Hann er ekki hér, hann er upp risinn

Hann er ekki hér, hann er upp risinn

Okkur býðst nýtt upphaf… nýtt líf í Ríki Guðs… eina skilyrðið er að við trúum á “upp risinn Jesú Krist”.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
12. apríl 2020
Flokkar

 Stuu hugleiðing á tímum Covid-19                             1Kor 5.7-8,  Mrk 16.1-7 

Guðspjallið sagði að konurnar hafi gengið að gröfinni með ilmsmyrsl til að smyrja líkama Jesú. Þær voru vissar um að hann væri þar… en engillinn sem var inni í gröfinni sagði við þær: Hann er upp risinn, farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“  Jesús hafði sagt að hann myndi rísa upp… en hversu heitt sem menn vildu trúa, þá hefur þetta verið ofvaxið þeirra skilningi…

Páskadagur, er dagur upprisunnar. Hann boðar nýtt upphaf, hann er uppfylling spádóms sem sannaði að Jesús er sonur Guðs og þess vegna Guð… og enginn nema Guð getur sigrað dauðann… Allan tímann sem Jesús gekk hér á jörðu, þá boðaði hann Ríki Guðs… Ríki föðurins á himnum… það er það sem fagnaðarerindið snýst um

Okkur býðst nýtt upphaf… nýtt líf í Ríki Guðs… eina skilyrðið er að við trúum á “upp risinn Jesú Krist”.
Ég lifi og þér munuð lifa…sagði Jesús og…  Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi… Það er í þessu fyrirheiti sem hinn kristni maður hvílir…fyrirheiti sem fullvissar hann um að hann fái aðgang að ríki Guðs. Guð reisti Jesú upp frá dauðum og hann hefur lofað að reisa þá upp sem trúa á hann.

 Áður en Jesús hóf starf sitt, skírðist hann í ánni Jordan. Niðurdýfingarskírnin er táknmynd þess… að þegar líkaminn er hulinn vatninu deyr hinn gamli maður og nýr maður stígur upp… þegar Jóhannes skírari skírði menn, sagði hann: takið sinnaskiptum… þ.e.a.s. takið upp nýtt hugarfar… því, trúin á að umskera hjörtu okkar, hún á að hafa áhrif á hugsanir okkar og gjörðir, gera okkur að nýjum og betri manneskjum… manneskjum sem bera kærleika Guðs, merki… eða eins og Kristur sagði: Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.

Dæmisögur Jesú byrjuðu oft á þessum orðum: líkt er himnaríki og ,,maður sem sáði góðu sæði í akur sinn”… eða mustarðskorni…súrdeigi… fjársjóði... kaupmanni sem leitaði að perlum… eða neti lagt í sjó…
Sögunum um himnaríki var ætlað að fanga athygli manna í hinum ýmsu starfsstéttum.

Bóndinn, kaupmaðurinn, sjómaðurinn eða húsmóðirin með súrdeigið…  áttu auðvelt með að setja sig inn í söguna… og Himnaríki mun veita öllum skjól.. eins og tréð sem óx upp af mustarðs-korninu sem er minnst allra fræa og Orð Guðs eru hinar dýrustu perlur, hinn dýrasti fjársjóður. Við höfum allt að vinna til að Himnaríki verði okkar síðasti áfangastaður.

Í skírninni erum við merkt Kristi, í fermingunni er heitið staðfest… já, ég vil gera Jesú Krist að leiðtoga lífs míns… Við höfum síðan allt lífið til að bera þess vitni… og láta kærleika Guðs geisla til náunga okkar…
Jesús sagði: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun ég kannast við fyrir föður mínum á himnum… Við þurfum að velta steini vantrúar frá gröfinni og fullvissa okkur um að gröfin er tóm, Jesús er upprisinn… Hann er sonur Guðs, hann lifir…og enginn kemst til föðurins nema fyrir trúna á hann.  

Ég ætla að ljúka þessari stuttu hugleiðingu með bæn dagsins sem hljóðar þannig:
Jesús Kristur, brauð lífsins. Í brauði og víni gefur þú okkur hlutdeild í guðlegum leyndardómi lífs þíns, yfirbugar aðskilnaðinn sem synd okkar veldur og tekur okkur með þína leið, þinn veg, fórnar og þjáningar til eilífs lífs svo að við séum hjá þér eins og þú ert hjá okkur að eilífu. Amen.

Þessi hugleiðing er tekin upp í Bíldudalskirkju á Samsung Galaxy síma, klippt saman og sett á netið á Páskadag 12.apr. 2020

https://www.youtube.com/watch?v=vE2J3u5Vh1A&t=103s