Textar dagsins: Jes.66.10-13; Opb.15.2-4; Matt.11.25-30
Á íslenska biblíuvefnum er þessi skýring sett með texta við guðspjall dagsins sem við heyrðum lesið áðan: ,,Ríki Guðs kollvarpar ríkjandi ástandi, það kemur á móts við væntingar hinna lítillátu en viska lærdómsmannanna fer á mis við það. Þeir sem eru vitrir í raun meðtaka skilaboð Jesú sem opinberun frá Föðurnum. Jesús þröngvar ekki upp á fylgjendur sína aga með harðri hendi. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir honum er að veita hvíld, að hughreysta þá sem honum fylgja. Í Nýja testamentinu eru tvö orð í grísku einkum notuð fyrir orðið hvíld. Annað gefur til kynna hina hinstu hvíld á himni þ.e.a.s. þá hvíld sem við öðlumst eftir jarðvistardaga okkar, en hitt orðið er notað yfir tímabundna hvíld. Það er hvíld sem upplífgar og hressir. Þegar Jesús segir: ,,Ég mun veita yður hvíld’’ þá á hann við hvíld sem er upplífgandi, hvíld sem gefur kraft. Jesús er fús til að létta af okkur byrðunum svo við getum haldið áfram að takast á við verkefni lífsins kvíðalaust, af styrk og af ábyrgð. Hann hughreystir og hvetur fylgismenn sína.
Dagur íslenskrar tungu var haldinn á föstudaginn til að heiðra eitt dáðasta skáld okkar Jónas Hallgrímsson. Fyrri hluti 19. aldar er dýnamískt tímabil í sögu okkar Íslendinga, þar renna tímar upplýsingar og rómantíkur saman við sjálfstæðisbaráttuna. Og í persónu og skáldskap Jónasar sameinast þetta þrennt.
Það er líka spenna í guðfræðiáherslum. Í tímaritinu ,,Ármann á Alþingi’’ sem kom út einu sinni á ári í fjögur ár frá árinu 1829 blundar hin vaxandi þjóðerniskennd sem kynnt hafði undir andúð á Dönum sem ekki mátti þó segja upphátt á þeim tíma. Tveir útgefendur eru af ritinu þeir Þorgeir Guðmundsson cand. theol. og Baldvin Einarsson lögfræðinemi. Ármann á Alþingi er í líkingu manns sem til var í árdaga og er hæðni og tvíræðni beitt til að benda á að hann tilheyri gömlum tíma sem er að verða úreltur og annað er tekið við. Svið samræðnanna er alltaf Alþingi á Þingvöllum. Baldvin er sagður hafa með óbeinum hætti talað fyrir endurreisn Alþingis.
Rökræðurnar hafa það markmið að skerpa línurnar milli árdaga, eða þess sem var, og til hinna nýju upplýstu tíma. Baldvin býr til þrjár persónur sem hver um sig er fulltrúi tiltekinna viðhorfa á Íslandi, ein fastheldin úr hófi, önnur frámunalega nýjungagjörn, og þriðja er blanda af íhaldsemi og nýjungagirni. Þessar þrjár persónur rökræða hin ýmsu mál, en svona sviðsetning í almennum texta og bókmenntum var talsvert í tísku á þessum tíma.
Það er aðeins ein predikun í ritunum fjórum sem út komu og er hún eftir Þorgeir. Hún er lituð af ný-rétttrúnaðinum og er í anda Jakop Peter Mynsters en Þorgeir ásamt Jónasi Hallgrímssyni og Konráði Gíslasyni þýddu margar af predikunum Mynsters. Þorgeir hugleiðir út frá texta Fjallræðunnar, ,,Leitið fyrst Guðsríkis og réttlætis’’. Í predikuninni koma átökin milli ný-rétttrúnaðarins og hugmynda upplýsingarinnar vel í ljós og það gætir ótta við þær breytingar sem eru að verða, þ.e. að valdið er ekki jafn línulaga og það var í lútherska rétttrúnaðinum eða eins og stundum er sagt lóðrétt. Öll óregla eða frávik frá því sem ætlað er að sé vilji Guðs geta kallað yfir menn vandræði. Stétt manna og staða eru hluti af lögmáli Guðs og þ.a.l. á einhvern hátt ófrávíkjanlegt og um það predikar Þorgeir.
Það er spennandi að bera þessar lóðréttu áherslur á opinberun guðdómsins við trúarstefin í Þjóðólfi sem hefur göngu sína við lok fyrrihluta 19. aldar eða árið 1948. Áhrif rómantíkurinnar eru allsráðandi því Guð er nú allt um kring og sköpunin vitnar um hann. Náttúran er kraftbirting guðdómsins og náttúrudýrkun skálda þessa tíma er án efa trúarleg.
Ágætt dæmi um það að Guð sé nær fólki er strax að finna í fyrsta árgangi Þjóðólfs 4. tölublaði. Þjóðin á ekki að vera ómagi annars lands, sérstaklega ekki lands sem er rýrara af gæðum en Ísland. Guð er sjálfur sannfærður um, að upp renni nýir tímar og er það algerlega í hans vilja að Íslandi losni frá Dönum og verði sjálfstætt ríki. Fólk er hvatt til að skipa sér í lið með Guði sem er hér settur í forystuhlutverk frelsisbaráttunnar, þó frumkvæðið þurfi að koma frá mönnum sjálfum.
Hér má segja að línan í opinberuninni sé orðin láréttari. Ævar Kjartansson, hinn kunni útvarpsmaður og guðfræðingur nefndi einmitt þætti sem hann fjallaði um guðfræði frá ólíkum sjónarhornum; ..Lóðrétt eða lárétt’’ en það er skírskotun í það að Guð opinberar sig á misjafnan hátt í lífi kristinna manna eftir því hverjar áherslur í boðuninni eru hverju sinni og einnig eftir því hvernig guðsmynd hvers og eins er.
En af hverju er ég að rifja þetta upp hér? Það er vegna orða Jesú Krists sjálfs: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“. Hann veitir þá hvíld sem gefur kraft og er lífgefandi. Menn á tímum upplýsingar og rómantíkur þáðu hvíld og sóttu kraft til Krists, eins og menn á öllum tímum geta hvílt við krossinn og þegið styrk.
Aðstæður frá fyrri hluta 19. aldar, þegar hér bjuggu einungis um 60.000 manns, flestir til sveita við afar bág kjör og samgöngur frá Reykjavík til Kaupmannahafnar voru betri á margan hátt en samgöngur innanlands eru ólíkar nútímanum þegar aðeins tekur örfáar sekúndur að fá upplýsingar í gegnum netið og jafnvel er hægt að bóka flug og fljúga út samdægurs. Þrátt fyrir þetta þá eiga allar kynslóðir á öllum tímum það sameiginlegt að það er einhvers konar barátta í gangi.
Á tímum Jónasar Hallgrímssonar sameinaði sjálfsstæðisbaráttan menn þó áherslumunur hafi verið hversu langt menn vildu ganga í sambandsslitum við Dani. Baráttumálin í dag eru æði fjölbreytt en eitt sameiginlegt baráttumál finnst mér þó vera ofarlega hjá flestum en það er baráttan fyrir velferð barna og ungmenna þessa lands.
Biskupsembættið ásamt ýmsum félagasamtökum er hafa velferð barna að leiðarljósi hafa staðið fyrir átaki sem ber yfirskriftina: ,,Verndum bernskuna’’. Þetta átak er til að minna á rétt barna og skyldur uppalenda. Leyfum barninu að vera barn Þorum að axla ábyrgð sem uppalendur Viðurkennum barnið eins og það er Verum til staðar fyrir barnið Munum að rækta okkur sjálf Hlífum barninu við ónauðsynlegu áreiti Setjum foreldrahlutverkið í forgang Veitum frelsi – en setjum mörk Verum barninu mikilvæg Verndum bernskuna
Það er von þessara stofnana og samtaka að framtak þetta hjálpi foreldrum og uppalendum í því vandasama verkefni að koma börnum til manns.
Og nú á dögunum kom út bókin: ,,Virðing og umhyggja – ákall 21. aldar’’ eftir Dr. Sigrúnu Aðalbjarnardóttur prófessor sem byggir á rannsóknum hennar og störfum. Hún beinir athyglinni að mikilvægi þess að rækta gildi sem almenn samstaða ríkir um, gildi sem með sanni heyra til kristinnar arfleiðar. Þau gildi sem hún leggur áherslu á að rækta eru: virðing, umhyggja, vinátta, kærleikur, réttlæti og umburðarlyndi. Hún hefur brennandi áhuga á hag barna og ungmenna og segir að einna brýnast sé að efla sjálfsvirðingu þeirra sem er forsenda þess að geta borið virðingu fyrir öðrum.
Í Ármanni á Alþingi var teflt fram þremur persónum sem allar höfðu sína táknmynd er áttu að sýna mikilvægi nýunga og framþróunar. Galdurinn var að ana ekki áfram einungis nýjunganna vegna né festast í farinu vegna óþarfa íhaldssemi.
Í dag er sama þörf fyrir nýjungar og framþróun, og enn er vandi okkar að horfa ekki um öxl með eftirsjá né óttast hið ókomna. Við sem lifum hér og nú höfum góðar framtíðarhorfur en við þurfum að þekkja söguna því til að byggja traust hús þarf góðan grunn.
Þrátt fyrir tölvuöld og hraða þráðlausra undratæka, tíma alþjóðavæðingar þegar landamæri eru að verða óljósari og þjóðerniskennd minnkar hjá stórum hópi fólks með öflugum samgöngum og flutningi þess á milli landa, þá er einkar gaman að skynja við lestur Þjóðólfs hversu hratt þeim fannst tíminn ganga og miklar og örar breytingar vera í gangi.
Það gætir ákveðinnar óþolinmæði, sem við þekkjum vel á okkar tímum. Í fjórða tölublaði árgangi 1848 er lýsing á vígslu Dómkirkjunnar 25.október sama ár. Þar er vitnað í Helga Thordersen biskup sem segir í ræðu sinni: ,,Að það væri ekki ófyrirsynju, að drottinn hefði látið reisa þetta veglega hús í landi voru einmitt á þessum tíma, er það, eins og talandi vottur um hans dýrðlega nafn, skyldi þrýsta mönnum til trausts og trúrækni á þessum ókyrrlátu tímum og brjáluðu öld.’’
Það má því kannski reikna með ókyrrlátum tímum og brjálaðri 21. öld eða hvað, fyrst mönnum um miðbik 19. aldar þótti svo á sínum tíma? En við verðum eins og þá að halda í trúna á heppilega framþróun, vera bjartsýn og trúa því að Guð sé í og með okkur í sameiginlegum baráttumálum okkar.
Ég ætla ekki að rekja neinar lausnir hér, vitandi vel hvernig er að púsla saman annasömum dögum og reka stórt heimili. En við vitum vel að það er hægt á gagnrýninn hátt að meta hvað eru þarfir og hvað eru gerviþarfir. Því tengdu er gott að minna á að á miðvikudaginn kemur er forvarnardagurinn. Formlegar og óformlegar kannanir sem gerðar hafa verið á því hvernig unglingar vilja verja tíma sínum og þá með hverjum sýna ótvírætt að þeir vilja vera með fjölskyldum sínum. Þetta vitum við vel.
Annað sem er brýnt að mínu mati er að styðja við kennara og skólastjórnendur á öllum skólastigum, eins þá sem sinna íþrótta og æskulýðsmálum. Við þurfum að sýna það að við virðum störf þeirra en það skilar sér beint til barnanna okkar og í betra samfélag. En í öllu annríki og ókyrrð á öllum tímum er gott að hverfa til fyrirheitanna sem við heyrðum í lexíunni eða fyrri ritningarlestrinum: ,,Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum. Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður’’. Og í guðspjallstexta dagsins mátti heyra: ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
Boðleiðin er bein og boðunin er skýr. Þessi orð eru hughreystandi, nærandi og gefandi fyrir dagsins önn. Jesús þröngvar engu á fylgjendur sína. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir honum er að veita hvíld, að hughreysta og gefa von.
Við getum hvílt okkur við krossinn og jafnframt fengið kraft og styrk. Það eru góð fyrirheiti til að fara með inn í hversdaginn. Megi Drottinn Guð blessa okkur til þess. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.