ég þori að veðja að á meðan þeir biðu eftir lögreglu hafa þeir skoðað félaga sinn og hugað að sárum hans. Fyrsta skrefið í batanum er það að sitja ekki einn uppi með áverkana. Það að fólk sjái skaðann og viðurkenni hann og virði er það fyrsta nauðsynlega þegar búið er að bægja hættunni frá. „Þú hefur fengið skrollu í lagi, sagði Steinar í Hlíðum og hélt áfram að leysa manninn.” (s. 50) skrifar Halldór í sögu sinni er hann lýsir atburðum. Þannig gaf Steinar til kynna að hann gerði sér grein fyrir alvöru máls og Þjóðrekur, en það hét maðurinn og var biskup, mátti vita að hann væri ekki einn.
„Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,” segir Guð við okkur fyrir munn Jesaja spámanns í lexíu dagsins: „Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá flæða þau ekki yfir þig. Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér. Því að ég, Drottinn, er Guð þinn...[...] þú ert dýrmætur í augum mínum, mikils metinn og ég elska þig.” (Jes 43.1-7)
Svar Guðs sem birtist okkur í helgum ritningum og algengri reynslu er nálægð. Já. Svar Guðs er mannleg nálægð. Vinnufélagarnir sem stóðu áhyggjufullir á tröppum hússins í vikunni sem leið voru svar Guðs í lífi mannsins sem þolað hafði árasina. Steinar bóndi sem svo sparlega fór með jáið var jásvar Guðs í tilfelli Þjóðreks. Hið stóra svar kristinnar trúar við þjáningu og ranglæti í öllum sínum birtingarmyndum er maðurinn Jesús nálægur í vanmætti sínum. Ég er hér og þjáist eins og þú, er Guð að segja í Kristi Jesú. Ég er hér að þjást með þér og fyrir þig. „Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá flæða þau ekki yfir þig.”
Vinir mannsins sem fyrir árásinni varð gátu rétt eins hafa orðið fyrir skakkaföllum fyrst þeir létu sér ekki á sama standa um vinnufélaga sinn. Og hver veit nema þetta eigi eftir að kosta þá? Samt vitum við að þessir menn eru gæfumenn. Einmitt vegna þess að þeir láta einu gilda en styðja vin sinn eiga þeir meiri hlutdeild í raunverulegu lífi. Heilög ritning fellur að almennri reynslu í þessum efnum. Við lásum mörg um það í Fréttablaðinu í gær að tveir menn brugðust skjótt við og settu sig í hættu er þeir slökktu eld í húsi nágranna sinna í Kópavogi í sl. viku og vissu ekki nema um líf væri að tefla er þeir komu í veg fyrir stórtjón. Við skynjum gæfu þessara vösku manna eins og við skynjum ógæfu hinna tveggja sem nú sitja í framlengdu gæsluvarðhaldi. Ógæfa misynismannanna er ekki varðhaldið og ekki yfrvofandi dómur héraðsdóms eða hæstaréttar. Gæfa og ógæfa liggja dýpra í veruleikanum en lög og dómar ná til. M.a.s. almannarómur með öllum sínum skriðþunga gerir ekki gæfumun. Það er kristin vissa að enginn dæmir mig til ógæfu nema ég sjálfur og gæfu mína þigg ég ekki úr hendi manna. Hann hefði getað látið þeim eftir svipuna sína bóndinn frá Hlíðum, en á meðan hún lá í hendi hans þáði hún mannsvit. Þannig megum við halda vopnum okkar með skynsemi og í því trausti að gæfan er frá Guði komin. Hún er gjöf.
Svo er það eðli allra gjafa að við eigum þær ekki fyrr en við höfum látið þær frá okkur og afhent þær áfram eins og Steinar bóndi gaf hestinn sinn, vinirnir á tröppum mannsins endurguldu góða vináttu með því að gá að samstarfsmanni sínum og grannarnir í Kópavogi settu heilsu sína í óvissu við að slökkva elda hjá öðru fólki.
Biðjum því fyrir manninum sem varð að þola ódæðið og ekki síður fyrir ógæfumönnunu sem á hann réðust, því stærst er þeirra tjón.
Amen. Textar dagsins: Jes 43.1-7 Róm 6.3-11 Matt 28.18-20