Hvítasunna á köldu sumri, kærkomin hátíð lífsgleði og gróanda, hátíð heilags anda. Lífsafl sumarsins er eins og mynd afls og áhrifa heilags anda. Það er andinn sem er sköpunarmátturinn sem glæðir lífi, vermir hið kalda og vekur þrótt. Andardráttur þinn er þaðan runninn, af þeim anda sem Guð blæs okkur í brjóst, lífsins anda.
Við þekkjum anda afskiptaleysis og kæruleysis, sundrungar og haturs, kulda og kæruleysis, anda tortryggni, illgirni og illsku. Hann sækir að. Engum líður vel í slíkum kulda. Við þekkjum líka það sem er andlaust, þá er átt við eitthvað sem er flatt og yfirborðslegt, grunnhyggið og líflaust. En dýpst skoðað er ekkert líf án anda. Í guðspjöllunum er varað við því að þegar illur andi er rekinn út komi gjarnan sjö aðrir sýnu verri og fylla það tómarúm sem eftir situr. Nú er rekinn áróður fyrir því að framar öllu eigi að fægja og sópa burt úr skólum og stofnunum samfélagsins öllu sem andlegt er, í merkingunni trúarlegt, framar öllu kristið. Sé því sópað burt situr ekki eftir hið víða og hreina samfélagsrými þar sem allir njóta sín. Nei, því miður, það er blekking. Af því að manneskjan er líkami, sál og andi.
Það skiptir sköpum fyrir einstaklinga og samfélag að einstaklingurinn láti hinn góða anda hafa áhrif á líf sitt, og beini hugsun sinni á brautir hins góða, fagra og sanna. Annars verður kalt í heiminum okkar. Það gagnar ekki að forðast hið illa og flýja hið vonda, mestu varðar að fylla huga sinn og hjarta af hinu góða.
Njótum gleðilegrar hvítasunnu í gleði yfir hlýjum og björtum anda hins góða, sem vill fá að anda á þig elsku sinni, vekja og verma líf okkar og heim að heimurinn hlýni og hjörtun okkar með. Gleðilega hátíð