Þjóðleikhúsið fagnaði sextíu ára afmæli sínu á sumardaginn fyrsta með sýningu á nýrri leikgerð Benedikts Erlingssonar á Íslandsklukku Halldórs Kiljans Laxness. Með því var slegið á hljómfagra strengi og rifjað upp að Íslandsklukkan var eitt þriggja leikverka sem færð voru á svið við opnun leikhússins fyrir sex áratugum og þá í gerð skáldsins sjálfs og Lárusar Pálssonar er leikstýrði. Herdís Þorvaldsdóttir lék þá Snæfríði Íslandssól. Sérlega ánægjulegt er að hún skuli einnig taka þátt í þessari afmælissýningu og leika móður Jóns Hreggviðssonar, sem geymdi dýrgripinn Skáldu í sínum fórum, sem er mikið hreyfiafl bæði í sögu og leikverki. Afmælissýningin var vel sótt í vor og verður það eflaust líka er hún birtist aftur á fjölum Þjóðleikhússins í byrjun hausts.
Leikhúsið hefur einnig fært á svið fyrr á þessu afmælisári ágætis leikgerð af Gerplu Laxness, sem nýnæmi er að og er líka aftur tekin til sýningar með haustinu. Gerpla dregur upp harmræna skopstælingu á hetjumynd íslenskra fornsagna og tiltrú og hugsjónum er bindast varasömum fyrirmyndum sem var nærtækt umfjöllunarefni andspænis skelfilegum afleiðingum síðari heimstyrjaldar. Laxness ritar Íslandsklukku í stríðinu sjálfu. Þjóðerni og sjálfstæði voru þá nærtæk umhugsunarefni og áskorun djúphugulum rithöfundi og jafnframt skilgreining á því hver væri sá veigur og grunnverðmæti sem sjálfsmynd og lífsskilningur íslenskrar þjóðar byggðist á og nærðist af.
Hin nýja leikgerð Íslandsklukkunnar tekur mið af afmælisárinu og mælir til þess. Áður en tjald er dregið frá sviði talar sögumaður (Erlingur Gíslason) til áhorfenda og minnir þá á að þeir lifi hátíð þar sem minnst er fyrri tíðar manna sem þeir reki upphaf sitt til og fái orðið sjónarvottar að lífi þeirra á leiksviðinu. Leikarar sitja í leikhússtólum innst á sviðinu, þegar það opnast, og bregða sér inn á það, er að þeim kemur í leiknum og stólarnir verða leikgripir. Þeir og áhorfendur horfast á og fylgjast með verkinu verða til. Þeir vísa þannig til fyrri sýninga á Íslandsklukkunni sem þeir hafa séð og jafnvel tekið þátt í sjálfir í öðrum hlutverkum. Og þeir segja söguna með sínum hætti, þegar hún verður til á sviðinu sem sígilt og lifandi sköpunarverk er minnir á fortíð en bendir einnig inn í samtíðina.
Sviðsetning er opin og hugkvæm. Leikmunir eru fáir en draga þó vel fram aðstæður og það umhverfi sem sagt er frá hverju sinni. Kista vísar á verðmæti, hreyfanlegar dyr verða hús, og húsgafl með krossi verður kirkja og vagn á hjólum bókasafn og vistarvera. Þingvallamynd á vegg vísar á helgan stað, þótt ,,brotmenn” séu þar hálfshöggnir og hórkonum drekkt. Búningar birta vel tíðaranda og mismunandi kjör og þjóðfélagsstöðu. Sviðsmyndin opna gerir þá kröfu til leikara, að þeir fylli vel út í hlutverk sín og ráði vel við mismunandi blæbrigði í framsetningu og túlkun, sem þeim tekst vel að verða við.
Saga og lífsstríð Jóns Hreggviðssonar, Kristsbónda á Rein á Akranesi, er rauður þráður og uppistaða sögu Laxness, örlagasaga Jóns, barátta hans fyrir réttlæti sér til handa í ranglátu samfélagi enda segir hann um ráðamenn þess: ,, Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti.”Þótt ákærður sé fyrir böðulsmorð, er glæpur Jóns sá eini með vissu að hafa stolið snæri enda kveður hann veiðarfæraleysið hafa orðið Íslendingum miklu skæðara en iðrunarleysið. Jón Hreggviðsson er persónugervingur íslenskrar alþýðu er sætir ókjörum en með kjarki og þrautsegju tekst samt að þrauka. Í fjötrum og dýflisum á Bessastöðum og Þingvöllum syngur Jón í sig kjark með því að fara með Pontusrímur og einnig á flandri sínu mállaus á Hollandi og í þýsku fangahúsi með hengdum mönnum og luktur inni í Bláturni í Danmörku. Hann treystir sínu eigin réttlæti og brjóstviti og kemst með æðruleysi og glettni úr hverjum háska. Jón birtist sannfærandi í afmælissýningunni í meðförum Ingvars Sigurðssonar sem nær vel fram skapgerðareinkennum hans og lífsfærni og sýnir bæði umkomuleysi hans og ósvífni í blæbrigðaríkum og þróttmiklum leik.
Átakamikil ástarsaga lögmannsdóttur Snæfríðar Björnsdóttir Eydalín (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) og Arnas Arnæusar (Björn Hlynur Haraldsson/Benedikt Erlingsson ) fléttast inn í sögu Kristsbónda jafnframt því sem hún setur hana í víðara samhengi við völd og áhrif, þjóðar- og lífsverðmæti. Viðkvæmni Snæfríðar en jafnframt beinskeytni kemur strax vel fram, er hún kemur með Arnasi á Rein, þar sem eymdin blasir hvarvetna við, en blöð úr sjálfri Skáldu er þó að finna í fleti móður Jóns (Herdís Þorvaldsdóttir) og segir: ,,Vinur, hví dregur þú mig inn í þetta skelfilega hús?” Ganga móðurinnar allt til Skálholts þar sem hún hittir Snæfríði fyrir og reynir að fá hana til að bjarga syni sínum undan öxinni er áhrifarík og vel leikin. Það gildir líka um sviðsmyndirnar sem fylgja. Þær lýsa því að Snæfríður kemur Jóni undan réttvísi föður hennar á Þingvöllum og bendir honum á að koma sér til Danmerkur með því að fara fyrst til Hollands í hollenskri duggu en fær honum jafnframt hringinn dýra sem Arnas hafði gefið henni til sannindamerkis enda henni einkum umhugað að ná til hans. Enda þótt Arnas hafi brugðist henni og ekki komið að utan með Bakkaskipi, svo sem hann hafði lofað, elskar hún hann, svo sem hún segir vonbiðli sínum Sigurði Dómkirkjupresti og ekkjumanni, (Jón Páll Eyjólfsson),,vakandi, sofandi, lifandi, og fái hún hann ekki er enginn Guð til”... Þegar Eydalín lögmaður, faðir hennar (Arnar Jónsson), finnur að því við hana að hafa hafnað prestinum segir hún hiklaust við hann: ,,Arnas Arnæus er ágætastur allra Íslendinga. Konu sem þekkt hefur ágætan mann finnst góður maður hlægilegur. Heldur þann versta en þann næst besta.”
Það verður þó harmrænt hlutskipti Snæfríðar að eignast þá báða en tapa ástmanni sínum. Lýsingin á þeim versta Magnúsi jungkærinum í Bræðratungu er óvægin og kostuleg bæði í sögu og leikverki enda mun vart að finna í bókmenntum betri og átakanlegri útlistingu á áfengissýki.
Björn Thors leikur Magnús með fágætri fimi og tilþrifum og sýnir hann sem hæfileikaríkt glæsimenni er missir algjör tök á sjálfum sér í drykkjunni og veltist þá og velkist um. Vegna ættartengsla og forréttinda kemst hann upp með það í fylleríum að gamna sér við konur fátækra bænda og selur þá frá sér jarðir og bú fyrir brennivín og eiginkonuna líka. Samt er sem hún sé yfir það hafin og haldi ávallt reisn sinni. Snæfríður vefur dúka fornum myndum og saumar altarisklæði fyrir kirkjur og safnar silfri í handraða og lætur ekki haggast fyrr en jungkærinn vegur að kistu hennar með exi og síðan henni sjálfri. Þá hverfur hún á brott til systur sinnar í biskupsgarð í Skálholti, um sinn að minnsta kosti, en þangað kemur Arnæus stuttu síðar og ástareldur þeirra glæðist á ný.
Arnæus bregst Snæfríði þá og svíkur enn þótt gæli hvort við annað og segi margt fallegt. ,,Ein er sú stund í lífi manns, sem er og verður þó tímar líði”, segir hann við hana, er þau rifja upp fyrstu ástir sínar.,, Í birtu hennar eru verk vor unnin góð og ill, vort lífsstríð háð -eins þó kunni allt að heyjast gegn henni.” Fyrr hafði það verið vegna bóka og handrita sem hann brást enda segir hann. ,,Ég var ekki frjáls. Ísland átti mig, þær fornu bækur sem ég átti í Kaupmannhöfn. Hefði ég komið út um vorið með Bakkaskipi myndi ég hafa selt Ísland. Hver bók, hvert blað hefði glatast.”
Sem commisarius konungs fer hann í saumana á réttfarinu í landinu og dæmir kaupmenn fyrir rangindi og réttir hlut réttlausra smælingja sem hafa að ósekju verið harðlega dæmdir og ákærir yfirvöld og vegur þá harðast að sjálfum lögmanni landsins. Þar er mál Jóns Hreggviðssonar einna þungvægast því að sé hann sýknaður verður lögmaður sekur um afglöp og sviptur æru og eignum. Snæfríður vill ekki trúa því að faðir hennar hafi stungið bréfum undir stól í máli Jóns Hreggviðssonar og samtal þeirra er vel sviðsett í sýningunni. ,,Hefur þér ekki dottið í hug,” spyr hún Jón, ,,að lífið og réttlætið séu frændsystkini og réttlætið miði að því að tryggja fátækum manni lífið?” Og hann svarar: ,,Ég hef aldrei vitað réttlæti miða að öðru en svipta fátæka menn lífinu.”
Snæfríður tekur þátt í niðurlægingu föður síns og þungt er yfir henni í Bræðratungu þangað sem hún fer á ný, en eymd hennar kemur þó gleggst fram á Þingvöllum þar sem Jón Hreggviðsson hittir hana fyrir klædda í tötra umrennings og sakakonu og segist hrækja á það réttlæti utan það sem sé í honum sjálfum; og á bak við heiminn.
Konungaskipti í Danmörku og valdabreytingar hindra að ,,réttbætur” Arnæusar gangi fram á Íslandi auk þess sem bólan lamar þrótt og heilsu landsmanna og hann missir mjög áhrif sín í Danmörku. En þá býðst lokkandi tækifæri til hagsbóta fyrir lýð og land eða hvað? Tilboð frá Úffelin af Hamborg (Kjartan Guðjónsson) í nafni Hamborgara um að kaupa Ísland af Danakonungi, sem vill selja, svo framarlega sem Arnas verði þar hertogi þeirra þýðversku. ,,Spurt er alleinasta hvort haglegra sé fyrir þá íslensku að Islandia sé danskt þrælahús ellegar sjálfstætt hertogadæmi?”
Samtal fulltrúans og tilvonandi hertoga er sett upp í leiksýningunni sem samræður á samningafundi þar sem hljóðnemar eru á borðum. Það færir þær inn í samtímann og minnir á viðlíka tilboð um að landið verði hluti stærri ríkjaheildar. Þar er líka gefið í skyn að vildarkjör séu í boði.
En margt gerist í sögu og leiksýningu áður en Arnas svarar þessu ,,rausnarboði.” Skálda hverfur. Assisorius Commisarii Jón Grindvicensis (Ilmur Kristjánsdóttir/Brynhildur Guðjónsdóttir) ,,gleymir við það öllum kækjum sem gerðu hann að persónu.“ Í tryggð sinni og sjálfgleymi birtist hann vorkunnsamlegur á leiksviðinu sem eins konar viðrini sjálfur og furðuskepna en á slíkum hefur hann sérstakan áhuga og er ekki í vafa um að Jón Marteinsson (Stefán Hallur Stefánsson/Ólafur Egill Egilsson) sé valdur að hvarfinu. Jón hefur enda sent sænskum íslenskar bókagersemar er kynni þær sem vestgausk verk enda vesalingum úr Íslandi ekki ætlandi nein slík afrek. Hann hefur líka gerst málaflutningsmaður Íslandskaupmanna sem nái sér niðri á Arnasi með því að standa að málatilbúnaði júngkærins í Bræðratungu gegn honum í Höfn. Jón er groddalegur og smeðjulegur í senn á sviðinu ásamt því að vera jafnan drukkinn. Hann dregur þó jungkærinn sjódauðan á land, sem fagnað hefur unnum sigri með sínu lagi.
Snæfríður kemur af Íslandi eftir að hafa fengið Jón Hreggviðsson dæmdan til Brimarhólms, sem kostar hana þó það mikið af lausasilfri til dómsmanna á Íslandi, að hún verður að kría út farareyri hjá dómkirkjuprestinum út á það að hún ætli að endurheimta æru föður síns. Vonbiðill hennar er enn undanlátssamur þótt hann fái það svar við latínuflúraðri umvandan sinni
,,að enginn fræðigrein standi nær klámi en guðfræðin... Maður verður strax púki með klær að eiga orðræður við jafn helgan mann.” Vonbiðillinn greinir hvað undir býr, því að hann segir í samtalslok: ,,Hirtu þessar oblátur Satans. Aktu fyrir þær suður í heim að hitta friðil þinn.”
Samræður Snæfríðar við Gullinskó, kóngsfrænda, höfuðsmann Íslands og skatttaka (Ólafur Darri Ólafsson/Jóhannes Haukur Jóhannesson), sem hún ber mál sitt fram fyrir, eru kostulegar. Þær birta tign hennar og reisn andspænis prjáli hans og glysmyndum. Hún sækir enda megin í huliðsöfl landsins og er sem bláklædd álfkona með gullband um sig miðja og minnir á að ,,jafnvel yðar fornhetjum höfum vér íslenskir gefið líf í vorum bókum, þá dönsku tungu, sem þér hafið glatað, tölum vér.” Samtal Arnas við Gullinskó er líka vel og komiskt útfært í sýningunni. Höfuðsmaðurinn fleytir rjómann af Íslandsversluninni og nýtur auðs, frillulífis og lystisemda en heldur því engu að síður fram ,,að Íslandsverslun hafi ævinlega verið stunduð í guðsþakkaskyni af okkur dönskum.” Honum bregður þó í brún að heyra það frá Arnasi, að kóngur hyggist selja þýðverskum þetta óland og Arnasi sé boðið að gerast landstjóri þeirra.
Snæfríður er á förum og hefur þó enn ekki, á síðasta kvöldi sínu í Danmörku áður en hún siglir með haustskipi til Íslands, gefið Arnæusi lögbókina fornu og dýru, sem hún hefur meðferðis handa honum enda staðið í öðru. Þegar hann stendur skyndilega í herbergisdyrum á gistihúsinu ,,þá var það með jafn sjálfsögðum hætti eins og hann hefði fyrir stundu horfið héðan frá henni að ganga sér til skemmtunar.” Og þá verður því ekki lengur leynt,, að rescripta, stefnur og tilskipanir, sem hún hefur útvegað, eru ekki nema hégómi og yfirdrep”.,,Ég kom hingað í þeirri von að finna þig Árni. ”,,Veistu til hvers ég er kominn”, sagði hann. ,,Já, til þess að skiljast ekki framar við mig.” Fögur er draumsýnin, sem Arnas bregður upp fyrir Snæfríði af sér sem landstjóra með hana sér við hlið á Bessastöðum, og fer vel á sviði: ,,Kaupstaðir skulu verða settir kringum hafnir og gerður út skipafloti.. Á Þingvöllum skal rísa lögréttuhús og sett önnur klukka stærri og hljómfegurri en sú sem kóngurinn lét rekvírera.” ,,Allir munu verða okkar vinir,” sagði hún, ,,því að fólkinu líður vel... Og við ríðum um landið á hvítum hestum.”
Arnæus svíkur samt ,,álfakroppinn sinn” um það að vinna að þessari draumsýn. Hann hafnar tilboði Úffelins vegna þess að hann sér lengra fram. Það hefur runnið upp fyrir honum að varnarlausri smáþjóð er gæfulegra að eiga mátulega sterkan óvin en að játast í neyð sinni undir tröllsvernd þótt færi maðklaust korn. ,,Hver verður hlutur þeirrar þjóðar, sem skrifaði frægar bækur þegar risnir eru þýskir kastalar með málaliði, og Íslendingar í hæsta lagi feitir þjónar þýsks leppríkis?” spyr hann viðmælanda sinn. ,,Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því að í hans brjósti á frelsið heima.”
En hvaðan kemur honum þetta raunsæi? Getur verið að Snæfríður hafi vakið hann til umhugsunar á kveðjustundu þeirra? Að minnsta kosti vill hún ekki viðurkenna, að neinn hafi komið í heimsókn til sín um kvöldið. Það er þó sem Arnas hafi misst allan þrótt og sinnu við þessi úrslit og missi. Hann er ekki reglusamur sem fyrr og rankar ekki við sér þótt sagt sé að eldur sé uppi í Kaupmannahöfn. Gerir það jafnvel ekki enda þótt sá úr Grindavík vari við: ,,Bækurnar, bækurnar, ... þær brenna”, en svarar fálátlega; ,, Skálda er komin til þjófa og lögmálsbókina góðu lét ég liggja...Ég er þreyttur.“
Þegar ,,nokkrir íslenskir” hafa með harðfengi bjargað fáeinum dýrgripum en komast ekki til að bjarga fleirum, segir Arnas þó og horfir í logana: ,,Þar eru þær bækur sem hvergi fást slíkar til dómsdags.” Þegar Jónar, Grindvicensis og Hreggviðsson, færa Arnasi Skáldu, sem þeim tekst að leysa til sín þá er Jón Marteinsson ætlar að greiða með henni fyrir veitingar og brennivín, léttist aðeins á honum brúnin.
Arnas vinnir auðveldlega mál Jóns Heggviðssonar við hæstarétt og biður hann, er þeir kveðjast við Drageyrarbryggju, að segja við ,,þá á Alþingi, að Ísland hafi ekki verið selt.” Jón er loks frjáls og fréttir það við Almannagjá að hin nýja Skálholtsfrú, ektakærasta Sigurðar biskupsefnis Sveinssonar og dóttir hins sáluga lögmanns, hafi fengið því framgengt að lögmaður Eydalín var sýknaður og veitt uppreist látnum en Arnas Arneus er dæmdur sekur fyrir lagayfirtroðslur. Snæfríður Íslandssól sést ríða á brott í svörtu í þann mund sem Jón heldur yfir Leggjarbrjót heim á Skaga. Hann horfir til þess að ,,dóttir hans eignist son, sem segi sonarsyni sínum söguna af þeirra forföður Jóni Hreggviðssyni og vini hans og herra Árna Árnasyni.”
Saga Jóns Hreggviðssonar sjálfs endar farsællega er sorgaratburðir og hörmungar eru að baki í lífi hans. Er hægt að segja það sama um íslenska alþýðu, sem hann er að ýmsu leyti táknmynd fyrir? Hún var oft þjökuð og pínd af erlendu og innlendu valdi, og líka af kirkju og klerkum sem gáfu áþjáninni lítinn gaum og fylgdu sjaldan forskriftum frelsarans um að losa ok og fjötra þjáðra manna. Þjáning Krists var dregin upp skýrum dráttum í boðun kirkjunnar á sögutíma Íslandsklukkunnar svo sem hún vitnar um og dró fram iðrun og tár en sú boðun vakti lítinn skilning og samkennd gagnvart eymd og neyð hinna ,,smæstu” í samfélaginu er Kristur samsamar sig við, hvað þá að skilningur væri glæddur á því að frelsaranum væri þjónað með því að liðsinna þeim. Viðleitni til að bjarga sér frá hungri og neyð með því að næla í snærisspotta var grimmilega refsað og því von að Jóni þætti ,,veiðarfæraleysið hafa orðið Íslendingum miklu skæðara en iðrunarleysið.”
Íslandsklukkan fjallar um réttlæti og ranglæti, afskræmingu þessara hugtaka í meðförum ráðamanna, uppgjör og viðleitni til þess að gefa þeim raunhæfa merkingu. Hvaða merkingu fær ,,réttlætið” í okkar samtíð er skuldavandi og bjargarleysi vegna glapræðis fjármálafursta og ráðamanna sliga heimili og ógna fjölmörgum fjölskyldum? Tilboð Úffelins hins þýska í Íslandsklukkunni freistar sem skjótfengin lausn til að bæta kjör og samfélagshætti en Arnas hafnar því þótt fórni fyrir ástarhamingju sinni því að þjóðarhagur og heill eru í veði. Hann greinir hættuna af því ,,að þjóðin myndi í neyð sinni játast undir tröllsvernd og verða gleypt í einum munnbita.” Að verða feitir þjónar í leppríki væri ekki eftirsóknarvert, betra yrði að hlúa að frelsinu í brjósti sér og vinna því framgang í samfélaginu.
Innganga í evrópskt efnahagsbandalag freistar og gæti virst hagkvæm björgunarleið úr skulda- og samfélagsvanda, en er hún það þegar betur er að gætt og í sögulegu samhengi? Lífsverðmæti þjóðarinnar sem fólust í Skáldu og öðrum fornritum hennar voru Arnasi þungvægari en jafnvel ást hans á hinu ljósa mani og álfakroppinum mjóa. Eigum við slíka forystumenn á örlagatíð er halda fram íslenskri menningararfleifð, sögu og tungu, fullveldi og þjóðarfrelsi sem öðrum verðmætum meiri? Eigum við þá spámenn og skáld sem greina hættumerkin og hafa þann sannfæringarkraft að geta marktækt andæft ásælni auðhyggjunnar og hvatt þjóðina til að standa vörð um auðlindir lands og sjávar og styrkja sögu- og menningarrætur sínar? Eigum við þá andlegu leiðtoga og trúarhetjur sem gegna fórnfúst og hiklaust slíku hlutverki og ljá réttlætishugtakinu raunsanna merkinu og líta hjálpræði Krists í því víða samhengi, að þjáðir menn og arðrændir eigi þar í raun og veru skjól og von um lausn og björgun?
Íslandsklukkan er grípandi skáldverk vegna þess hve vel hún lýsir átökum og þverstæðum lífs, ástum og brigðum, réttlæti og ranglæti, fjötrum og frelsi. Hún hvetur þó einkum til afstöðu, skerpir réttlætisvitund og þrá til frelsis í víðu samhengi og glæðir þá fórnfýsi og ábyrgðarkennd sem að því miðar.
Afmælissýning Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni nær þessum hvetjandi hljómi í leikgerð Benedikts enda valda leikarar vel sínum hlutverkum. Þau lifna á fjölum leikhússins í snjallri sviðsetningu. Sýningin minnir á þrengingar og erfiða lífsbaráttu fyrr á öldum en einnig átök og umrót síðustu aldar og framsækni þjóðarinnar, er fékk sem morgungjöf lýðveldis líkt og nýja Íslandsklukku á Þingvöllum er fagnaði frelsinu. Stofnun Þjóðleikhússins og sýningar þess tóku undir hljóminn fagra. Sextíu ára afmælissýningin setur líka fram spurnir um hvar við stöndum sem þjóð eftir efnahagshrun. Hún flytur jafnframt þann uppörvandi boðskap að þjóðarfrelsið verði varið með því að meta og virða og leggja rækt við sögu- og þjóðarverðmæti og sækja fram í trausti og krafti þeirra.
Stjörnugjöf: **** ½*