Kveðjumessa 31.8. 2014
Kæru vinir, ég væri nú ekki að segja satt ef ég héldi því fram að ég væri ekki búinn að kvíða því að halda þessa prédikun. Það eru stór tímamót fyrir mig sem persónu að kveðja embætti sóknarprests og það er margt sem mér hefur verið kært sem hverfur út úr lífi mínu við umskiptin. Fyrir mörgum árum las ég bók sem hafði áhrif á mig og ber heitið The road less traveled (M. Scott Peck) og mun hafa verið íslenskuð fyrir árum síðan. Hún hefst á þessum orðum: Lífið er sársaukafullt. Síðar í bókinni segir höfundur sögu af manni sem kemur til borgar einnar, á þar erindi og hefur með sér gamla götukortið sitt sem alltaf hafði nýst svo vel en fljótlega fer hann að reka sig á þá staðreynd að sitthvað hefur breyst í borginni svo að gamla góða götukortið rímar ekki lengur við veruleikann. Sársaukinn sem höfundur er að fjalla um í bók sinni er þjáningin sem óhjákvæmilega fylgir því þegar lífið sækir fram. Okkur þykja breytingar erfiðar af því að við óttumst sársaukann sem fylgja m.a.s. góðum breytingum. Fyrsta árið í ástarsambandi er oft í hálfgerðri þoku í minningu fólks, vegna þess að þetta var svo flókið og yndislega erfitt. Það er líka þekkt staðreynd að stórir happdrættisvinningar setja vinningshafa í margvíslega hættu og erfiðleika.
Í guðspjalli dagsins ganga fram tveir menn og hafast ólíkt að. Faríseinn í sögunni gengur fram í ótta og reynir að brynja sig gagnvart sársauka lífsins með því að nota hroka, hinn fer leið iðrunarinnar. Jesús leggur faríseanum orð í munn: Guð ég þakka þér fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða eins og þessi tollheimtumaður. Ég borða hollt, hreyfi mig reglulega og styrki mörg góð málefni. – eða hvað hann sagði. En tollheimtumaðurinn leit ekki einu sinni upp heldur mælti: Guð vertu mér syndugum líknsamur.
Algengasta aðferðin sem við notum til þess að hliðra okkur hjá því að endurskoða hluti og takast á við óþægindin sem breytingum lífsins fylgja er hroki. Við eigum öll í okkur hroka og kunnum ágætlega að beita honum. Við hreykjum okkur einkum upp yfir aðra, búum til okkar eigið kort af veruleikanum, með því að tala um fólk og bera okkur saman við það á hagstæðum nótum fyrir okkur sjálf. Við gerum þetta öll með einum eða öðrum hætti jafn vel þótt við séum ekki stolt af því. Og þegar við gerum mistök þá vaknar hjá okkur blygðun og við reynum að breiða yfir mistökin og láta ekki sjást hvað við erum ófullkomin. Það þótti mér einmitt erfiðast þegar ég byrjaði í prestskapnum fyrir 24 árum þegar ég fór að standa frammi fyrir eigin mistökum sem ekki var hægt að fela.
Ég gleymi því aldrei þegar ég fór á fyrstu þjóðhátíðina mína í Vestmannaeyjum sem sóknarprestur í bænum og mæti þar glaðlegu pari hönd í hönd, sem ég kannaðist vel við, vinkaði og sagði - gaman að sjá ykkur og takk fyrir síðast. Hún horfði á mig jákvæð en samt eitthvað kindarleg og maðurinn var spyrjandi í framan. – Var ég ekki að gifta ykkur á laugardaginn? Sagði ég. Þá sleppti hún hönd mannsins gekk ákveðnum skrefum að mér, tók þéttingsfast í upphandlegginn á mér og hvæsti milli tannanna: Þú varst að veita mér skilnað þetta er nýi kærastinn! Ég varð alveg að gjalti. Þegar ég verð búinn að skrifa doktorsritgerðina er ég að hugsa um og setjast við og skrá niður allar þær margvíslegu útfærslur af gleymsku og óhöppum sem ég hef orðið fyrir í prestsþjónustu. Þetta yrði svona tilfellafræði, bók um víti til að varast. Einu sinni kom ég skeiðandi út af skrifstofunni hérna niðri fimm mínútum á eftir sjálfum mér miðað við bókuð viðtöl, átti von á brúðhjónum, og þarna sátu þau prúð í forstofunni: Komið þið sæl og fyrirgefið hvað ég er seinn og til hamingju með tilefnið. – það er nú e.t.v. full mikið sagt þótt hún mamma hafi stundum verið erfið, svaraði maðurinn. Þetta voru ekki brúðhjón. Það er bara hálfur mánuður síðan ég stóð hér við að skíra barn og uppgötvaði þegar ég var hálfnaður við að helga vatnið að það var ekkert vatn.
Og hvað gerir maður þegar ekki er unnt að fela mistökin af því þau blasa við? Framan af var ég vanur að berja á sjálfum mér, ásaka mig í huganum, skamma mig og reyna að herða mig upp og skammast til að muna hvað fólk heitir og vera ekki alltaf svona úti á þekju. En það var sama hversu harður ég var við sjálfan mig og hversu mikið ég skammaðist mín og skammaði mig það batnaði ekkert.
Með tímanum hef ég farið að þakka þessa augljósu vankanta. Iðulega er ég í óvissu með að þekkja fólk og það gerir það að verkum að ég hef bara orðið að koma eins fram við alla. Ég veit ekkert hver er frægur eða hver er glæpon. Það er ekki það að ég kunni ekki kjaftasögurnar um fólk ég bara veit ekki hver á hvað. Þannig hefur hrokinn í mér koðnað æ oní æ og ég hef orðið að una eigin takmörkunum og reyna að tileinka mér aðferðina sem Jesús bendir okkur á; iðrunina.
Iðrun er líkt og hrokinn, aðferð sem beita má í glímunni við sársauka lífsins. Við erum jú öll þannig saman sett að við höfum iður, - innyfli. Iðrin í okkur miða upplýsingum. Við finnum í iðrum okkar hvort við höfum borðað rusl eða notað of mikið áfengi. Við skynjum í gegnum iðrin þegar við kvíðum eða hlökkum, reiðumst eða fögnum. Og þegar við finnum tilgangsleysi þá skynjum við það sem tóm hérna inni, ekki satt? Við eigum val í þjáningunni. Við getum valið að bregðast við með því að setja vellíðan og hamingju á svið, hreykja fram meintum yfirburðum okkar, líkt og faríseinn. Ríghalda í gamla götukortið með okkar hagstæðu útgáfu af veruleikanum, hvernig sem allt blasir við. Eða við förum þá leið að borða eða drekka ofan í þjáninguna, reykjum ofan í hana eða hvað við gerum til að fylla vanlíðunartómið sem iðrin miðla til okkar.
Mannþekkjarinn Jesús segir söguna af faríseanum og tollheimtumanninum til þess að hvetja okkur til þess að hanga hvorki á gamla kortinu né fara leið fíknarinnar, heldur iðrast. Að iðrast er að vera í samandi við skilaboð innyflanna. Hlusta á eigin líkama og kannast við líðan sína. Að iðrast er það að hætta að þykjast, hætta að hreykja sér eða deyfa sig, en leitast við að standa í ljósinu með eigið líf og taka við þeirri frétt að það er í lagi að vera sá eða sú sem þú ert. Já, það er meira en í lagi, það er elskuvert að vera þú. Það er m.a.s. elskuvert að vera þessi litli rauðbirkni miðaldra skallakarl sem hér stendur.
Og nú langar mig að segja ykkur hvað það er sem gleður mig mest varðandi Laugarnessöfnuð. Ég fann það í fjarlægðinni í vetur og skynjaði það með svo miklu þakklæti og feginleika. Ég held að hér sé samfélag fólks sem raunverulega kann að iðrast. Ég held að sú menning sem hér hefur þróast allt frá því sr. Garðar, Jón Dalbú og Ólafur Jóhannsson og fleiri voru hér við þjónustuna hver af öðrum sé menning raunverulegrar iðrunar. Þetta langar mig að útskýra.
Við vitum ofurvel að það er eitthvað ófínt við allt hér í þessari kirkju. Á hverri tíð er eitthvað mikilvægt í ólagi. Þakið lekur, hefur alltaf lekið og mun sennilega alltaf leka. Margt er orðið úr sér gengið að ekki sé minnst á tæknimálin standa oft tæpt. Það er mér ógleymanlegt þegar enginn prentari virkaði í húsinu og ég var að fara upp að jarða í troðfullri kirkjunni. Ég tók ferðatölvuna með mér þess albúinn að flytja ræðuna beint af skjánum, og man enn léttinn þegar ég snéri mér fram til að flytja guðspjallið og Gunnhildur sem þá var kirkjuvörður stóð þarna í dyrunum og sýndi mér eintak af ræðunni sem tekist hafði að prenta svo ég slapp fyrir horn í það skiptið. Ég segi ykkur það alveg heiðarlega að enda þótt ég og við öll sem hér iðjum og störfum höfum oft pirrað okkur á því að ná ekki að hafa fínni ásjónu á hlutunum en raun ber vitni þá veit ég að einmitt þessi þáttur gerir það að verkum að þröskuldurinn inn í húsið er lágur og dyrnar eru víðar frá félagslegu sjónarmiði. Það er hægt að ganga inn um þessar dyr og finna sig hér heima jafnvel þótt lífið manns sé í henglum og maður viti ekki sitt rjúkandi ráð. Og það eina sem raunverulega getur fælt frá og fælir stundum frá er það þegar fólki þykir félagsskapurinn barasta ekki nógu fínn hérna. Það er líka hverju orði sannara að við erum ekki fínn félagsskapur, í raun og veru erum við alveg glataður félagsskapur. Hér eignast enginn neitt sem máli skiptir. Hér er hvorki frægð né frami og ekki safnast peningarnir svo mikið er víst. Það eina sem við eigum er iðrunin í Jesú nafni. Það sem við eigum og gerir það að verkum að enda þótt ég kveðji embættið get ég ekki fyrir mitt litla líf kvatt söfnuðinn, eru þau sjaldgæfu forréttindi að vera samferða fólki sem kann að iðrast í stað þess að festast í hroka með staðnaða einkaútgáfu af veruleikanum eða flýja inn í fíkn. Við erum alls konar fólk á öllum aldri saman komið til þess að læra betur á lífið í Jesú nafni. Í miðri viku iðar hér allt af lífi í mörgum ólíkum smáhópum og á sunnudögum kl. 11 á sér stað þessi magnaði gjörningur þegar gengið er til altaris og fólk sem þekkist í raun harla lítið og á fátt sammerkt í daglegu lífi gengur einhuga að borði til þess að staðfesta í verki þann einfalda sannleika að við erum öll systkin. Við neytum úr söm skál og af sama kaleik og lýsum því yfir með göngunni upp að altarinu að við erum hvorki meira né minna en manneskjur, – ekkert meira og ekkert minna en Guðs börn, systkini og lærisveinar Jesú frá Nasaret. Og það er nóg.
Fyrsta altarisgangan sem ég þjónaði við 27 ára gamall var hér við þetta borð. Þegar ég hafði misst allar obláturnar í gólfið og þurft að sópa þeim saman krjúpandi hér í helgiklæðunum að viðstöddum vígslubiskupi sr. Jónasi Gíslasyni og fleira góðu fólki. Blessuð sé minning hans. Þá kom að því að flytja blessunarorðin og þau voru svona: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sín ásjónu lýsa uppundir þig... Mér var ekki hlátur í hug á þeirri stundu.
Að svo mæltu þakka ég öllu mínu marga og góða samstarfsfólki þá samleið sem ég hef átt með ykkur í embætti sóknarprests og hlakka til framhaldsins í breyttu hlutverki með Laugarnessöfnuði um ókomin ár. Amen.