Náð sé með yður og friður, á þessum stysta og dimmasta degi ársins, þegar það er heldur betur alveg að detta í jól.
Nú erum við stödd þar sem sólargangur á himni er stystur sem þýðir að sólin er hætt að lækka á lofti og fer þess í stað að klífa upp á við svo frá og með deginum í dag tekur daginn að lengja á ný. Við verðum ekki vör við breytinguna strax enda tölum við um að dagleg lenging nemi aðeins einu hænufeti en sú skemmtilega mælieining er ekki notuð um neitt annað en lengingu dagsins að því ég best veit.
Vetrarsólstöður eða vetrarsólhvörf hafa alltaf talað sterkt til okkar sem búum á norðlægum slóðum. Endurfæðing ljóss og jarðar eru hin sterku tákn náttúrunnar sem vekja von um hlýrri og bjartari tíð og þau kallast á við tákn hinnar kristnu jólasögu um ljósið sem skín í myrkrinu og rekur burt ótta og vonleysi.
Eftir tvo daga er Þorláksmessa, sem helguð er eina íslenska dýrlingnum sem Vatikanið hefur lagt blessun sína yfir. Við skulum aðeins rifja upp kynnin við Þorlák og tíma hans. Hann fæddist árið 1133 að Hlíðarenda í Fljótshlíð en fór ungur að Odda á Rangárvöllum þar sem hann hlaut menntun hjá Eyjólfi Sæmundarsyni hins fróða. Hann hélt utan til náms, og las í skólum í Lincoln og París, sem voru afskaplega frægir skólar á tólftu öld.
Þegar hann kom aftur til Íslands, var hann fyrst prestur í Kirkjubæ á Síðu, uns hann varð príor 1168 og síðar ábóti í nýstofnuðu klaustri í Þykkvabæ í Veri, hinu fyrsta á Íslandi af reglu Ágústínusarmunka.
Á alþingi 1174 var Þorlákur kosinn biskup í Skálholti í stað Klængs Þorsteinssonar. Þorlákur fór ekki utan til vígslu fyrr en 1177 og var vígður til biskups í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann var biskup í Skálholti til dauðadags, 23. desember 1193.
Þorlákur var stór karakter, mjög stjórnsamur í embætti og átti mikinn þátt í því að efla kirkjuvald á Íslandi. T.d. mættu kröfur hans um forræði kirknaeigna og tíunda og um almenna siðbót í hjónabandsmálum mikilli mótspyrnu íslenskra höfðingja. Fljótlega eftir lát hans fór orð af helgi hans og samkvæmt hefð voru bein hans tekin úr jörðu 20. júlí 1198. Á alþingi 1199 voru fyrst lesnar upp kraftaverkasögur af Þorláki og dánardagur hans síðan lögtekinn messudagur. Þorláksmessa á sumar, upptökudagur beina hans, var lögtekinn 1237. Á kaþólskum tíma voru yfir 50 kirkjur helgaðar heilögum Þorláki á Íslandi. Það eru býsna margar kirkjur en þó voru fleiri kirkjur en það sem voru helgaðar Pétri postula, Maríu mey og Ólafi helga.
Í biskupasögum Jóns Helgasonar segir um Þorlák að „Hann var svo var í sínum orðum að hann lastaði aldrei veður, sem margir gera. Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar, en imbrudögum, að honum þótti það ábyrgðarráð mikið að vígja menn er til þess sóttu langan veg, og hann sá þá mjög vanfæra til. Hann söng hvern dag messu, bæði sér til hjálpar og öðrum og minntist í sífellu píningar guðssonar. Hann fastaði þá er hann var heima, vakti löngum um nætur og baðst fyrir. Hann var drykksæll svo ekki þraut drykki þá er hann blessaði í veislum. Hann lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir 12 eða 9 eða 7 og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerrði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu áður á brott færi.”
Mér finnst sérstaklega trúverðugt að það þurfi dýrling til að lasta aldrei veðrið á Íslandi - það eitt gerir Þorlák náttúrulega alveg sér á parti, ef marka er það sem Jón Helgason skrifar um hann.
Myndin sem við höfum af Þorláki er þannig af afar trú- og bænræknum manni, sem fastaði, og var holdgervingur kristilegrar auðmýktar og miskunnsemi, eins og góðverk hans á fátækum umfram skyldur og væntingar sýna. Trúrækni hans og trúarlíf talar sterkt um þá tíma sem hann lifði á, og tekur á sig mjög efnislega og líkamlega mynd í samræmi við kristindóm miðalda.
Trúin og hið trúarlega birtist nefnilega allt öðruvísi í menningu miðalda heldur en í okkar eigin samtíma. Fyrir því eru náttúrulega margar ástæður - ein af þeim eru þær breytingar sem kristin guðfræði og kristin kirkja gekk í gegnum í siðbótinni. Í lútherskum kirkjum, eins og þeirri sem við tilheyrum, sér þess merki að Lúther var mjög gagnrýninni á allt ytra umstang og form trúrækninnar, eins og hann var alinn upp við í sinni eigin trúarhefð.
Þegar upp var staðið vildi hann leggja sérstaka áherslu á að trúin væri eitthvað sem manneskjan tæki á móti og hefði ekkert með verk manneskjunnar að gera. Og honum var á tímabili sérlega í nöp við ýmislegt sem kirkjan lagði að fólki að gera, með því að halda messur, fara í helgigöngur, biðja til dýrlinga, fasta, gefa pening til að byggja kirkjur og þar fram eftir götum.
Þannig að stóra uppgjörið við miðaldatrúna átti sér ekki síst stað með lúthersku siðbótinni sem skaut rótum hér á Íslandi á sextándu öld.
Á mjög einfaldaðan hátt getum við þá kannski sagt að breytingin á hinu trúarleg hafi verið sú að áherslan færðist frá því sem fólk átti að gera - eins og Þorlákur er svo gott dæmi um - og yfir á það sem fólk átti að hugsa og skilja. Á tímabili varð svo höfuðáherslan á það hvernig fólk átti að skilja kristnar trúarkenningar, það skipti öllu máli að trúa “rétt”.
Ég held að við séum svolítið að sveiflast til baka frá því - af því að það þarf að vera jafnvægi á öllu. Við finnum að það getur verið gott að hvíla í því sem við getum gert með kroppnum okkar, höndum, fótum, augum og heyrum. Við finnum að Guð getur mótað okkur og haft áhrif á okkur í gegnum áþreifanlega hluti, hið heilaga mætir okkur í öðru fólki, í byggingum, í myndlist og tónlist. Allt sem lyftir andanum kennir okkur um hið heilaga og gerir okkur að þátttakanda í því.
Og þetta passar mjög vel við jólin og tímann í kringum þau. Því jólin fjalla um að Guð gerðist manneskja, í litlu barni. Það er mjög afdráttarlaus og róttæk stuðningsyfirlýsing með hinu líkamlega og með hinu skapaða og með því sem manneskjan er, gerir og stendur fyrir.
Jólin beina okkur inn á við og opna okkur fyrir nærveru Guðs í heiminum. Það er hluti af töfrunum við jólin, þeim sem við höfum kynnst og þráum að verða hluti af aftur aftur, hvort sem við erum 5 ára, 15 eða 55. Og allt sem við gerum í kringum jólin til að styðja þetta er gott og gefandi. Þess vegna er öll þessi yndislega jólatónlist - þá er ég að tala um tónlist sem gefur af sér og hrærir okkur - ekki jólasíbyljuna sem gerir mann galinn á augabragði. Og samveran, listin, bækurnar, matur og drykkur sem við njótum saman, allt þetta er alvöru hluti af jólunum og því að finna þau í hjarta sér.
Hin víddin er síðan sú sem snýr okkur að hvert öðru og að þeim sem eiga erfitt í einsemd og fátækt. Þetta er hinn alvöru og stóri hlutinn af kristnum jólum. Jóhannes skírari sem við heyrum um í guðspjalli dagsins orðar þetta með lífi sínu og dauða - hans skilaboð eru að þau sem fylgja Jesú holdgeri það í lífi sínu með því að lifa óeigingjarnt og gefa með sér þeim sem ekki hafa það eins gott.
Það kallast svo aftur á við mann dagsins hér í miðaldamessunni okkar - Þorlák helga. Sem dýrlingur er líf hans og trú boðskapur í sjálfu sér, þar er ekki síst framkoma hans við fátæka það sem við getum tekið með okkur héðan í dag, og íhugað þegar við fáum okkur skötu á þriðjudaginn.
Dýrð sé guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.