Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi. Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann er að skíra og allir koma til hans.“Jóhannes svaraði þeim: „Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“
Sá sem kemur að ofan er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar eins og menn. Sá sem kemur af himni er yfir öllum og vitnar um það sem hann hefur séð og heyrt og enginn tekur á móti vitnisburði hans. En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans hefur staðfest að Guð sé sannorður. Sá sem Guð sendi talar Guðs orð því ómælt gefur Guð andann. Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum. Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum. Jóh 3:22-36
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Síðasta mánuðinn eða svo hafa dunið á samfélagi okkar auglýsingar frá hinum og þessum fyrirtækjum eða aðilum um ýmislegt tengt jólunum. Þær renna þó óneitanlega nokkuð saman. Þetta eru auglýsingar eins og; ,,Komdu þér í ekta jólaskap með okkur" ,,Renndu við og gerðu frábær kaup í sannkallaðri jólastemningu" ,,Áttu eftir að finna jólagjöfina? Þú finnur hana hjá okkur" ,,Hinir sívinsælu jólatónleikar verða haldnir í Hörpu fimmtudaginn 18. desember. Þú mátt alls ekki missa af þessu! Miðasala er hafin á midi.is" Hið geysivinsæla jólahlaðborð verður haldið þennan dag klukkan þetta, Skyrgámur verður á svæðinu" ,,Við komum með jólin til þín" ,,Þú getur varla haldið jól án þessarar vöru, hún er algerlega ómissandi um jólin".
Já, hvað er ómissandi um jólin? Okkur dettur kannski fyrst í hug eitthvað matarkyns. Það er ekki slæmt í sjálfu sér, við viljum helst hafa sama góða jólamatinn og sama meðlætið frá ári til árs, að ógleymdu malti&appelsíni, konfekti, mandarínum o.fl.. Því næst hugsum við kannski um hvar við viljum helst vera á jólunum og þá með hverjum. Það er heldur ekki slæmt. Flestir myndu sennilega svara að þeir vilji vera heima hjá sér með fjölskyldunni, aðrir með maka sínum í notalegheitum, einhverjir vilja kannski ekki vera á sama stað og síðast o.s.frv.. Eftir það hugsum við kannski hvernig við viljum halda upp á jólin, hvernig dagskráin skuli vera. Dagarnir í kringum jól eru nefnilega gjarnan skipulagðir að einhverju leyti. Matarboð þennan dag, möndlugrautur hinn daginn, jólamessan í kirkjunni eða útvarpinu, jólaföndrið, jólagjafakaup að ógleymdri jólahreingerningunni og þar fram eftir götunum.
Við hugsum um allt þetta því við viljum vissulega hafa allt fullkomið og gott á jólum, enda einn skemmtilegasti og fallegasti tími ársins. Við munum gjarnan eftir þeim hefðum sem tengjast jólum og viljum halda í þær því þær vekja með okkur góðar minningar um góða og fallega tíma.
En hverju viljum við breyta á jólum? Hvað viljum við hafa öðruvísi? Hér er kannski fátt um svör enda vilja kannski fæstir breyta út af vananum á jólum. Jólin koma jú alltaf, klukkan sex á aðfangadag. Það eina sem við getum gert þangað til er að undirbúa okkur á vissan hátt, ganga úr skugga um að allt sé nokkurn veginn tilbúið. Sá undirbúningur er kannski aðallega tvíþættur.
Annars vegar hinn veraldlegi jólaundirbúningur þar sem við gerum hreint og fínt, finnum til jólamatinn, jólagjafirnar o.s.frv.. Kannski kíkjum við á jólatónleika eða kíkjum á jólahlaðborð. Allt til að gera reiðubúið fyrir komandi gleði og hátíð ljóss og friðar.
Hins vegar er það hinn andlegi undirbúningur. Það eru kannski færri sem spá í þessu. Hér hugsum við um hina djúpu merkingu barnsins í jötunni og komu þess í heiminn og hvað sá atburður merkir í raun og veru fyrir mig og þig. Aðventan er einmitt kjörinn tími til að spyrja sig: ,,Hvað vil ég virkilega?" og ekki síður: ,,Hvað vill Jesús mér?".
,,Hann á að vaxa en ég að minnka" þetta eru orð guðspjallsins í dag, með þekktari orðum trúarinnar ef svo mætti segja, sem þó eru ekki eignuð Jesú heldur Jóhannesi skírara. Guðspjall dagsins er eitt af fáum guðspjallstextum þar sem Jesús er ekki beinlínis virkur þátttakandi. Jóhannes skírari er aðalpersóna guðspjallsins en hann talar samt um Jesú. Jóhannes er greinilega auðmjúk persóna og veit mæta vel að hann hefur minna hlutverki að gegna en Jesús þrátt fyrir að hann gerði verk hans og væri ,,sendur á undan honum" eins og hann orðar það sjálfur. Við finnum fyrir því að hann verður ekki afbrýðisamur, dettur það ekki einu sinni í hug þrátt fyrir að allir væru að fara frá Jóhannesi til Jesú. Menn koma m.a.s. hálfpartinn til að hugga hann en Jóhannes segir að ekkert sé í raun og veru að. Hann veit að hann gegnir minna hlutverki en Jesú, hann væri einungis stafkrókur í hinni viðamiklu sögu Jesú Krists. Hann er ekki stærilátur og veit að mátturinn og dýrðin er Guðs. Því er vel hægt að hugsa sér að honum hafi hreinlega liðið vel og hafi jafnvel brosað þegar hann sagði ,,Hann á að vaxa en ég að minnka".
Í dag er stysti dagur ársins. Opinberlega er hann u.þ.b. fjórar klukkustundir og nú eru rúmar 78 klukkustundir þar til klukkan slær sex á aðfangadag. Nú fer daginn að lengja og það styttist í jólin. Aðventan sem nú fer að renna sitt skeið á enda er vissulega tími mikillar eftirvæntingar en einnig tími mikils undirbúnings. Ég legg til að undir lok aðventunnar hugsum við hvað það sé sem við virkilega þráum nú á jólum og ekki hvað síst í kjölfar þeirra. Hvernig hvert og eitt okkar mun taka á móti litla barninu þegar það kemur í heiminn og hvernig við munum meðtaka boðskap þess svo sómi sé að.
Ég tel að þar spili auðmýkt og þakklæti stórt hlutverk. Jú, einkasonur Guðs kom í heiminn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Mikil dýrðargjöf er eilífa lífið, gjöf Guðs handa okkur en hún þýðir það að líf okkar er einn stór sigur þar sem allir gleðjast. En hún krefst þess líka að við vinnum verk ljóssins, breytum samkvæmt boðskap Krists og að við sýnum Guði þakklæti. Ég held að það sé það minnsta sem við getum mögulega gert.
Því skulum við minnast þess nú þegar nær dregur jólum hve Guð er góður, lofum hann og þökkum honum fyrir gjöf hans. Breytum eins og Jesús vill að við breytum, sýnum kærleika í verki og þjónum öðrum mönnum samkvæmt hans vilja, okkur og samfélaginu öllu til heilla. Með öðrum orðum: Látum hátíð ljóss og friðar vera alla daga, allt okkar líf því það vill Jesús okkur, það er ómissandi á jólum og í öllu lífi kristins manns og samfélags
Sr. Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur sagði í jóladagatali kirkjunnar í fyrra sem bar yfirskriftina Koma kærleikans. ,,Innsta eðli kærleikans er að leiða sundraða saman. Brúa bil og ryðja í burtu hindrunum. Það er augljóst þegar við þiggjum og gefum hvað það er sem skiptir mestu máli og þess vegna er svo stórkostlegt að Guð skuli velja einmitt þessa leið að hjarta mannsins í litlu barni í lágum stalli. Varnarleysi þess brýtur niður varnirnar í okkur algjörlega orðalaust."
Við skulum því láta kærleika og þakklæti vaxa á meðal okkar en sundrung og stærilátum að minnka.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.