Jólin eru hér, aðfangadagskvöld er senn á enda og handan við hornið einn af þremur helgustu dögum kirkjuársins. Við minnumst þess að ljós Guðs kom í heiminn í litlu barni. Og þetta ljós er engu öðru ljósi líkt, því er ætlað að upplýsa hvern mann.
Jesús fæddist inn í þetta líf og óx úr grasi í faðmi fjölskyldu sinnar, líkt og við gerum flest. Hann upplifði elsku foreldra sem lögðu honum lífsreglur líkt og sérhver kynslóð hefur gert frá örófi alda. Lífshlaup Jesú var þó frábrugðið okkar að því leyti hvernig hann lifði kærleikanum. Megi lífshlaup hans verða til að upplýsa sérhvern mann!
Líf í kærleika er ávallt hér og nú, í sannleikanum og ekkert hatur kemst þar fyrir, hvorki gegn öðrum né sjálfum þér. Jesús leggur áherslu á að þú berir virðingu fyrir lífinu þínu, elskir það af hjartans einlægni og í þakklæti. Ef þú hins vegar ætlar að beygja þig lífið þitt, trú eða sið undir hina, þá berðu ekki mikla virðingu fyrir sjálfum þér. Þetta sýndi Jesús okkur í verki. Hann lagði annars vegar áherslu á boðunina á meðal þeirra sem voru heiðnir og höfðu aldrei fengið fræðsluna og hins vegar á meðal þeirra sem höfðu lært sitthvað um Guð, farið villur vega en sýndu boðskapnum samt áhuga. Þá sem ekki vildu á hann hlýða, hunsaði hann algerlega og hvatti nemendur sína að gera slíkt hið sama. Hann vissi sem var að suma borgar sig ekki að ræða við, því allt hefur jú sinn tíma.
Og boðskapurinn var ótrúlega einfaldur. Eignaðu þér hið guðlega, kærleikann! Jesús lifði kærleikanum alla leið til hinsta andvarps á krossinum. Umburðarlyndi, auðmýkt, sannleiksást, kyrrð, lotning og innri friður einkenndu líf hans. Við þörfnumst þess inn í tíðaranda dagsins að halda þessum gildum á lofti.
Með einhverjum hætti er líferni okkar frábrugðið líferni Jesú. Í samanburðinum verðum við alltaf smærri. En með samanburðinum einum sjáum við að Jesús var enginn venjulegur maður, hann bar hið guðlega inn í þennan heim með sérstökum hætti.
Á mærum hins fyrsta sólarhrings í lífssögu Jesú er því sannarlega við hæfi að hugleiða hvaða erindi saga hans á inn í líf okkar. Við getum kosið að líta á söguna sem hindurvitni, gamla goðsögu eða bara tekið hana eins og hún stendur. Þetta er nefnilega í reynd afskaplega einföld saga um líf sem opnar okkur leið að Guði. Með lífssögu Jesú, blæs Guð okkur kærleikanum í brjósti. Þau sem teygja sig í áttina til Jesú, teygja sig um leið í áttina til uppruna síns, Guðs. Með fæðingu Jesú, hvíslar Guð í eyra þitt: ,,Já, ég þekki þig. Innst hið innra með þér er ég. Staldraðu við, líttu þér nær og þú munt finna að ég er!“
Jesús var mjög ungur þegar hann fann þennan sanna hljóm Guðs og manns. Þegar í bernsku hafði hann tileinkað sér ljósið og lærði að það var ekki aðeins að finna yfir og allt um kring, heldur einnig hið innra. Ljósið er uppruni alls, hið lifandi afl sem hreyfist án afláts, jafnt í móðurljósinu sólinni, sem í innsta kjarna frumu þinnar. Allt er það eitt og rennur frá sömu verundinni. Jesús vissi þetta, lifði þessari þekkingu sinni fram í fingurgóma. Hann spurði ekki um húðlit eða kyn, aldur eða stétt, hann vissi sem var að allt er frá sömu uppsprettu runnið. Allt er eitt. Eitt upphaf, ein eilífð, eitt líf, einn Guð. Jesús er guðseindin í þér og mér!
Erindi Jesú inn í okkar annasama líf er að við könnumst við smæð okkar, hvernig lífið hvílir á sama tíma í sprengikrafti upprunans og í þögn eilífðarinnar. Einmitt núna er upphaf okkar og endir. Akkúrat á þessari stundu er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir. Þar erum við varla meira en laufblað á grein. Laufblað sem bíður þess að falla til jarðar, búið að skila sínu á lífstrénu. Já, jafnvel þótt við upplifum okkur sljó í hugsun eftir lystisemdir kvöldsins eða slitin og þreytt af álagi og erli daganna, jafnvel þá er sköpunarverkið á hreifingu frá eilífð til eilífðar og við ekki nema sandkorn í því risastóra tímaglasi.
Jesús á erindi við okkur. Lífssaga hans kennir okkur að staldra við, gefa okkur þögnina, stíga innar, nær hinu skapandi ljósi og hleypa því fram. Með lífi sínu kennir hann okkur að vera ljósið mitt í tímanns straumfljóti og það eina sem við þurfum að gera til að viðhalda því ljósi, er að leggja við hlustir þegar Guð ljáir okkur orð í eyra. Sagan er þegar sögð og stendur skrifuð hjá Jóhannesi, hún er uppspretta guðseindarinnar, hún ómar dag hvern djúpt við hjartarætur okkar, en aldrei eins skær og einmitt á þessari nóttu:
,,Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ Jóh.1: 9.