Hér er hægt að horfa á prédikunina á Youtube.
“Nei! Ekki hann! Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast! Þetta kemur bara fyrir aðrar konur. Hvað get ég sagt við hann. Hvernig get ég róað hann? Elskan, gerðu það hættu! Ég skal aldrei aftur...fyrirgefðu!
Þetta getur ekki verið að gerast.
Ef ég bara reyni að fá hann til að sleppa takinu um hálsinn á mér áður en honum tekst að kyrkja mig. Já, og áður en hann sér hnífinn á borðinu. Hann ætlar að ná í hnífinn! Nei, hann tekur ekki eftir honum. Nei, jú! Hann sér hnífinn. Hann tekur hann upp!
Hann hefur losað takið um hálsinn á mér. Hann heldur í peysuna. Ef mér bara tekst að smeygja mér úr henni. Ég fer úr peysunni áður en hann áttar sig á hvað er að gerast.
Það tókst! Ég er komin út! En barnið er inni!
Ég þarf að fá hjálp. Ég þarf að komast í síma og fá hjálp. Á ég að hringja í lögregluna? Æ, ég er bara á brjóstahaldaranum og sokkabuxum. Úff, og ég er öll í blóði. Það tekur enginn mark á mér svona með blóðið lekandi úr höfðinu. Fólk heldur örugglega bara að það sé eitthvað rugl á mér. Ég get ekki skilið barnið eftir! Hvað á ég að gera?
Ef ég hringi á lögguna þá fá allir að vita hvað gerðist og ég vil ekki að fólk missi álitið á honum. Hann er góður maður. Bara ekki þegar hann er fullur. Bara ekki þegar hann er reiður.
Mér er svo kalt. Barnið er inni. Hann gerir barninu ekkert. Það er ég alveg viss um. Ef ég bara bíð hér þar til hann sofnar. Ef ég bara bíð hér þar til hann sofnar og fer þá inn og næ í barnið. Ég bíð bara hér. Ég bíð bara. Ég bíð...”
---------------------------------
Þetta gerðist fyrir 20 árum. Þetta gerðist fyrir 2000 árum. Þetta gerist í dag.
Ég verð svo reið þegar ég les um það sem gerðist í aldingarðinum í Eden, sérstaklega þegar ég les um refsingu Guðs á Evu, Adam, snákinum og sköpuninni allri. Ég myndi helst vilja rífa þessar blaðsíður úr Biblíunni. Þær eiga ekki heima þarna. Ég myndi vilja skrifa greinar og bækur um það hvers vegna þessar blaðsíður eiga ekki heima þarna.
Ég trúi ekki á Guð sem óskar konunni þjáninga og vill að karlinn drottni yfir konunni.
Ég trúi ekki á Guð sem lítur undan þegar manneskja er beitt ofbeldi.
Og ég trúi ekki á Guð sem bölvar sinni eigin sköpun.
Hvað get ég gert? Ætti ég að láta sem þetta sé ekki í Biblíunni? Ætti ég að rífa út allar blaðsíðurnar sem mér líka ekki og skilja aðeins eftir þær sem mér líkar? Þá fengi ég miklu betri Biblíu...fyrir mig. Ætti ég að brenna Gamla testamentið? Það er svo margt óþægilegt í því.
Ég gæti líka útskýrt fyrir fólki að Guð hafi reyndar ekki meint þetta svona, að þetta sé bara ljóðræn lýsing á trú einhvers fólks sem var uppi fyrir þúsundum ára og vissi svo lítið um heiminn...og Guð.
Nei, það er ekki nóg.
--------------------------
Hvort sem mér líkar þessi saga eða ekki þá er hún um mig og hún er um þig. Þetta er ein af sögunum um lífið okkar. Þetta er saga um það hvernig það getur verið að vera manneskja.
Getur verið að paradís hafi alls ekki verið góður staður fyrir okkur? Að við þurfum að læra muninn á góðu og illu? Að við þurfum að þekkja hvaða fólk vill okkur vel og hvaða fólk vill okkur ekki vel? Að við þurfum að þroskast?
Konan sem var lamin af manninum sínum fyrir tuttugu árum fór frá honum að lokum. Hún fór ekki strax. Það tók hana nokkur ár að safna kjarki til þess að yfirgefa manninn sem vildi stjórna henni.
Þegar hún loksins fór var það vegna þess að hún hafði öðlast þá þekkingu sem hún þurfti til þess að skilja að það var í lagi að yfirgefa manneskjuna sem hún hafði eitt sinn lofað að elska í blíðu og stríðu. Hún þurfti þennan tíma til að skilja að það var ekki hún sem braut sáttmálann. Hann var brotinn fyrir löngu síðan. Hann var brotinn við fyrsta höggið og ekki af henni.
Hún bjargaðist vegna þekkingarinnar. Þekkingarinnar sem Guð hélt ekki frá okkur í aldingarðinum Eden eins og Guð hefði getað gert. Guð hélt okkur ekki nauðugum í aldingarðinum. Við áttum val því Guð vildi að við hefðum frálsan vilja.
Þessi kona stendur styrkum fótum í dag, blessuð af Guði sem elskar sköpun sína svo heitt að Guð gaf henni frjálsan vilja.
Og það er Guð sem ég trúi á. Ég trúi ekki á Guð sem lítur undan. Ég trúi á Guð sem gaf okkur þekkinguna fyrir Evu sem hafði hugrekki til að taka fyrsta bitann af raunveruleikanum. Amen.
Hlustaðu á prédikunina hér