Alltaf erum við að græða einhverjar mínútur. Tíu hér og tíu þar. Inn á markaðinn streyma tækninýjungar sem snúa á tímann. Hraðsuðukatlar láta vatnið sjóða á mettíma, steikurnar stikna á spanhellunum nánast um leið og búið er að kveikja undir þeim, internettengingarnar verða sífellt hraðari og bílarnir hafa aldrei verið fljótari upp í hundraðið. Miðað við allan þann tíma sem nútímamaðurinn er án afláts að spara, allan þann haug af mínútum sem hann er alltaf að græða, mætti búast við að hann hefði nógan tíma, þyrfti aldrei að flýta sér og gæti lifað mjög yfirveguðu og streitulausu lífi. En það er nú öðru nær. Rannsóknir sýna að streita og kvíði hefur vaxið svo mjög í vestrænum samfélögum á síðustu árum að kalla má faraldur. Okkur liggur lífið á. Okkur liggur svo mikið á, þrátt fyrir allan tímasparnaðinn sem stöðugt er verið að selja okkur, að við höfum varla tíma til að lifa og okkar helstu áhyggjur snúast um hversu fljótt strax sé. Við höfum gleymt þeirri fornu speki og visku að allt hefur sinn tíma. Allt þarf og tekur sinn tíma. Og það er ekki slæmt að það þurfi tíma því tíminn er góður. Sá sem vill vaxa og þroskast þarf tíma. Það á ekki síst við á andlega og trúarlega sviðinu. Meðal annars þess vegna eru plöntur áberandi í táknfræði kirkjuársins, t. d. páskaliljur, pálmagreinar og grenitré. Plöntur þurfa að vaxa. Þær þurfa sinn tíma. Þær þarf að annast. Og allt þetta gerist hægt. Það krefst þolinmæði að rækta plöntur. Enginn getur lagt stund á slíkt sem ekki kann að listina bíða. Framundan er skemmtilegur tími. Hin ríka, spennandi, ævintýralega, annasama og hraða aðventa. Við gerum vel við okkur í mat og drykk njótum fagurra lista og menningar, lesum nýútkomnar bækur, sækjum dásamlega tónleika og eigum góðar samverustundir með vinum. Allt þetta getur verið bæði gefandi og uppbyggilegt. Það er samt engin tilviljun að alstaðar í veröldinni nota menn svipaðar aðferðir til að koma sér í samband við uppsprettu lífsorkunnar. Trúarbrögðin eru misjöfn, skoðanirnar margar en aðferðirnar líkar: Það er kveikt á kertum, menn sækja í ró og næði, kyrra hugann og tæma, hlýða á seiðandi tóna eða þögnina sjálfa. „Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera,“ segir í spádómsbók Jesaja. Hraðinn og hávaðinn eru óvinir hinnar andlegu upplifunar. Þangað er ekki hægt að stytta sér leið. Hún hefur sinn tíma. „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“ Nú er hann að koma til okkar. Fátt á aðventan dýrmætara að gefa en hina hljóðu stund, hinn hæga takt og hina auðmjúku þakklátu sál, opna fyrir himneskum gjöfum.