Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup trúir mikill meirihluti íslendinga, eða alls 71 prósent, á Guð eða æðra máttarvald. Það eru ánægjulegar fréttir.
Hitt er athygli vert að einungis 22 prósent trúa því að Guð hafi skapað alheiminn. 68 prósent telja þess í stað að alheimurinn hafi orðið til í Miklahvelli sem svo er nefndur. Af þessu mætti ætla að kenningin um Miklahvell og trúin á Guð sem skapara alheimsins væru andstæður. (Þannig var möguleikunum raunar stillt upp í könnuninni.)
Þetta vekur upp ýmsar spurningar. Ein er sú hvernig Guð getur verið Guð í réttum skilningi þess orðs en ekki verið ábyrgur fyrir tilvist alheimsins. Það er umhugsunarvert.
Miklihvellur er sú viðtekna kenning að alheimurinn eigi sér upphaf. Samkvæmt henni er alheimurinn ekki eilífur heldur varð hann til á tilgreindu augnabliki í fortíðinni. Með öðrum orðum er hugtakið Miklihvellur notað um þann atburð sem markaði upphaf tímans og alls rúms, efnis og orku. Samkvæmt því var alheimurinn alls ekki til fyrir Miklahvell.
Miklahvellskenningin hefur verið svo ríkulega staðfest með athugunum og mælingum að „í dag trúa nánast allir því að alheimurinn hafi orðið til í Miklahvelli“, svo vitnað sé til orða hins þekkta eðlisfræðings Stephen Hawking.
Hvaða þýðingu hefur þetta?
Segjum að þú sért í gönguferð með vini þínum og heyrir allt í einu gríðarlega mikinn og háværan hvell. Þú lítur skelfingu lostinn á vin þinn og spyrð hvað í ósköpunum hafi gerst. Vinurinn horfir á þig af nokkurri undrun og segir síðan af stillingu: „Vertu nú rólegur. Ekkert gerðist. Það var ekkert sem orsakaði þennan hvell. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann kom upp úr engu.“
Þú mundir ekki fallast á jafnfráleitt svar. Þú veist mætavel að af engu kemur ekkert og að allt sem verður til á sér orsök.
Það sem gildir um lítinn hvell á líka við um mikinn hvell!
Að alheimurinn eigi sér upphaf merkir að hann á sér orsök. Sú orsök er eðli málsins samkvæmt utan og ofan við alheiminn sjálfan því hún orsakaði alheiminn. Hún er því handan tíma, rúms, efnis og orku. Orsökin er utan og ofan við hinn náttúrulega veruleika sem alheimurinn er og því er hún í réttum skilningi yfirnáttúruleg. Sem orsök tíma, rúms og efnis er hún jafnframt óbundin af tíma, rúmi og efni og þar af leiðandi eilíf, rýmislaus og óefnisleg.
Hvað svo sem slík orsök er kölluð er síður en svo óviðeigandi að kalla hana Guð. Raunar er það í hæsta máta skynsamlegt.
Ummæli breska eðlisfræðingsins Arthur Eddingtons koma hér til hugar: „Upphaf alheimsins felur í sér slíka erfiðleika að þeir eru óyfirstíganlegir nema við séum tilbúin til að líta á það sem hreint og beint yfirnáttúrulegt.“ Margir vísindamenn hafa tekið undir það, meðal annars eðlisfræðingurinn Robert Jastrow, sem gekk enn lengra í ummælum sínum: „Stjörnufræðingar hafa málað sig út í horn. Með eigin aðferðum hafa þeir sýnt að alheimurinn varð til fyrir sköpun sem leiddi til alls sem fyrir augu ber . . . Að hér sé eitthvað að verki sem ég og aðrir myndum kalla yfirnáttúrulegt tel ég vísindalega sannaða staðreynd.“
Hvers vegna gera sumir jafn skarpan greinarmun á sköpun alheimsins og Miklahvelli og áðurnefnd könnun ber vitni um? Ef til vill vegna sköpunarfrásögu Biblíunnar. Miklihvellur kemur þar hvergi beint við sögu svo sem von er.
Sköpunarfrásaga Biblíunnar er margslungin frásaga sem allt of sjaldan er lesin á sínum eigin forsendum og í eðlilegu og réttu samhengi. Þegar það er gert kemur hins vegar í ljós að ekki er um að ræða tilraun til að útskýra tilurð alheimsins í vísindalegum skilningi. Markmið sköpunarfrásögunnar er fyrst og síðast að bera fram með sínum hætti þá játningu að Guð er skaparinn og ennfremur að miðla þeirri trúarsannfæringu að ástæða þess að alheimurinn er til er sú að Guð ákvað að skapa hann.
Hér er engin mótsögn á ferð!
Í stað þess að grafa undan biblíulegri sköpunartrú skýtur kenningin um Miklahvell mjög svo sterkum vísindalegum stoðum undir þá skynsamlegu sannfæringu kristins fólks frá upphafi að „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð [þ.e. alheiminn]“ (1Mós 1.1).
Það er sannarlega umhugsunarvert, hvað sem öðru líður.