Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“ Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ Guðspjall: Lúk 11.14-28
Það er talað um illa anda í guðspjallinu. Oft og víða í Biblíunni eru illir andar að herja á lífið. Hinir ýmsu sjúkdómar, kvillar, kenndir, hugðir og duldir hafa fengið nöfn síðar. Líkingamálið er hins vegar mjög athyglisvert og hefur ekki orðið úrelt. Prófum að setja orðasambandið “neikvæðar hugsanir” inn í staðinn fyrir illa anda. Enginn rekur út neikvæðar, illar hugsanir, með neikvæðum, illum hugsunum. Enginn er glaður, hamingjusamur, eftir skipunum annarra. Þú getur ekki rofið vítahring ofbeldis með ofbeldi. Allt virðist það virka sem spírall niður á við. Það dregur úr lífsánægjunni. Í rauninni er samtími okkar töluvert upptekinn af neikvæðni. Stundum finnst mér líka tilfinnanlegur ruglingur með hugtök. Niðurrifsstarfsemi og illkvittni er stundum sögð vera gagnrýni, jafnvel heilbrigð gagnrýni. Og stundum finnst mér engu líkara en að hið illa sé sífellt að sigra hið góða. Guðs góða sköpun fest í viðjar nöldurs, naggs og þrætu. Mér er hugstæð líking Tékkans og snillingsins, Kafka. Honum svipar til H.C. Andersens í snjöllum og einföldum líkingum. E.t.v. þekkið þið þessa sögu en ekki sakar okkur að fara rifja hana upp: Það var einu sinni óhamingjusamur maður, sem sendi bænarbréf til keisarans. Hvert kvöld þegar sólin hneig til viðar sat maðurinn við gluggann sinn og lét sig dreyma um frelsi. Fyrir innri augum sínum sá hann litróf lífsins brjóta sér leið með sólargeislunum inn í dimman fangelsisklefann. Eftir að hafa sent bréfið beið hann eftir svari frá hans keisaralegu hátign. Og það leið og beið. Á æðstu stöðum var bréfið móttekið og lesið og keisarinn útbjó sjálfur svarið, sannarlega gleðiboðskap manninum, svar sem ætti eftir að gjörbreyta lífi hans. “Þú skalt hér með vera frjáls með öllu. Engar sakir eða sektir skulu á þig bornar.“ Keisarinn sendi ritara sinn með frelsisbréfið sem þýddi nýtt líf fyrir hinn óhamingjusama innan við múrveggi fangelsisins. Og sendiboðinn lagði strax af stað því að ekki var ástæða til að láta skilaboðin dragast lengur en þyrfti. Og það er líka svo gaman að flytja ánægjulegar fréttir. En hann mætti strax hindrunum og erfiðleikum. Á ganginum fyrir framan hjá keisaranum mætti hann hirðfólki keisarans, aðstoðarmönnum, deildarstjórum, hirðmeisturum, siðameisturum og fulltrúum. Allir þurftu þeir að skoða skjalið með þessum afdráttarlausa frelsisboðskap. Og þeir þurftu að ráða í merkingu þess. Hvað þýðir þetta? Hvernig ber að skilja þetta skjal? Hvað er keisarinn að meina nákvæmlega, í reynd? Getum við verið viss um að skjalið sé ófalsað? Er þetta nokkuð annað en samsuða einhvers draumóramanns og ritað í nafni keisarans? Þetta er ekki rétt boðleið með náðunarskjöl. Hvar er umboð þitt til að fara með þetta skjal? Af hverju vissum við ekki af þessu áður? Þú verður að fara aftur til keisarans og fá umboð og skýrari fyrirmæli. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir að nákvæmlega þetta sé vilji keisarans. Þannig gekk það til. Framkvæmdin, ferlið, var ekki rétt. Það varð aðalatriðið. Enginn tók hins vegar til við að gleðjast yfir efni bréfsins og þýðingu þess. Sendiboðinn var í fyrsta lagi lengi að olnboga sig út úr höllinni því að allt var fullt af fólki sem var visst í sinni sök. Það sneri boðskapnum jafnvel á hvolf, túlkaði hann, misskildi hann og breytti honum. Alltaf var umhverfis hann fólk sem þurfti að tjá sig um skjalið og tjá skoðun sína á boðskapnum. Þannig hindraði það að hann kæmi að því gagni sem hann sannarlega var hugsaður til. Tíminn leið, langur tími, alltaf var fólk að krefjast skýringa: Sýndu okkur skjalið! Hver er merking þess? Endursegðu efni þess. Aðrir slógu því svo alveg föstu að skjalið væri tilbúningur, hrein og klár móðgun fyrir allar rétthugsandi manneskjur! Of ótrúlegt til að vera satt! Að síðustu var handagangurinn orðinn svo mikill að bréfið var hrifsað af sendiboðanum og það skemmt og varð síðan svo illlæsilegt að enginn vissi orðið til hlítar hvað hafði í rauninni staðið í bréfinu frá keisaranum. Á meðan sat maður hvert kvöld þegar sólin hneig til viðar innan við gluggann sinn og beið eftir svari. Mér finnst þetta sorgleg saga. Hún er um málalengingar og þæfing, sem engu kemur til leiðar – það sem leggst jafnvel þvert gegn umbótum og hamingju. Þar sem allt er fast í þrætum og stympingum. Það er gömul saga og ný. Þannig eru einatt móttökurnar við orði Guðs. Við sjáum þær í samtímanum, við sjáum þær í Biblíunni. Eyðimerkurganga Hebreanna forðum stóð yfir í 40 ár. Vitið þið hvað meðalmaður er lengi að ganga þá leið sem Ísrealsmenn fóru á 40 árum? Ef þið hafið ekki hugleitt það verðið þið sjálfsagt hissa. Með hæfilegum dagleiðum tekur gangan 11 daga. Það getur gefið okkur tilefni til að hugleiða með sjálfum okkur. Eyðum við kannski árunum okkar í slíkt stefnulaust ráf? Tökum við ekki skrefin sem þarf að taka, stefnum við ekki ákveðið? Þannig má hugsa um líf sitt. Ég er líka viss um að við getum átt betra þjóðfélag, samfélag, en við búum við. Sem betur fer eru nú til ýmis lyf við sjúkdómum, sem voru kallaðir „illir andar“ áður fyrr. En þjóðfélag okkar hefur ekki fengið slíka lækningu – nema síður sé. Þar þarf betra, fegurra hugarfar og samskiptaleiðir. Engin lyf duga gegn þeim samskiptamáta sem við látum sýra, særa og skemma. Ofbeldi kallar á ofbeldi – illar hugsanir kalla á illar hugsanir. Það getur allt orðið sjöfalt verra eins og í guðspjallinu. En Guð er í grennd, sterkari, máttugri. Kærleikurinn hans rýfur vítahringinn. Að hafa hann í huga, vita hann næstan sér, finna kraft kærleika hans í lífi sínu, það hjálpar okkur til ljóssins í ríki hans á jörð. Í pistlinum segir postulinn:„Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.” Þar í liggur lausn mannsins og heimsins. Þannig má losna úr neikvæðu hugsanaferli. Að iðka trú sína á grunni þess frelsis sem við höfum fengið. Frelsisskjalið er til. Það þarf bara að taka mark á því, leyfa sér að trúa því – og skynja það að Guð er næstur okkur.