“Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu”.
Þetta er tilefnið sem helgar heilaga hátíð á jólum. Við komum saman á aðfangadagskvöldi í kirkjunni okkar, fögnum yfir fæðingu barnsins sem lagt var í jötu í fjárhúsi í Betlehem fyrir meira en 2000 árum síðan og þá ómar kveðjan Gleðileg jól.
Þessi saga um fæðingu Jesú Krists er svo falleg og hjartfólgin og birtir boðskap sem á erindi inn í mannsins líf á öllum tímum. En mikið hefur breyst í umhverfi og ytri kjörum frá því að atburður sögunnar átti sér stað, svo mikið að enginn gat þá gert sér í hugarlund hvernig það allt gæti gerst. Þróun vísinda og tækni hefur breytt ásýnd jarðar og valdið byltingum í samskiptum og lífsháttum.
Eigi að síður sláumst við í för með fjárhirðum á Betlehemsvöllum og leitum að ungbarni, sem lagt var í jötu og höldum meiri hátíð en venja er til. Upphrópanir þagna eins og þær sem gjarnan heyrast í hita leiks hins daglega lífs, m.a. að það sem kirkjan prediki sé of gamaldags fyrir heim sem hrósar sér af yfirburða skynsemi, hraða, tölvuleikjum og flugferðum.
En á jólum verður þetta gamla gott og gilt og veldur meiri eftirvæntingu en flest annað. Já, margar raddir þagna á þessu kvöldi eins og flest hið venjulega sem skekur dagsins önn. Nú ómar englasöngur um dýrð Guðs í upphæðum og hvert fátækt hreysi höll nú er því Guð er sjálfur gestur hér. Þá finnum við til friðar sem ekki verður lýst með orðum, friðar sem glæðir fagrar hugsanir, í myrkrum ljómar lífsins sól, og þér gefst svigrúm til þess að horfast í augu við innri mann og fólkið þitt sem þér er kærast, næði til að finna ungbarn sem lagt var í jötu, en hvílir nú í hjarta þínu.
Ef einhver hefur efast um að þjóðin játi kristna trú, þá þarf ekki frekari vitnisburð um það, en að horfa í íslensk jól þar sem hefðin og siðurinn tjá svo innilega játningu kristinnar trúar með ljósum og englum, sálmum og sögum til þess að minnast og finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Það er falleg menning.
Einu sinni dvaldi ég í Kaliforníu um jól. Þar var sjaldnast óskað gleðilegra jóla, heldur farsælla frídaga, vandfundin var guðsþjónusta á aðfangadagskvöldi og ekki margt í umhverfi og samskiptum sem benti til heilagrar trúarhátíðar. Í Bandaríkjunum er trúin einkamál, en á Íslandi er kristin trú siður þjóðar sem sameinað hefur kynslóðir öldum saman og gerir enn.
Þess vegna eru jólin þjóðarhátíð á Íslandi og þess vegna hefur kirkjan hlutverki að gegna í veraldlegu umhverfi að varðveita og rækta þennan trausta sið. Kirkjan er því samfélagsmiðstöð fólksins í landinu, farvegur menningar í skapandi rækt við kærleika og von í trú og þjónustu við traustar hefðir og siði þar sem börnin eru m.a borin til skírnar, fermingarbörnin staðfesta sína trú, brúðhjónin bindast og ástvinir minnast og þakka á hinstu kveðjustund.
Þetta er rótföst menning sem hefur verið kjölfesta íslenskrar lífsbaráttu öldum saman. Kirkjan er fólkið í landinu, ekki á eignarvaldi fáeinna manna, heldur opið og frjálst samfélag fólksins þar sem allir eru velkomnir. Kirkjan okkar hér vill vitna um það með starfi sínu, en það stendur og fellur með ræktinni sem hér nærist á meðal íbúanna.
En svo eru það mismunandi skoðanir fólks og viðbrögð við handleiðslu erfiðra mála í samskiptum embættismanna kirkjunnar við einstaklinga, oft hlaðin breyskni og heitum tilfinningum, sem hafa verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum, og sárt að reyna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að kirkjan er og verður heilagur samastaður menningarlífs af því að þar er Guð í miðju sem opnar faðminn á móti hverjum sem leitar, ekki fyrir tilverknað jarðneskra manna, heldur af því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Þess vegna eru heilög jól og lifandi kirkja að starfi.
Þetta er fagnaðarerindið sem helgar einlæga trú og sameinar þjóð um kristinn sið og boðar að elska Guð og náungann. Og við leggjum okkur fram um að rækta fagurt líf með blómlegri menningu þar sem vongleðin blómstrar með af hugsjón ástríkis og virðingar. Og ekki veitir af í heimi sem dýrkar lágkúru flatneskjunnar í vaxandi mæli þar sem fégróði neysluhyggjunnar er æðsta viðmiðun og elur svo af sér bölsýni og neikvæð viðhorf
Vongleðin er lífinu svo dýrmæt til vaxtar og þroska sem gefst ekki upp þótt á móti blási og býr yfir æðruleysi sem hefur þrek til að hrósa og þakka og njóta lífsins eins og aðstæður leyfa. Það finnum við í umgengni við börnin okkar og gildir um samkskiptin í þjóðlífinu líka að rækta vonina og birtuna í mannlífinu. Vongleði blómgast í hjarta þegar við finnum barn í jötu á heilagri jólanótt. Þetta barn er Jesús Kristur, Guð á jörð.
Ekki var sagan hans í upphafi líkleg til að breyta miklu, fæddist í fjárhúsi af því að ekki var rúm fyrir hann í mannabústöðum, ólst uppi í afskekktu fjallaþorpi í umsjá alþýðufólks, gekk síðar um á meðal fólks í tvö og hálft ár samkvæmt guðspjöllum, læknaði sjúka, hlúði að þeim sem höllum fæti stóðu og kenndi fólki um Guðs ríkið, bar vitni um vongleði og trúfesti, en dó á krossi dæmdur sakamaður samkvæmt valdi mannsins.
En þetta er samt sagan um hann sem var og er frumglæðir ljóssins og reis upp frá dauðum og mestu breytti. Af því að þetta er saga um Guð, máttarverkin hans, lifandi vitnisburður um að Guð er og verða mun og er hjá þér. Þetta er líka sagan um þig eins og jólin þín vitna um þar sem þú leitar að barni sem lagt var í jötu með því elska náungann eins og sjálfan þig og umvefja fólkið þitt af örlæti og fórnfýsi.
Við hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda og biðjum þeim líknar og blessunar. Minningar um látna ástvini okkar eru ofarlega í huga. Guð blessi minningu þeirra. Allt sem er er heilagt í reynslusjóði fyllir huga og hjarta í ljósi jólanna.
Sálmurinn ástsæli, Heims um ból, sem er svo samofin jólum og nýtur enn þeirrar virðingar á öldum ljósvakans að vera ekki sunginn fyrr en heilög hátíð er í garð gengin, á sér líka sérstaka sögu sem vitnar um sigur vonarinnar.
Það var í fámennu og afskekktu fjallaþorpi austurrísku alpanna sem sr. Mohr, prestur, og Gruber, tónlistarkennari, sömdu lag og kvæði árið 1818 eftir að presturinn hafði vitjað nýfædds barns á jólanótt og veitt því Guðs blessun. Sálmurinn var fyrst fluttur við gítarleik í kirkjunni á jólum. Orgelið var bilað af því músin hafði étið gat á belginn. Börnin lærðu sálminn sem varð vinsæll á meðal fólksins í fjallaþorpunum. Löngu seinna komst verkið á hljómleikaskrá keisarans sem heillaðist svo mjög, að hann vildi vita meira um tilurð þess.
En þá voru höfundar löngu gleymdir. Keisarinn skipaði þá hirðmönnum sínum að leita upprunans sem náði að lokum til litla afskekkta fjallaþorpsins, en þá var presturinn látinn í sárri fátækt, en tónlistarkennarinn aldurhniginn og gat frá öllu sagt.
Þessi sálmur sameinar ekki aðeins íslenska þjóð á jólum, heldur hinn kristna heim, Heims um ból, helg eru jól, eins og Sveinbjörn Egilsson orti svo fallega við þetta meistarverk tónlistarsögunnar. Og eru orð að sönnu: Heims um ból, helg eru jól. Það finnum við innilega og opnum faðminn á móti fallegri hátíð. Megi jólin okkar vitna um það í trú, von og kærleika. Af því að við höfum fundið ungbarn reifað og lagt í jötu. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól í Jesú nafni Amen.