Innan skamms mun sérstök rannsóknarnefnd á vegum stjórnvalda skila skýrslu sinni. Niðurstöður hennar þekkjum við ekki á þessari stundu en flestir búast við að efni hennar muni m.a. að varða það siðferði sem ríkt hefur í íslensku samfélagi á undangengnum árum, með sérstakri áherslu á viðskipalífið. Spurning mín í þessum pistli er: hvernig hugsum við um siðferðið?
Í vestrænni menningu hafa hugmyndir um lög og rétt mótað skilninginn á siðferði. Líkt og lögin höfum við mörg þá mynd að siðferðið fjalli um ákveðin viðmið og reglur sem manneskjum sé gert að hlýða. Margs konar skoðanir eru uppi varðandi það hvað knýji manneskjur til þess að fylgja siðrænum viðmiðum og reglum. Meðal þess sem oft er nefnt er óttinn við vanvirðingu eða útskúfun meðborgaranna, þ.e. óttinn við refsingu líkt og þegar um lögbrot er að ræða. Önnur skýring á því hvers vegna manneskjur haldi sig við siðræn viðmið og reglur er sú að innhverfing og uppeldi geri þeim það eiginlegt.
Þessi algengi skilningur málar upp mynd af siðferðinu sem væri það skynsamlegt regluverk sem geri það mögulegt fyrir fólk að lifa saman í samfélagi á skipulegan og æskilegan hátt. Þau siðferðilegu vandamál sem upp kunni að koma í samfélaginu, má samkvæmt slíkum skilningi meðhöndla með því að vísa til algildra siðfræðilegra kenninga þar sem útlistað er hvað sé rétt og rangt og einstaklingar hvattir til að láta slíkar kenningar mynda grundvöll að réttum gjörðum.
Vissulega er eitthvað til í þessum skilningi á siðferði en ég efast þó um að ofangreindar skýringar,t.d. á því hvað knýji manneskjuna til siðferðilegra athafna, séu nægjanlegar góðar. Ef ótti um útskúfun og vanvirðu er það sem knýr fólk til siðferðilegra athafna, getum við þá kallað það siðferði? Ef við segjum satt vegna þess að við erum hrædd við að afleiðingar þess að ljúga verði óþægilegar fyrir okkur, er það þá heiðarleiki?
Ef við lítum á mannlífið eins og það birtist þá er það ljóst að margs kyns ólíkir hvatar hafa áhrif á siðræna hegðun fólks. Við erum trúlega ekki annað hvort góð eða slæm í framkomu okkar heldur fremur bæði og. Ýmist sýnum við hugrekki eða hugleysi, miskunn eða miskunnarleysi, kærleika eða kærleiksleysi. Einn daginn erum við full réttlætisástríðu, næsta dag ræður eiginhagsmunasemin ríkjum. Eigingirni stýrir ekki nauðsynlega slæmum gerðum heldur fremur fórnfýsi eins og sjálfsmorð hryðjuverkamanna eru dæmi um. Þá er heldur ekki alltaf auðvelt að skera úr um hvað sé kærleiksverk og hvað ekki.
Það er niðurstaða mín að skynsamlegt sé að líta til hins samsetta og flókna manneðlis fremur en að einfalda og smætta hlutina og það sama eigi við um siðferðið. Það sem geri manninn að siðferðilegri veru sé mun flóknara en það að fylgja siðferðilegum viðmiðum og reglum sem væru þau ytri og ógnandi krafa. Slíkur mann- og siðferðisskilningur tekur tillit til reynslunnar af því hvernig maðurinn birtist í raunveruleikanum og næmari túlkunar á því.