Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þegar Jesús reið á asnanum inn í Jerúsalem viku fyrir páska þyrptist fjöldi fólks að úr borginni - aðkomumenn og aðrir- til að taka á móti honum í fögnuði því það hélt að hann væri kominn til að taka völdin og frelsa. Leysa hina hersetnu þjóð undan oki rómverska valdsins. Svo mikil var gleðin, eftirvæntingin og fyrirframgefna sigurvissan og víman að fólkið hjó greinar af pálmatrjám og lagði á veginn - og þess vegna heitir þessi dagur pálmasunnudagur - auk þess sem sumir fóru úr yfirhöfnum sínum og lögðu einnig á veginn í til að fætur asnans myndu ekki óhreinkast við að snerta jörðina. Já það ver tekið á móti Jesú sem konungi því þau væntu þess að hann myndi leysa úr ánauð Ísrael. Væntingar og vonir um frelsun þjóðarinnar voru mjög sterkar á þessum tíma enda var herseta rómverska keisarahersins í landinu grimm og miskunnarlaus með fjölda dauðrefsinga og pyntinga á ári hverju. Var nema von að fólkið fagnaði? af því nú myndi allt breytast.
Og mörg voru þau sem fögnuðu Jesú líka vegna þess að þau skynjuðu komandi lausn og frelsi frá andlegum og trúarlegum fjötrum rétthugsaranna sem vissu upp á hár - (að eigin vissu, trú og valdi) - hvernig og hvað fólk ætti að hugsa - hvernig þætti að bera sig að við bænir og hvernig það ætti alla daga allar stundir að haga lífi sínu og vera. Já með sanni verður sagt að þjóðin, sem Jesús var af, hafi verið í andlegum og veraldlegum fjötrum sem þrýstu sér eins og oddhvöss þyrnilengja, er vafinn var um þjóðarlíkamann. Og nú var í hugum margra frelsunin á leiðinni því Jesús var að koma þessi maður frá Nazaret sem hafði örfáum árum áður tekið að ganga um og kenna, leiðbeina, lækna, hugga, fyrirgefa og komið inn í líf svo margra á sterkan, leyndardómsfullan og afgerandi hátt. Og hér kemur hvatning - kæru tilheyrendur - um að lesa um Jesú og fræðast betur um hann af síðum guðspjallanna fjögurra Mateusarguðspjalls, Markúsarguðspjalls, Lúkasarguðspjalls og Jóhannesarguðspjalls en þau greina frá því hver störf og kenningu Jesú Krists eru. Já, ekki væri úr vegi að taka með sér Nýjatestamenntið í ferðlögin á dimbilvikunni sem nú er að byrja og komandi páskum og lesa í því.
Þegar Jesús reið á asnanum inn í Jesúsalem hrópaði fólkið: „Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Konungur Ísraels.“ Já fögnuðurinn var mikill og glæsilega er þessi innreiðar söngur túlkaður og tjáður í söngleiknum Jesus Christ superstar í laginu: „Hósanna hey - Jesus Christ superstar.“ Önnur stórkostleg tónlistarverk hafa verið samin um þessa innreið eins og til dæmis: „Slá þú hjartans hörpustrengi“ eftir Jóhann Sebastian Bach. Þá eru líka til þekkt og glæsileg málverk í myndlistarsögunni af þessum atburði inreiðarinnar í Jerúsalem. Guðspjallstextinn um innreið Jesú í Jerúsalem er aðalguðspjallstextinn í guðsþjónustum kirkjunnar á pálmasunnudegi enda er þetta svo afgerandi frásögn. En kirkjan hefur líka þann sið bjóða upp á aðra Guðspjallstexta sem kallaðir eru önnur og þriðja textaröð. Þær endurspegla eða varpar betur ljósi á innihald og hugsun fyrstu textaraðarinnar. Guðspjall þessa dags - sem lesið var hér áðan er af annarri textaröð og fjallar eins og við heyrðum um það þegar kona ein brýtur alabastursbuðk til að smyrja Jesú með dýrum smyrslum.
Þetta með smurninguna í guðspjöllunum og Biblíunni vafðist mikið fyrir mér þegar ég var strákur - ég áttaði mig ekki á því að til væru ýmsar tegundir af olíu, ég hélt að það væru bara til olíur á bíla, taktora og báta. En síðar lærði ég að til eru margar tegundir af heilnæmum og góðum olíum fyrir húð og hár. Olíur og smyrsl unnin úr alls konar jurtum, trjám og lyngi. Slík olía var notuð þegar konungar voru smurðir til að taka við tign sinni og við önnur tækifæri þegar einhverjum var trúað fyrir því að setjast í valdasæti eða því um líkt. Auðvelt er að draga upp ýmsar myndir í huganum af þeim gerðum og orðum sem fram koma í Guðspjalli dagsins. Við sjáum fyrir okkur þar sem Jesús situr með lærisveinum sínum og öðrum. Og ljóst er að einhverjir þeirra sem þar eru - búast enn við því að hann muni verða sá sem völdin tekur. Reikna jafnvel með að þeir muni fá að sitja við hlið hásætis hans, verða jafnvel ráðherrar eða eitthvað því um líkt. Hið mannlega eðli kemur svo oft í ljós hjá lærsveinunum og í lýsingum á öðru fólki í guðspjöllunum. Og svo kemur þessi kona sem hefur ekkert nafn. Hún truflar samkvæmið og eyðileggur fallega smyrslabaukinn og hellir yfir höfuð Jesú nákæmlega eins og gert var þegar konungar voru smurðir til tignar sinnar.
Þetta er í sjálfu sér rökrétt því ekki var svo langt um liðið frá því hann reið inn í Jerúsalem á asnanum við fagnaðaróp lýðsins. Slík smyrsli voru líka notuð til þess að búa hina dánu fyrir greftrun sína sem við getum séð í guðspjalli komandi páska. Þeir sem þarna eru hneykslast á konunni og tala niður til hennar skamma hana fyrir að hafa eytt þessum dýru smyrslum sem hefði mátt selja fyrir mikinn pening svo gefa fátækum. Þarna ætluðu þeir að ná sér í prik sýna að þeir hefðu tileinkað sér boðskapinn og kröfu Jesú um að við styddum og gæfum alltaf hinum fátæku þegar við ættum þess nokkurn kost. Enda tekur hann mjög sterkt undir það viðhorf í samkvæminu og víða annars staðar í kenningu sinni. Á þessari stundu áttuðu þeir sig ekki á djúpi kærleika konunnar og einsemd Jesú, þeir voru svo uppteknir af sjálfum sér. Stundum er lífið nefninlega þannig að við sjáum ekki það sem augljóst er - fyrr en eftir á. Þeir skynja ekki þá sorg og þær hremmingar sem í vændum eru.
Frá þessum atburði er einnig sagt í Matteusarguðspjall og þar er konan líka án nafns en í Jóhannesar guðspjallii er þetta María Magdalena sem sat við fætur guðsonarins og nam orðin af vörum hans sem greint er frá í niðurlagi 10 kafli Lúkasarguðspjalls Það er hún sem látin er syngja fallega lagið með þrungna textanum „I dont know how to love him“ í söngleiknum sem nefndur var hér áðan Jesus Christ superstar. Og verður sunginn hér í Reykjavík einhvern næstu daga. Já hver var þessi kona? Jesús segir hvar sem guðspjallið verður lesið um heiminn verður frá þessu sagt til minningar um hana. -- Til minningar um hana. -- Hin mikla áhersla hans á gjörning hennar dregur fram þá hugsun að hún ein hafi skilið á þessari stundu og áður, áttað sig á því hver Jesús var og til hvers hann var kominn. Og um leið skynjað að valdhafarnir og lýðurinn myndu eftir fáeina daga pína hann og deyða - sumt sama fólkið og það sem fagnaði honum eins og konungi nokkrum dögum fyrr. Hér má líka greina og gera sér í hugarlund að sambnd Jesú og Maríu Magdalenu hafi verið einstaklega öflugt og andlega sterkt eins og hún hafi verið sérstakur kvenengill Guðs, Jesú til styrktar. María Magdalena fylgdi honum alla leið og lagði aldrei á flótta. Hér sýnist hún mörgum plönum fyrir ofan strákana sem fylgdu honum og eru svo oft nefdir lærisveinar hans. Laun hennar voru þau að hún fyrst allra fékk að hitta hann upprisinn og verða um leið þátttakandi í sigri lífsins og boðun þess. Í kjölfarið var það einnig gjöf til lærisveinanna og alls mannkyns meira að segja okkar sem drögum nú andann í dag. Hásætið sem Jesús fékk nokkrum dögum eftir smurninguna var ekki í einhverri höll. Nei, það hásæti var á hæðinni Golgata, kross sem hann hann var negldur á þar sem hann dó, við nærveru Maríu Magdalenu Nú fer dymbilvikan í hönd og margir hugsa til daga hennar með tilhlökkun. Glæsilegir tónleikar á Ísafirði: „Aldrei fór ég suður,“ skíðaferðir og margt margt annað til andlegrar upplyftingar er í boði. Kirkjan biður fyrir því að allt gangi vel og að fólk eigi góða og fallega fjölskyldudaga um bænadaga og páska, en jafnframt vill hún benda fólki á að lesa til dæmis 18. og 19. kafla Jóhannesarguðspjalls sem greina frá því hvað Jesús gerði fyrir okkur og hvernig hann dó fyrir okkur á einhvern leyndardómsfullan hátt sem frekar verður skynjað en skilið. Hlíðni, auðmýkt og þjónusta við Guð og nánungan ættu að vera okkur sérstaklega töm þessa daga. Þegar við sjáum að lokum myndina fyrir okkur af Maríu Magdealenu í þjónustu sinni ættum við að hugsa: „Hvernig getum við líkst henni?“ Hvernig getum við lyft okkur upp andlega og treyst því að lífið hafi miklu æðri tilgang en að safna að sér auði og völdum og eltast við hégóman einan? Eltilngaleikurinn við hégómann leiðir til glötunar, vanlíðunar og stöðugs skorts. Gott væri þeim sem velta því fyrir sér í nokkrum kvíða í nútímanum hér hvað þeir geti gert við peningana sína að hugsa til orðanna sem Jesús mælti til þeirra sem hneiksluðust á konunni er hann sagði: „Fátæka hafa hafið þér jafnan hjá yður.“ Já biðjum þess að örlæti og miskunn ráði för í samfélagi okkar alla daga og alla tíma í Jesú nafni. Amen.