Gefðu geit!

Gefðu geit!

Gjafakvíði er skelfilegur og getur farið illa með fólk. Hvað ættir þú að gefa afa í afmælisgjöf? Hvað í ósköpunum vill frænkan sem verður sjötug í næstu viku?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
04. febrúar 2013

Gjafakvíði er skelfilegur og getur farið illa með fólk. Hvað ættir þú að gefa afa í afmælisgjöf? Hvað í ósköpunum vill frænkan sem verður sjötug í næstu viku? Já, hvað er hægt að gefa pabba, mömmu og öllum hinum, sem eiga allt og vilja ekki fleiri hluti í yfirfulla íbúð? Það getur beinlínis verið illvirki að gefa fólki fleiri hluti! Mörg þeirra, sem eru á „þriðja aldrinum” vilja úr stóru íbúðunum sínum og leita að minna húsnæði. Þau vilja alls ekki fleiri styttur, skálar, vasa eða myndir heldur reyna að losna við hluta búslóðar sinnar. Hvað er til ráða? Á gjafavandanum er frábær lausn. Það er gjöf sem gefur, gleður, gerir gagn og tekur ekkert pláss í yfirfullri íbúð. Það er gjöfin frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Hún mætir þörf, eflir líf margra og bjargar líka mörgum mannslífum. Þú greiðir Hjálparstarfinu peningaupphæð og færð gjafabréf sem þú afhendir ömmu, frænda eða þeim sem þú vilt gleðja. En svo fá einhver í Afríku, á Indlandi eða á Íslandi stórkostlega gjöf sem kemur að gagni. Allir njóta svona upplifunargjafar. Gjafaúrval Hjálparstarfsins er ríkulegt. Kíktu á vefinn www.gjofsemgefur.is. Hver vill ekki bjarga barni? Það kostar aðeins 6000 krónur að frelsa barn úr skuldaánauð. Skóladót handa börnum kostar 2500 kr. Saumavél er hagnýt gjöf hvar sem er í heiminum og stórkostleg í Afríku. Saumavél bætir ekki aðeins fatamál fjölskyldu og samfélags, heldur getur líka orðið atvinnutæki og bætt tekjur eigandans. Slíkt þarfaþing kostar 11.500 kr. Hægt er að færa matarþurfi fjölskyldu geit, sem gefur af sér mjólk og kjöt, 3200 kr. Og þegar fólk á stórafmæli getur stórfjölskyldan sameinast um að gefa stórgjöf. Brunnur kostar 180 þúsund og leysir heilt þorp úr fjötrum veikinda og þrældóms. Hreint vatn er mál lífsins. Átta hundruð milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Brunnur í þorpi getur bjargað lífi mannfjölda. Gleður þitt fólk að bjarga mannfólki? Möguleikarnir eru margir og á mismunandi verði. Sextugsafmæli, sjötugsafmæli, áttræðisafmæli. Þá eru gjafabréfin svarið. Svo eru þau hentug í fermingargjöf, jólagjöf, samúðargjöf eða til að fagna áfanga á lífsvegi fólks. Á gjafabréfið er hægt að skrifa persónulega kveðju. Enginn þarf lengur að kvíða afmæli eða viðburði í fjölskyldunni. Og svo er líka hægt að gefa fólki með húmor þarfa gjöf sem bætir heilsufar margra. Kamar kostar aðeins 8500!