Er hjónaband einkaeign gagnkynhneigðra?

Er hjónaband einkaeign gagnkynhneigðra?

Frumvarp sem felur í sér miklar réttarbætur fyrir samkynhneigða er nú í meðförum Alþingis. Af því tilefni hafa orðið nokkrar umræður um afstöðu þjóðkirkjunnar til hjónavígslu samkynhneigðra. Íslenska þjóðkirkjan er hluti af miklu stærra samhengi kirkjunnar um víða veröld. Engin kirkjudeild hefur enn stigið það skref að samþykkja hjónavígslu samkynhneigðra para.
fullname - andlitsmynd Sigrún Margrétar Óskarsdóttir
19. janúar 2006
Meðhöfundar:
Óskar Hafsteinn Óskarsson

Frumvarp sem felur í sér miklar réttarbætur fyrir samkynhneigða er nú í meðförum Alþingis. Af því tilefni hafa orðið nokkrar umræður um afstöðu þjóðkirkjunnar til hjónavígslu samkynhneigðra. Íslenska þjóðkirkjan er hluti af miklu stærra samhengi kirkjunnar um víða veröld. Engin kirkjudeild hefur enn stigið það skref að samþykkja hjónavígslu samkynhneigðra para. Í því ljósi telja sumir það glapræði af þjóðkirkjunni að taka afstöðu með hjónavígslu samkynhneigðra og fara þannig fram úr öðrum kirkjudeildum um víða veröld. Til þess þarf vissulega hugrekki og óskandi væri að það kæmi frá íslensku kirkjunni. Tíminn verður auðvitað að leiða í ljós hvort sú verði raunin. Enn sem komið er er þjóðkirkjan í íhugun vegna málsins og skoðar sjálfskilning sinn og mannskilning gaumgæfilega.

Vígsla eða bæn og blessun

Skiptar skoðanir eru um hvort samkynhneigð pör sem vilja blessun kirkjunnar yfir sambúð sína eigi að hljóta vígslu eða það sem kallað er bæn og blessun. Augljóst er að með bæn og blessun væri kirkjan að segja að sambúð samkynhneigðra sé ekki jafngild sambúð gagnkynhneigðra sem stendur vígslan til boða. Samkvæmt handbók íslensku kirkjunnar vígir kirkjan þjóna sína og hjón en einnig eru kirkjur vígðar og kirkjugarðar. Skip, flugvélar og hús eru hins vegar ekki vígð heldur blessuð sé eftir því leitað til kirkjunnar þjóna. Segja má að vígsla sé fyrst og fremst helgun, ákveðin aðgreining. Í vígslunni eru staðir eða manneskjur teknar frá til sérstakrar þjónustu. Ráðahagur er opinberaður fyrir Guði og mönnum, helgaður, innsiglaður og viðurkenndur.

Orð frelsarans

Hjónabandið er skikkan skaparans og á vissan hátt grunneining samfélagsins. En hefur Biblían að geyma nákvæma innihaldslýsingu á hjónavígslunni? ,,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.” Þessi orð frelsarans úr Matteusarguðspjalli, sem að hluta eru byggð úr texta úr fyrstu Mósebók, eru býsna skýr hvað varðar hjónabandið.

Bókstafsskilningur ekki vænlegur

Vandinn er hins vegar sá að ef við ætlum að nota ákveðin ritningarvers til að réttlæta það að vígsla eigi aðeins við um sambúðarform karls og konu þá verðum við líka að vera tilbúinn að fara alla leið. Kirkjunnar þjónar ættu þá að skella við skollaeyrum þegar talað er um hjónaskilnaði og harðneita að vígja fólk saman nema einu sinni ef þeir ætla að fylgja orðum Jesú í þaula. Svo er það líka gömul saga og ný að kirkjan endurskoði skilning sinn á Ritningunni vegna breyttra aðstæðna og nýrra uppgötvanna. Nægir þar að minna á sköpunarsöguna. Harður bókstafsskilningur á Ritningunni er ekki líklegur til árangurs og því hlýtur krafan að verða sú að skoða hvert mál út frá víðara sjónahorni. Góða leiðsögn þar gefur frelsarinn sjálfur. Fjölmörg dæmi um það hvernig hann nálgaðist manneskjuna, ekki síst þau sem höfðu orðið útundan, farið halloka eða voru sett til hliða í samfélaginu hlýtur að teljast góður vegvísir. Hann tók til endurskoðunar viðteknar hefðir og setti á þær mælistiku kærleikans og umhyggjunar. Við megum aldrei gleyma þessari mynd af frelsaranum, kjarkmiklum og blátt áfram gagnvart mönnum og málefnum samtíma síns.

Hver á hjónabandið?

Ekki verður séð hvernig vígsla samkynhneigðra kæmi til með að raska neinu af því sem kirkjan boðar um hjónabandið. Hluteild samkynhneigðra í hjónavígslunni kæmi þvert á móti til með að festa hjónabandið enn frekar í sessi sem stofnun og um leið vera viðurkenning á fjölbreytileika sköpunarverksins. Með því að helga ráðahag tveggja einstaklinga sem kjósa að lifa saman í gagnkvæmri ást, virðingu og trúmennsku væri kirkjan líka að sýna í verki viljann til að hlúa að fjölskyldunni. Kirkjan hefur beitt sér fyrir því að fólk sýni ábyrgð í lífinu og hún hefur líka mótmælt klámvæðingu í samfélaginu og því að kynlíf sé flokkað eins og hver annar söluvarningur. Kirkjan hlýtur því að fagna því þegar einstaklingar sem unnast kjósi að helga ráðahag sinn og gagnkvæman kærleika.

Enn er beðið

Þjóðkirkjan veltir enn fyrir sér eigin sjálfsskilningi og á meðan bíða samkynhneigðir. Það er ljóst að afstaðan til málefna skamkynhneigðra innan kirkju sem utan hefur tekið heilmiklum breytingum í rétta átt á síðustu misserum. Í umræðunni hefur komið fram að góðir hlutir gerist hægt og líka hefur verið bent á að í frumkirkjunni hafi tekið áratugi og jafnvel árhundruð að taka ákvarðanir. Við lifum á 21. öldinni, samgöngur og samskiptamáti hafa breyst. Við höfum flýtt okkur hægt. Niðurstöðu er að vænta á Kirkjuþingi 2007. Við skulum nýta tímann vel og halda heiðarlegri umræðu gangandi í kirkju og samfélagi. Það ber vott um styrkleika kirkjunnar að takast á við veruleikann laus við ótta og fordóma. Vonandi mun það sjást í verkum íslensku þjóðkirkjunnar gagnvart samkynhneigðum á næstu mánuðum og misserum.