Gamlársdagur 2007. Aftansöngur.
Lk. 13.6-9. Bæn: Vertu Guð faðir faðir minn Í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn Svo allri synd ég hafni.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þetta ár er frá oss farið, fæst ei aftur liðin tíð. Hvernig höfum vér því varið? Vægi´oss Drottins náðin blíð. Ævin líður árum með, ei vér getum fyrir séð, hvort vér önnur árslok sjáum. Að oss því í tíma gáum.
Þannig orti Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi á ofanverðri 19. öld. Góð hugvekja við áramót, viðeigandi og vekjandi.
“Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá”, - auglýsti matvöruverslun ein hér í borg á árum áður, þegar það þótti lúxus að fá ávexti í jólamánuðinum.
Víngarðseigandinn í dæmisögu Jesú leitaði að fallegum ávöxtum, skoðaði uppskeruna, sérstaklega athugaði hann fíkjutréð, sem ekki hafði borið ávöxt s.l. þrjú ár. - “Högg það upp, það er engum til gagns”, sagði hann við víngarðsmanninn, en sá andmælti og bað: Herra, lát það standa enn þetta ár. Þessa örsögu sagði Jesús um sjálfan sig. Herra, lát það standa enn þetta ár. Þessa bæn gjörði Jesús þá, og þessi bæn er beðin fyrir okkur á þessum áramótum, en það er eitt af fyrirheitum Jesú, sem hann gaf kirkju sinni, að hann lofaði að biðja fyrir okkur.
“Vægi´oss Drottins náðin blíð”.
Um áramót er gjarnan leitað ávaxta, árið er gert upp, þetta gera fjölmiðlar og komast í mikinn ham, draga saman annál ársins í máli og myndum, - þetta gera fyrirtækin, hinar margvíslegu stofnanir þjóðfélagsins skoða ávexti starfsins og í kvöld og á morgun heyrum við æðstu ráðamenn þjóðarinnar segja sitt álit á stöðu mála. Þetta er allt fróðlegt og sannarlega er nauðsynlegt að staldra við, líta um öxl, gleðjast yfir sigrunum, gá að mistökunum og þá vonandi læra af þeim. En ekki síst að biðja, biðja fyrir þjóðinni, biðja fyrir fjölskyldunum í landinu, biðja fyrir menningunni, stjórnvöldum, kirkjunni, biðja fyrir öllum mönnum og öllu lífi í margbreytileika sínum. “Herra, gef oss enn eitt náðarár”, -
Bæn guðsmannsins Móse, sem lesin var sem lexía kvöldsins er einnig bæn, sem við megum gera að okkar bæn í kvöld: “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns, - Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta”. Þetta er ein af þeim bænum sem Saltarinn geymir, bænir sem búið hafa með þeim trúuðu í mörg þúsund ár. Bænir sem hafa lagt grunn að öryggi, friði, lífsfyllingu þúsunda og milljóna manna á öllum öldum.
Síðustu daga hefur stór hluti heimsbyggðarinnar hlustað á jólaguðspjallið, rifjað upp Biblíusögurnar um jólaatburðinn. Ein af þeim sögum er um ungu stúlkuna, María Guðsmóðir, hún er dæmi um ungling, sem örugglega lærði bænirnar sínar frá blautu barnsbeini, Davíðssálmarnir voru grópaðir í hjarta hennar. Þetta kom best í ljós, þegar hún fór til að hitta frænku sína Elísabetu, eflaust til að fá styrk og sálgæslu eftir að hún vissi að hún átti von á barni, guðssyni. Elísabet vissi um leið og hún sá hana, hvað hafði gerst, næmni hennar var slík, Guðs heilagi andi gaf henni þá sannfæringu og þær frænkur skiftust á bænarorðum og María hóf upp raust sína og söng lofsönginn, Magnificat, sem síðan hefur hljómað í kristninni dag eftir dag: Önd mín lofar Drottinn og andi minn gleðst í Guði frelsara mínum. Og svo notar hún setningar úr Sálmunum, saltaranum, og öðrum Biblíuljóðum, kunnugleg bænavers, sem hún átti hið innra með sér, og gaf heimsbyggðinni með sér í þessum dýrlega söng.
Þessi reynsla, trúarreynsla hefur endurtekið sig í sögu kirkjunnar, eins og dæmin sanna, fólk sem hefur lært bænirnara sínar, úr saltaranum, úr sálmabókinni, passíusálmunum, úr bænakverum eða numið af vörum foreldra eða annarra ástvina. Þessi fjársjóður hefur síðan nýst í hringiðu lífsins, gefið styrk og blessun í blíðu og stríðu. Vitnisburði um þetta heyrum við oft og iðulega.
“Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.” Matthías Jochumsson kunni þennan sálm, enda notar hann myndir úr þessum gamla bænasálmi í þjóðsönginn, sem við elskum og viljum ekki láta taka frá okkur. Enn eitt dæmið um það hvernig gömul bænarorð lifa og nýtast í verkum mannanna. “Kenn oss að telja daga voru, Drottin.”
Falleg bæn, sem hjálpar okkur að meta stöðu okkar hverju sinni, að við “gáum að okkur” og samtíðinnni.
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu síðasta misserið, þegar vegið hefur verið að kirkjunni úr ýmsum áttum, kannski meira en oft áður. Viðbrögð fólksins í landinu hafa verið uppövandi, fólk sem eflaust hefur lært bænirnar sínar, fólk sem hefur alist upp við guðstrú og kristna menningu lét heyra frá sér, skrifaði í blöð, hringdi í útvarpsstöðvar, hringdi í prestana sína, tók til máls á fundum til að þakka fyrir arfinn, þakka fyrir allt það góða sem kristnin hefur gefið, - þrátt fyrir breyskar og ófullkomnar manneskjur sem þjónað hafa kirkjunni sinni á öllum öldum.
Einn fallegasti trúar-vitnisburður sem ég hef lengi lesið var í grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur blaðamanns rétt fyrir jólin í Þjóðlífsþönkum. En þar segir hún frá því hvernig hún hafi alist upp við trúrækni, en hafi síðan hafnað öllu slíku um tíma - eða þar til mikill harmur sótti hana heim. Og hún bætir við: Ég er alla ævi þakklát fyrir að hafa alist upp í kristnu viðhorfi og getað leitað í það skjól þegar mest á reið. Vinkona hennar sendi samúðarkort til hennar með sálmversinu: Drottinn vakir, drottinn vakir, daga og nætur yfir þér. - Þetta litla vers las hún aftur og aftur og segir það hafa sefað sársauka sorgarinnar og gefið henni styrk til að takast á við lífið. - Reynsla sem mjög margir þekkja og gætu heilshugar tekið undir. Síðast í gær lýsti frú Vigdís Finnbogadóttir f.v. forseti Íslands trúarsýn sinni í athyglisverðu viðtali: ‘Eg halla mér að kristinni trú vegna vonarinnar, sem hún boðar, vonin gefur styrk, sagði þessi mæta kona.
Hin kristna menning felst í því að nema hin góðu gildi trúar, vonar og kærleika, að nýjar og nýjar kynslóðir fái tækifæri á að heyra og læra, gegnsýrast af boðskapnum, Biblíusögunum, bænunum. Þetta er eitt af því sem við þurfum að gá að nú þegar við stöldrum við á tímamótum og skoðum ávextina. Heimilin, kirkjan og skólinn þurfa að taka höndum saman um að styrkja þessa menningu sem óumdeilanlega hefur gefið kynslóðunum lífskraft, gleði og frið.
“Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá”. Kaupmennirnir Silli og Valdi fundu ekki upp þessa setningu, hún er úr Fjallræðu Jesú. Þeir notuðu hana í sínar auglýsingar vegna þess að þeir kunnu ritningarstaðinn og vildu vera með góða vöru. Jesús segir í Fjallræðunni í þessu samhengi: Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.
Páll postuli er einnig með fallegan lista yfir ávexti andans, ávexti trúarinnar: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Þetta vill postulinn sjá í fari hins kristna safnaðar.
Þegar við í kvöld horfum um öxl, þá vekur það upp mjög misjafnar tilfinningar. Sumir eiga fyrst og fremst góðar minningar um liðið ár, en aðrir mjög erfiðar og þungar minningar. Þetta verkur hjá okkur bæði gleði og sorg. Hvorutveggja megum við koma með fram fyrir Guð í bæn um miskunn og náð. Styðjum hvert annað, göngum fram í trú, von og kærleika. Biðjum og vonum, að Drottinn gefi okkur a.m.k. eitt náðarár enn.
Drottinn vakir, Drottinn vakir daga´og nætur yfir þér. Blíðlynd eins og besta móðir ber hann þig í faðmi sér. Allir þótt þér aðrir bregðist, aldrei hann á burtu fer. Drottinn elskar, Drottinn vakir daga og nætur yfir þér.Með þessum orðum óska ég söfnuðinum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen. Meðtakið postulega blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélaga heilags anda sé með yður öllum. Amen.