Flutt 4. mars 2018 í Hjallakirkju
Ég las það um daginn í góðri bók að það sé ekkert rými til fyrir hlutleysi í kristinni trú. Það fékk mig í kjölfarið til að hugsa um kirkjuna okkar og þann grunn sem við stöndum á í þjónustunni, prestar og allt það starfsfólk sem leggur kirkjunni lið, á einn eða annan hátt, á hverjum degi út um allan heim.
Við sem komum saman í kirkjunni erum jafn ólík og við erum mörg. Við eigum ólíkan uppruna, ólíkar aðstæður sem hafa mótað okkur í lífinu og við höfum eflaust mörg hver ólíkar ástæður að baki því, að við komum til kirkjunnar. Sum okkar hafa verið trúuð frá æsku, fengið barnatrúna sína í arf frá foreldrum og nær fjölskyldu. Aðrir taka trú síðar á ævinni, stundum í kjölfar áfalla eða einhvers annars, sumir finna Guð, öðlast frelsi á meðan aðrir glata trúnni og hverfa frá, sjá ekkert í þessu samfélagi sem kirkjan er sem getur gefið þeim stuðning og styrk í lífinu.
Því má heldur ekki gleyma að öll fóstrum við ólíka guðsmynd. Það er svo merkilegt að guðsmyndin okkar er líka breytileg eftir því hver við erum og hvernig lífið hefur leikið okkur. Guðsmyndin verður til í samhengi persónunnar, sögu hennar, samfélags og reynslu hennar af öðru fólki. Hún er lifandi og breytileg, alveg á sama hátt og Guð er lifandi veruleiki.
Vegna þessa lifandi fjölbreytileika getum við verið handviss um það að þegar við komum saman í því samfélagi sem kirkjan er þá verðum við á einum eða öðrum tímapunkti ósammála um ákveðin atriði trúarinnar, túlkun á Biblíunni, hefðum, siðum og venjum. Við verðum ósammála um ákveðin atriði sem lúta að helgihaldinu, vali á tónlist og jafnvel um atriði sem snúa að því hvort að við hæfi sé að presturinn sé háum hælum við athafnir eða mæti hreinlega berfættur með rautt naglalakk á tánum, klæðist ölbu eða hempu, tóni eða tóni ekki, sé karl eða kona, samkynhneigður eða gagnkynhneigður, svartur eða hvítur.
Við getum endalaust týnt fram atriði sem hægt er að deila um þegar kemur að kirkjulegum málefnum vegna þess að þegar kemur að kirkjunni þá erum við fæst hlutlaus, hún snertir okkar innsta kjarna, sama hvort við göngumst við því opinberlega eða ekki.
Þegar eitthvað snertir okkar innsta kjarna þá finnum til þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera, þegar húsið er sjálfu sér sundurþykkt, þá tvístrast hjörðin og verður óróleg, því grundvöllurinn og kjarninn er ekki heill. Þegar heilbrigðið vantar þá verður allt umhverfið vanvirkt og meðvirkt.
En stóra myndin er þessi: Það er allt í lagi að við séum ekki alltaf sammála, Jesús kom ekki fram til að flytja okkur þau skilaboð þess efnis að héðan í frá ættum við alltaf að vera sammála, vera hlutlaus. Ef það hefðu verið stóru skilaboðin, þá værum við ekki hér í dag 2000 árum síðan, enn að velja presta til að þjóna við kirkjuna í heiminum og enn að kalla fólk til lifandi samfélags á vettvangi hennar.
Þessi orð Jesú í guðspjalli dagsins: Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. er ekki yfirlýsing þess að allir eigi að hafa eina sanna og sameiginlega skoðun á því hver Guð sé og hvernig kirkjan eigi að starfa. Haldi einhver því fram, er hann nú þegar á villugötum.
Við erum saman komin hér í dag af því að við finnum eitthvað sem snertir sameiginlega þennan innsta kjarna okkar og við viljum að hann sé heill því við höfum fundið í Jesú og í kirkjunni samfélag sem við viljum tilheyra. Við vitum öll líka, sem erum hér saman komin að kirkjan er ekki eins í dag og hún var fyrir fimmtíu árum, hundrað árum, þúsund árum eða jafnvel tvö þúsund árum.
Margt hefur breyst og í gegnum aldirnar hefur verið reynt að túlka og skilja þann veruleika sem Guð er og sem birtist í maninnum Jesú Kristi.
Við höfum alla þessa sögu af túlkunum og kenningum, deilum, sundurlyndi, séð kirkjur klofna, aðrar verða til og lifa og enn aðrar sem hverfa og deyja.
En þrátt fyrir allt sem hefur verið sagt og skrifað í tímans rás, þrætt og rökrætt – þá erum við enn að tala um lifandi samfélag sem verður til meðal fólks af holdi og blóði á hverjum tíma, þar sem hver dagur er nýtt upphaf, ný sköpun.
Við höfum tækifæri á hverjum tíma til að gera betur, læra af mistökum
sem gerð hafa verið og halda áfram að byggja samfélag sem hvílir í
kjarnanum, í Guði sem kom í heiminn til að hjálpa okkur að greina þennan
kjarna frá hisminu.
Guð sem er skilyrðislaus kærleikur en á í stöðguri baráttu við illskuna í
heiminum í dag sem vill jaðarsetja hann og sundurdreifa, því hvað
hentar hinu illa betur en hjörð sem þekkir ekki veginn heim og trúir
falsspámönnum sem vilja leyfa illum anda að hreiðra um sig, þannig að
engum líði vel. Raunin er sú að allir verða varir um sig í samfélagi sem
elur á tortryggni, hroka og vantrausti. Það er þar sem hinu illa líður
vel og dafnar sem aldrei fyrr.
Hér í Hjallakirkju horfum við til nýrra tíma. Á einu ári hafa verið valdir tveir nýir prestar til þjónustu, sú sem hér stendur og sr. Karen Lind og horfum við saman bjartsýnum augum fram á veginn. Hér er gott andrúmsloft eftir farsælan tíma sr. Sigfúsar Kristjánssonar sem hvarf til nýrra starfa í desember á biskupsstofu og færum við hér honum kærar þakkir fyrir þjónustuna.
Hér er ekki margt starfsfólk en afskaplega gott og yfir öllu vakir sóknarnefnd sem vill að hér vaxi upp og starfi öflugur söfnuður og lifandi samfélag í góðum anda.
Það er sannarlega minn vilji að hér sé samfélag þar sem okkur líður öllum vel, þar sem vel er tekið á móti fólki, þar sem á alla er hlustað, allar ólíkar raddir og skoðanir, en við getum stundum líka verið ósammála, þolað gagnrýni og á endanum sameinast um það að við erum hér, af því að við deilum sama kjarna sem er trúin á Jesú Krist og að við brennum fyrir því sem okkur hefur verið trúað fyrir en það er þjónustan og boðun fagnaðarerindisins í heiminum í dag.
Kirkjan er rými sem umfaðmar mennsku og mannlegan breyskleika ekki fullkomleika. Það er hennar styrkleiki, um leið og kirkjan telur sig bara getað fangað fullkomleikann, þá hefur hana borið langt af leið og er rekin áfram af illum anda sem vill auðn hennar, en ekki líf.
Verkefni okkar í dag, í kirkjunni er einmitt að safna saman öllum þessum mennska veruleika og sameinast um það að jafnvel þótt að við gerum öll mistök, okkur verði stundum á, þá eigum við skjól í samfélagi sem veit þetta allt nú þegar – að við erum einmitt ekki fullkomin og eigum öll þess vegna möguleika saman í þessu lífi. Það eru góðu fréttirnar, það er enginn það breyskur að hann eigi ekki von í mannlegu samfélagi.
Kirkjuhurðin er alltaf opin fyrir þig og þröskuldurinn enginn. Hingað ertu alltaf velkomin, þín rödd er mikilvæg, þitt líf dýrmætt og hér þarftu ekki að vera neitt annað en þú ert.
Yfirborðsmennskan og sýndarveruleikinn má verða eftir fyrir utan. Hér sameinumst við í kjarna lífsins, sem er manneskjan, öll vera hennar, með kostum og göllum, í trú á Guð sem dæmir ekki, vill að við séum frjáls og trúum á hann, ekki í hlutleysi heldur á lifandi Guð sem þykir svo óendanlega vænt um okkur að hann varð hold til að verða hluti af okkur og við yrðum um leið hluti af honum.
Þegar við lifum svona, erum við að safna saman og byggja upp. Og í þeirri uppbyggingu sköpum við ekki rými fyrir illa anda, því við vitum að saman getum við verið ófullkomin, breysk, mannleg, verið ósammála og ólík en aldrei hlutlaus því við hvílum í því að við eigum fjársjóð í Jesú Kristi sem varðveitir hús sitt í sönnum friði og heilögum anda.
Sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það.
Góður Guð vaki yfir Hjallasöfnuði, öllum sem hingað koma, yfir starfsfólki og sjálfboðaliðum og gefi að allt starf hér verði alltaf Guði til dýrðar og söfnuðnum til blessunar.
Amen.