Fimm ára börnin sem spurð voru á síðum dagblaðs um daginn hvers vegna jólin væru haldin, gátu ekki svarað því. Þau vissu allt um jólasveina og jólagjafir, en virtust ekki vita af Jesúbarninu. Mér fannst það dapurlegt. Ég vona svo sannarlega að einhver verði til að benda þeim, og öðrum börnum á raunverulegt tilefni jólanna. Vegna þess að þar er að finna það sem er mikilvægast alls.
Mynd: Jim Elfström/IKON„Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“ Það sagði engillinn við hirðana. Og jólin enduróma orð þeirra og söng.
Allir foreldrar og afar og ömmur þekkja hve undursamlegt það er þegar barn fæðist, hvernig allt ummyndast og tekur á sig annan blæ. Ungbarn vekur tilfinningar auðmýktar, umhyggju og gleði. Við hljóðnum í návist þess, og finnum til lotningar og virðingar. Það er einmitt slíkt sem Guð vill laða fram í lífi okkar. Með því að fæðast sem barn inn í þennan heim laðar Guð fram hið besta í okkur og leysir úr læðingi kærleikann sem trúir, vonar og umber allt og fellur aldrei úr gildi. Þess vegna birtist Guð ekki sem ofurhetja eða yfirþyrmandi kraftbirting, heldur sem varnalaust, allsvana barn í jötu. Í Jesúbarninu þráir Guð þig eins og barn þráir foreldra sína og kallar eftir athygli þeirra og umhyggju. Í Jesúbarninu er Guð að sýna þér hvað mest er og mikilvægast alls. Jatan er tákn Guðs gegn hroka og oflæti, barnið litla er vottur visku hans andspænis heimsins afli og auði, orð og sögur Jesú segja okkur hvað mestu máli skiptir. Þess vegna er okkur svo mikilvægt að rifja þetta upp og læra, og kenna börnunum okkar. Þess vegna eru jólin.
Af sögu og orðum Jesú lærum við til dæmis að öll dýrmætustu gildi lífsins vaxa af rótum auðmýktar og kærleika. Það er auðvelt að gleyma því, ekki síst á allsnægtatímum þar sem nægtahornin virðast ótæmandi og tilboðin sífellt glæstari. En víst er að gleði og friður ná ekki að fylla hjarta manns ef friðleysi og streita, reiði og vantrú hefur sest að í sálinni. Hversu mjög sem tjaldað er til og á sig lagt til að ná sér í réttu stemningu hinna fullkomnu jóla, þá nægir það ekki. Því miður. En til að gera hreint hið innra nægir ekki að sópa út, heldur þarf að ljúka upp fyrir Guði, sem er kærleikur. Gleði og friður streymir fram í hjörtum þeirra sem ljúka upp fyrir kærleikanum.
Hvers vegna eru jólin? Vegna þess að Guð gefur okkur þau. Guð sem elskar þennan heim og gaf son sinn, Jesú Krist, til lífs og heilla heiminum öllum. Jólaguðspjallið er frásagan af því, sagan af barninu sem lagt var í jötu, af trúfesti hirðanna og söng englanna. Þessi látlausa, yndislega saga mun óma um heimsbyggðina alla í nótt, í orðum og tónum, ljóði og söng. Hlustaðu eftir því sem hún er að segja! Og þiggðu þá gjöf sem þar er rétt til þín. Leitastu við að lifa í meðvitund um að þú ert umvafin ást og náð, umhyggju og kærleika Guðs allar stundir. Horfðu með þeim augum á jólaljósin, og taktu utan um þau sem þér eru næst, og hlustaðu eftir orðinu um frelsarann sem fæddur er, barnið í jötunni, sem er Drottinn þinn og Guð þinn. Hann gefi þér og þínum gleðileg jól.