Nokkrir punktar um kirkju í vanda

Nokkrir punktar um kirkju í vanda

Í henni var m.a. fullyrt að trúarleg vanþekking væri farin að bitna á menningarlæsi almennings. Fækkun í þjóðkirkjunni myndi halda áfram ef ekki yrði brugðist með einhverjum hætti, færi niður í 60% eins og á hinum Norðurlöndunum.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
09. mars 2018

Nokkrir punktar um kirkju í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að kirkjan hefur verið í nokkrum vanda stödd að undanförnu. Á síðasta ári sögðu rúmlega fjögur þúsund einstaklingar sig frá kirkjunni sem er grafalvarlegt mál eitt og sér. Neikvæðar fréttir úr kirkjunnar ranni hafa verið áberandi og nú síðast kom fram að traust til hennar samkvæmt Gallup-könnun hefði fallið á einu ári niður um ein átta prósent, úr 38% niður í 30%. Ólíklegt er að einhver skyndileg þróun eða breyting í samfélaginu sé höfuðorsök þessa. Kirkjufólk verður að leita skýringa á þessu traustsfalli.

Ljóst er að bregðast þarf við með einhverjum hætti til að efla traust kirkjunnar meðal almennings. Traust er grundvallarforsenda fyrir því að starf kirkjunnar nái tilætluðum árangri sem er sá í almennum orðum að vera þjónandi og fræðandi, biðjandi og boðandi. Fjari undan trausti þá er voðinn vís. Nauðsynlegt er að ræða málið opinskátt og af raunsæi. Ná talsambandi við landann og spyrja hvað sé hægt að gera betur til að styrkja traustið.

Blómlegt kirkjustarf

Þegar litið er yfir starfsvið kirkjunnar á landsvísu - að svo miklu leyti sem það er hægt- þá kennir þar margra grasa. Mjög víða er öflugt starf, fjörlegt og oft vel sótt. Sums staðar frábærlega sótt. Alls staðar er þjónustan nokkuð jöfn og stendur öllum til boða. Þjónusta kirkjunnar er umfangsmikil og reynt að búa svo um hnúta að hún sé skjótvirk enda þótt starfssvæðin séu í sumum tilvikum víðáttumikil. Kirkjuhúsin eru í sveitum, þorpum og bæjum, prýði og tákn um trú og menningu sem allir ætla sig eiga nokkuð í og jafnvel þótt þeir telji sig ekki eiga heima í kirkjunni; efast ekki um hið menningarlega hlutverk kirkjunnar við hlið hins trúarlega. Það hefur verið kappsmál kirkjufólks að benda á þetta mikla og öfluga og sýnilega starf. Áfram þarf að halda á þeirri braut og gera enn betur í því efni. Dæmi finnast einnig um að enda þótt gott starf sé í boði þá er það ekki vel sótt – því miður.

Samtöl geta leyst vanda

Forysta kirkjunnar er sóknarnefndarfólk, prestar, biskupar og kirkjuþing. Allir þessir aðilar þurfa að starfa saman af heilindum og kærleika. Þegar deilur koma upp eins og eðlilegt er í sjálfu sér á mannlegum vettvangi þá verður fólk að taka á þeim í einlægni og af skynsemi. Tala opinskátt um þær og ekki síst séu þær af þeim toga þar sem ofbeldi kemur við sögu; þá er til fyrirmyndar að fulltrúar leikmanna, djáknar, prestar eða biskupar, stígi fram af festu og einurð, og lýsi því yfir að slíkt framferði verði ekki liðið og með því er ekki verið að fella dóm um sekt eða sakleysi.

Deilur sem komast í hnút og aðilar ná ekki að leysa í samtali með sáttfýsi að leiðarljósi fara í eðlilegan farveg innan kirkjunnar, t.d. til úrskurðarnefndar, eða í öðrum tilvikum til dómstóla. Þar er reynt að komast að hinu sanna í hverju máli og leysa mál með röklegri niðurstöðu.

Úrskurður er úrskurður, niðurstaða. Í sumum tilvikum eru báðir aðilar sáttir og í öðrum ekki. Öllum er í sjálfu sér frjálst að mótmæla dómum og úrskurðum og gera athugasemdir telji þeir þörf á. En það getur orðið að vissu leyti nokkurs konar eintal því hvorki úrskurðarnefnd né dómarar ræða niðurstöðu sína eins og málum er nú háttað. Því má auðvitað breyta og koma ákvæðum fyrir í lögum eða starfsreglum eftir atvikum sem kveða á um að úrskurðarnefnd ræði úrskurð sinn við málsaðila og aðra óski þeir eftir því. Slíkt samtal gæti hugsanlega skilað sátt og skilningi um viðkomandi úrskurði. Kannski er það bara lýðræðislegt og ný nálgun og dirfskufull því úrskurðir og dómar eru mannanna verk og fráleitt fullkomnir.

Kirkjuþing og grasrótin

Kirkjuþing er æðsta valdastofnun kirkjunnar innan lögmæltra marka og þar eru leikmenn í meirihluta. Hin síðari ár hefur kirkjuþing verið m.a. mjög svo upptekið við að koma saman frumvarpi til laga um þjóðkirkjuna. Því er ekki enn lokið. Ekki eru allir á einu máli um frumvarp þetta. Kannski hefur kirkjuþing liðinna ára gleymt sér um of við lagasmíð sem þessa svo góð sem hún annars kann að vera og sá hugur einlægur sem að baki hennar býr en látið hjá líða að huga að grasrótinni, söfnuðunum.
Hvernig getur kirkjuþing styrkt betur en nú er sjálft starf sóknanna sem eru jú grunneining kirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað? Þessari spurningu þarf kirkjuþing að svara. Vald kirkjuþings er nefnilega komið frá fólkinu úti í söfnuðunum og því má ekki gleyma. Í raun er kirkjuþing þjónn fólksins úti í söfnuðunum og ætti að vera í miklu nánara sambandi við þá en nú er um öll mál. Þetta á við um alla sem eru í forystu fyrir kirkjuna hvort heldur það heitir sóknarnefndir eða kirkjuþing, leikmenn, djáknar, prestar og biskupar. Leiðarþingin þarf og að efla. Þá þarf einnig að ræða í fullri alvöru hvort ekki eigi að hafa almennar kosningar til kirkjuþings samhliða t.d. sveitarstjórnarkosningum.

Fræðslumál þarf að stokka upp

Eitt meginhlutverk kirkjunnar er boðun og þar af leiðandi fræðsla. Víða fer fram mjög svo fjölskrúðugt fræðslustarf úti í söfnuðunum og er til fyrirmyndar. Og margir fara nýstárlegar leiðir í þeim efnum því kirkjan býr yfir ferskum mann- og félagsauði sem hefur óþrjótandi áhuga á kristinni trú. Fræðsludeild kirkjunnar þarf að stórefla sem og útgáfufélag hennar, Skálholtsútgáfuna, sem sett var á laggirnar m.a. til þess að gefa út efni handa söfnuðum landsins.
Þær raddir heyrast á meðal kirkjufólks að vankunnátta t.d. í Biblíusögum aukist ískyggilega. Í bókmenntum, myndlist og annarri menningu koma iðulega fyrir biblíuleg stef og tilvísanir sem börnum og ungmennum nútímans gengur verr en áður að átta sig á vegna þessa að biblíulegt menningarlæsi þeirra hefur dofnað. Efni sem Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar – gefur út kemur að góðum notum til að sporna við framansögðu.
Kristindómsfræðsla í skólum er víða í skötulíki - það er ekkert leyndarmál. Börnin koma til fermingarfræðslunnar misvel að sér í kristnum fræðum. Þetta er framtíðarkynslóð kirkjunnar og sé hún fákunnandi um kristna trú þá mun þráðurinn milli þjóðar og kristni trosna.

Sennilega þarf að stokka upp allt fræðslustarf kirkjunnar frá grunni og það fyrr en seinna. Kirkjuþing þarf að taka á því máli sem fyrst, allt kirkjunnar fólk sömuleiðis. Fræðslan þarf að fara í forgang.

Skýrsla um nýliðun

Árið 2015 var lögð fyrir kirkjuþing athyglisverð skýrsla: „Nýliðun innan Þjóðkirkjunnar.“ Í henni var m.a. fullyrt að trúarleg vanþekking væri farin að bitna á menningarlæsi almennings. Fækkun í þjóðkirkjunni myndi halda áfram ef ekki yrði brugðist með einhverjum hætti, færi niður í 60% eins og á hinum Norðurlöndunum. Meginmarkmið voru lögð fram og þau eru enn í fullu gildi. Ekki flókin markmið í sjálfu sér: að draga úr fækkun sóknarbarna og stuðla að nýliðun innan kirkjunnar. Kannski ættu allir söfnuðir landsins að skjóta á málþingi um skýrslu þessa?

Kjarni málsins er ekki sá að hefja einhverja allsherjarherferð í taugaæsingi vegna þess að það fjari undan kirkjunni heldur að hver maður standi sína plikt. Að kirkjan sé ekki klumsa, eins og góður maður sagði hér um árið. Hún tali, svari, þjóni og boði. Fræði. Og biðji. Forystufólk hennar: leikmenn og vígðir þjónar séu sýnileg í nútímanum, fari til fólksins, noti til dæmis alla samfélagsmiðla eins og mörg dæmi eru um.

Kirkjan er fólkið í landinu – og hún er öllum opin.

Fjölmiðlanefnd

Í lokin má láta einn sögumola fljóta með til gamans og alvöru. Kannski er þörf á því að skipa almannatengslanefnd eða fjölmiðlanefnd eins og gert var á prestastefnu í júnímánuði árið 1932 – ekkert er nefnilega nýtt undir sólinni! Þá var flutt svohljóðandi tillaga: „Prestastefnan ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að vera á varðbergi gegn því, er birtist um kristindóm og kirkju í blöðum og tímaritum hér á landi, leiðrétti mishermi og svara árásum, og ennfremur annast um að almenningur fái fræðslu á prenti um það markverðasta er gerist á starfsviði kirkjunnar og íslenskan almenning varðar. Um tilhögun þessa starfs setur nefndin sjálf reglur og skal hún jafnan vera í náinni samvinnu við biskupinn.“ (Þjóðskjalasafn Íslands (Biskupsskjalasafn), Prestastefnubók 1924-1950: Prestastefna 1932, bls. 90-91).

Tillagan samþykkt í einu hljóði og vaskir menn kjörnir í nefndina: Ásmundur Guðmundsson, dósent, Magnús Jónsson, prófessor, S.P. Sívertssen, vígslubiskup, Árni Sigurðsson, fríkirkjuprestur, Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, séra Hálfdán Helgason og Sigurbjörn Gíslason, ritstjóri.

Eflaust er hægt að manna viðlíka nefnd af fólki með víðtæka reynslu og menntun. Vígða þjóna sem og leikmenn. Kannski allt konur í þetta skipti? En umfram allt: að hefjast handa.