En það bar til um þessar mundir...í þér

En það bar til um þessar mundir...í þér

Það er steikarilmur af jólaguðspjallinu! Jólin eru ekki aðeins minningaratferli um horfinn atburð, heldur varðar fæðingu nýs lífs í þér. Öll erum við á ferðlagi í lífinu. Jólin tengjast svo sannarlega þeirri ferð. Einu sinni á Floridaströnd, þegar lyktin af jólunum var fjarri, foreldrahúsin líka, og allt heldur önugt komu jólin með nýjum hætti. Hver eru þín jól? Hvernig væri að innlifast þeim að nýju?

1. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 4. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5. að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. 6. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. 7. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. 8. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, 10. en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: 11. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. 13. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: 14. Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

En það bar til um þessar mundir Þetta eru fyrstu orðin í guðspjalli jólanna, orð sem hljóma á hverjum jólum, einnig í bernsku okkar allra. Ég man það var steikarilmur af þeim og mér fannst þau glitra af einhverju yfirskilvitlegu himindufti, sem rann inn í ofurspennta óþreyju barnsins. Þegar orðin hljómuðu var skilum náð, þegar allt varð að einum samfelldum unaði, með ljósum, mat, pökkum, malt-og-appelsín blöndu og stíl hverrar tíðar. Þetta var ramminn og þú átt þinn. Hugsaðu til baka hvernig jólin voru á bernskuheimili þínu, spennan var þarna, jólagleðin, samskipti fólksins, leikritin öll æfð og iðkuð. María og Jósep á ferð upp í hálendið suður af Jerúsalem, upp til Betlehem, til að sinna borgaralegri skyldu sinni. Og þá varð sá heimsatburður að Jesús Kristur kom í heiminn. Eins og þau erum við einnig á ferðalagi, þegar við nýtum jólin til að vakna til bernsku okkar, draga fram ferðalag bernskunnar. Á hvaða ferðalagi ert þú? Kannski eru einhver ykkar nýkomin heim frá útlöndum. Önnur eru á förum. En öll erum við á einhverju ferðalagi í lífinu. Máli skiptir að sú ferð sé góð og gjöful. Og jólin tengjast þeirri ferð, skipta þig miklu máli.

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis þegar ég var við nám í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór eins og félagarnir suður á bóginn skömmu fyrir hátíðina. Leiðin lá suður til Flórída, eins langt og komist varð, til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að kasta af sér prófaham og teygja sig á ströndinni. Svo kom aðfangadagskvöld. Evrópubúarnir, leituðum einhverra jólamerkja. Við, þýskur félagi minn, vorum báðir jólabörn, hófum máltíð á góðu veitingahúsi kl. 6 á aðfangadagskvöldi. En þótt veitingastaðurinn gerði sitt, var alveg ljóst að það var eitthvað mikið ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við urðum hálfbeygðir eftir því sem á leið og héldum út í jólanóttina þegjandi. Við okkur blasti stór jólasveinn, Kláus, í rauðri múnderingu sinni. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna, skegg sveinsins og á snjóinn. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu, lak af okkur félögum og niður í malbikið. Allt fyrir bý, engin helgi, engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Eftir sat heimþrá og söknuður. En það bar til um þessar mundir... Við fórum heim á hótel og ég gekk niður í flæðarmálið. “Hvað er það í þessu öllu, sem skiptir máli?” tautaði ég. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu fallega þegar þeir ultu í fjöruborðinu. Völurnar eru eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðan mína. Var það virkilega svo að jólin væru aðeins möguleg í stemmingunni heima eða við ákveðnar aðstæður og í ákveðinni umgjörð? Eru jólin fyrir bí ef sú umgjörð er brostin? Að hún getur brenglast vita allir, sem hafa lifað í gegnum æviskil og lífsháttabreytingar af einhverju tagi. Eða varða þau eitthvað dýpra í okkur, ristir dýpra en plasthreinar eða spennustemming barnsins?

Jólalíðan

Flest eigum við ánægjulegar bernskuminningar frá jólum. Einstaka liðu óreglu, sem skilar vansælu, en öll eigum við jólalíðan fólgna innan í okkur. Hún er samsafn minninga og tilfinninga, sem tengjast hátíðinni og vaknar á jólum. Hvað sem hún gerir þér og hvernig sem þú ferð með hana er hún gluggi að þér og veruleika þínum. Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum og spyrja hvort það séu ekki fleiri gjafir! Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en eiga þó í glímu við tómleika og aðsteðjandi leiða. Þegar stormur aðventu og jólaundirbúnings líður hjá snjóar tilfinningum í logni jóla.

Hvað kemur til okkar þá? Við snúum okkur kannski að verkunum, þrifunum, leiknum og lestrinum. En hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það mig? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu?

Flestir fela í sér eitthvað af ófullnægðum draumi, tilfinningu fyrir að sumt mætti vera öðru vísi. Ástandið í fjölskyldunni mætti vera betra, við hefðum kannski getað unnið betur úr málum ársins, það hefði nú verið betra að geta gert þetta svolítið öðru vísi. Hver er þín ferð þessi jól?

Jól hinna fullorðnu

Stundum er sagt að jólin séu hátíð barnanna. En það er ekki nema hálfsannleikur, jólin eru fyrir alla, líka fyrir þig. Jól hins fullorðna geta verið engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn og háð barnaskap. Við eigum barnið í okkur en við eigum einnig aðrar þarfir. Og við megum gjarnan leyfa okkur að upplifa þarfir og jól með öðrum hætti en barnið. Við þurfum ekki lengur að upplifa komu Jesúbarnsins, sem endurfæðingu þess í sögunni, heldur að það komi og endurfæði okkur. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. En til að þú getir upplifað jólin í þeirri vídd og dýpt er mikilvægt að þú viðurkennir og skiljir stöðu þína og hvaða aðstæður skilgreina og móta þig. Það eru þeir þættir, sem stýra hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna, til þarfa þinna. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, það sem er að baki öllu ytra byrðinu, ramman utan um þig? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Í því eru jólin fólgin í þínum ranni. Ef þú telur að jólin séu aðeins hátíð barnanna getur verið, að þú takir þarfir þínar sem fullorðinnar veru ekki nægilega alvarlega. Þú ert óendanlega mikils virði og Guð vill koma til þín.

Vonbrigðin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West, jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitruðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá sem andi jólanna fór að tala, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans sá ég pabba við jólaborðið heima, hefja Biblíu á loft og síðan lesa: “En það bar til um þessar mundir ...” Svo kom sagan um boð keisarans, manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna af völlunum og englasöngva.

Umhverfi og hin innri fæðing

En það bar til: Hvað bar til? Einu gilti hvort einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám. Eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Fæðing Jesú hér - í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins hvarf og goðsagan féll. Umbúnaður jóla, atferli og aðstæður, gátu ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér. Þekkir þú einhverjar hliðstæður? Hefur þú orðið fyrir lífsháttabreytingum og farið úr einum kafla lífs í annan? Stundum er sorg og missir fólginn í þeim breytingum, en í nýjum aðstæðum er alltaf fólginn möguleiki þroska, nýrrar skynjunar og að nýr sjónarhóll opni nýja útsýn og innsýn. Getur verið að breyting sé nauðsynleg til að þroska verði náð? Hækjur sálarinnar þurfa stundum að hverfa til að við þroskumst. Lífið er breyting en jólin stöðug.

Við gefum gjafir af því okkur er gefið mikið af himnum. Við undirbúum veislu af því veisla himins er mikil. Við fögnum á myrkri tíð miðs vetrar því ljósið birtist að ofan. Við klæðum okkur í besta skart af því veislugesturinn er Guð himins og jarðar. Eða vantar hina himnesku forsendu fyrir jólahaldið? Getur verið að þar sé rótanna að leita, að jólin séu að vitja okkar innan frá?

Himnesk forsenda

En það bar til um þessar mundir, er ekki aðeins um horfinn atburð, sem við minnumst með endurtekningu, heldur varðar fæðingu nýs lífs í þér. Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þítt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist ferðafélagi þinn á lífsgöngunni.

En það bar til um þessar mundir... að Guð kemur í heiminn í þér.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Amen